Geymslur

Geymslur

 

Tollstjóri veitir leyfi til reksturs geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur. Heimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur á eftirtöldum geymslusvæðum: tollvörugeymslum, afgreiðslugeymslum farmflytjenda og viðurkenndra tollmiðlara, tollfrjálsum verslunum og birgðageymslum þeirra, frísvæðum, umflutningsgeymslum og tollfrjálsum forðageymslum.

Óheimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur utan fyrrnefndra geymslusvæða án heimildar tollstjóra. Einkaneysla, afnot eða sýning á vörum sem fluttar hafa verið á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur er óheimil. Þeir sem hafa ótollafgreiddar vörur í sinni vörslu til flutnings eða geymslu er óheimilt að láta þær af hendi án leyfis tollstjóra. Tollstjóri getur hvenær sem er gert vörutalningu á geymslusvæðum. Farmflytjendur og leyfishafar geymslusvæða bera ábyrgð á að geymsla og flutningur ótollafgreiddrar vöru sé í samræmi við tollalög númer 88/2005.

Tegundir geymslusvæða og skilyrði sem leyfishafar þurfa að uppfylla.

Afgreiðslugeymslur:

Farmflytjendur, sem flytja vörur frá útlöndum og tollmiðlarar geta fengið leyfi til reksturs afgreiðslugeymslu. Heimilt er að geyma ótollafgreiddar vörur fyrir rekstraraðilann sjálfan og aðra aðila, í allt að 6 mánuði frá komu flutningsfars til landsins. Ótollafgreiddar vörur eru að jafnaði ekki geymdar lengi í þessum geymslum heldur afgreiddar til notkunar innan lands eða til varanlegrar geymslu á öðrum geymslusvæðum.

Að uppfylltum skilyrðum 1-3. og 5.-7. töluliða 1. málsgreinar 91. greinar tollalaga númer 88/2005 getur Tollstjóri heimilað lögaðilum að reka afgreiðslugeymslu fyrir ótollafgreidda vörur.

Tollvörugeymslur

Er rekin af lögaðila sem veita öðrum þá þjónustu sem felst í starfsemi tollvörugeymslu, þar sem geyma má ótollafgreiddar vörur án tímatakmarkana, taka út einstaka sendingarhluta og óveruleg aðvinnsla vöru er heimil, svo sem umpökkun, merking, samsetning, prófun og þrif, enda verði hvorki úttekt né aðvinnsla til þess að tollflokkun vöru breytist.

Heimilt er að flytja innlendar vörur í tollvörugeymslu ef þær eru ætlaðar til nota við aðvinnslu sem heimil er í geymslunni . Einnig er heimilt að flytja innlenda framleiðsluvöru til útflutnings í tollvörugeymslu þegar heimil er endurgreiðsla verðjöfnunargjalda eða greiðsla verðjöfnunar við útflutning vöru.

Einnig er heimilt að geyma tollafgreiddar vörur í tollvörugeymslu að fengnu leyfi tollstjórans í Reykjavík í sama rými og ótollafgreiddar vörur.  Það þarf þó að vera skýrt aðgreint hvort um ótollafgreidda vöru er að ræða eða ekki samkvæmt birgðabókhaldi tollvörugeymslunnar.

Að uppfylltum skilyrðum 1. málsgreinar 91. greinar tollalaga númer 88/2005 getur Tollstjóri heimilað lögaðilum að reka tollvörugeymslu fyrir ótollafgreidda vörur.

Tollfrjálsar forðageymslur

Í tollfrjálsri forðageymslu má geyma má vistir, búnað og annan forða fyrir för í utanlandsferðum, auk varnings sem ætlaður er til sölu um borð í þeim. Í tollfrjálsar forðageymslur má flytja ótollafgreiddar vörur, vörur úr birgðum skipa eða flugvéla og innlendar framleiðsluvörur. Úr tollfrjálsri forðageymslu má aðeins selja og flytja vörur sem hæfilegan birgðaforða í far sem er í utanlandsferðum.

Að uppfylltum skilyrðum 1.-8. töluliða 1. málsgreinar 91. greinar tollalaga númer 88/2005 getur Tollstjóri heimilað lögaðilum að reka tollfrjálsar forðageymslur í tollhöfn þar sem geyma má vistir, útbúnað og annan forða fyrir för í utanlandsferðum auk varnings sem boðinn er til sölu um borð.

Tollfrjálsar verslanir

Tollfrjálsar verslanir eru reknar í flugstöðvum eða höfnum. Leyfið nær jafnframt til reksturs tollfrjálsrar birgðageymslu fyrir vörur til sölu í verslun leyfishafa. Eingöngu er heimilt að selja farþegum og áhöfnum millilandafara á leið úr landi vörur úr tollfrjálsri verslun. Tollstjóri getur þó heimilað leyfishafa að selja farþegum og áhöfnum millilandafara við komu til landsins vörur úr tollfrjálsri verslun. Slík verslun þarf að vera sérstaklega afmörkuð og eingöngu aðgengileg fyrir farþega og áhafnir sem koma til landsins.

Að uppfylltum skilyrðum 1.-3. og 6-9. töluliða 1. málsgreinar 91. greinar tollalaga númer 88/2005 getur Tollstjóri heimilað lögaðilum að reka tollfrjálsar verslanir í flugstöðvum eða höfnum.

Frísvæði

Á frísvæði er heimil aðvinnsla á ótollafgreiddum vörum og innlendum framleiðsluvörum umfram þá aðvinnslu sem er heimil í tollvörugeymslum. Leyfi má aðeins veita þeim sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum þjá þjónustu sem felst í rekstri frísvæðis. Leyfishöfum sjálfum er óheimilt að stunda iðnaðarframleiðslu, verslun, umboðssölu, heildsölu eða smásölu á frísvæðinu.

Heimilt er að flytja ótollafgreiddar vörur inn á frísvæði úr fari , afgreiðslugeymslu eða tollvörugeymslu. Einnig er heimilt að flytja innlendar vörur inn á frísvæðið er þær eru ætlaðar til nota við iðnaðarframleiðslu sem heimil er á frísvæðinu.

Að uppfylltum skilyrðum 1. málsgreinar 91. greinar tollalaga númer 88/2005 getur Tollstjóri heimilað lögaðilum að reka frísvæði.

Umflutningsgeymslur

Hlutverk slíkra geymslna er einungis að geyma ótollafgreiddar vörur þar til þær eru fluttar aftur af landi brott. Vörur sem fluttar eru í slíkar geymslur eru aldrei tollafgreiddar hér á landi. Umflutningsvörur hafa það sérstaka eðli að þær eru ekki ætlaðar til sölu eða ráðstöfunar innan lands. Einungis heimilt að veita þeim leyfi sem starfa í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felst í rekstri umflutningsgeymslu. Leyfishöfum sjálfum er óheimilt að geyma þar vörur eða stunda þar iðnaðarframleiðslu, verslun, umboðssölu, heildsölu eða smásölu.

Heimilt er að flytja ótollafgreiddar vörur í geymslurnar úr fari eða afgreiðslugeymslu.  Einnig er heimilt að flytja innlendar vörur í geymsluna ef að þeim er ætlað að viðhalda óbreyttu ástandi umflutningsvörunnar eða varna umflutningsvöru skemmdum. Iðnaðarframleiðsla og önnur aðvinnsla vöru er óheimil. Óheimilt er að flytja vörur sem þegar eru komnar í umflutningsgeymslu á annað geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Þá er einnig óheimilt að afhenda vörur úr umflutningsgeymslu til notkunar innan lands.

Að uppfylltum skilyrðum 1-9. töluliða 1. málsgreinar 91. greinar tollalaga númer 88/2005 getur Tollstjóri heimilað lögaðilum að reka umflutningsgeymslu.

Geymslur með leyfi

Eftirtaldir aðilar hafa leyfi til reksturs geymslusvæðis fyrir ótollafgreiddar vörur: 

Leyfishafi Heimilisfang Póstnúmer
Airport Associates APA Bygging 7 og 10 235 Keflavíkurflugvöllur
DHL Express Iceland ehf. Bygging 9 235 Keflavíkurflugvöllur
Eimskip, Klettagörðum Klettagörðum 13 104 Reykjavík
Eimskip, Hafnarfirði - Fjarðarfrost og útisvæði Óseyrarbraut 12 220 Hafnarfirði
Eimskip, Vöruhótel Tunguháls 11 110 Reykjavík
Eimskip, Selfoss Gagnheiði 76 800 Selfoss
Eimskip, Vestmannaeyjum Friðarhöfn 900 Vestmannaeyjum
Eimskip, Hornafjörður Álaugarvegi 8 780 Hornafjörður
Flutningsþjónusta Gunnars Fitjabraut 1b 230 Reykjanesbæ
Global Cargo Miðhellu 4 221 Hafnarfjörður
Icetransport ehf Selhellu 9 220 Hafnarfirði
Íslandspóstur Stórhöfða 32/Norðurtangi 3 110 Reykjavík/600 Akureyri
Samskip, Akureyri Tryggvabraut 4 600 Akureyri
Samskip, Egilsstaðir Kaupvangi 25 700 Egilsstaðir
Samskip, Reykjavík Kjalarvog 7-15 104 Reykjavík
Samskip, Selfoss Austurvegur 69 800 Selfoss
Samskip, Vestmannaeyjum Friðarhöfn 900 Vestmannaeyjum
Thor-Shipping Selhella 11 221 Hafnarfjörður
Vörumiðlun ehf. Eyrarvegi 21 550 Sauðárkróki
Airport Associates APA Bygging 7 og 10 235 Keflavíkurflugvöllur
Ekran Klettagarðar 19 104 Reykjavík
Senson ehf Skútuvogi 12 104 Reykjavík
Keflavík - Flight Services Reykjavíkurflugvelli 101 Reykjavík
Vöruhótel Eimskips Sundabakka 2 104 Reykjavík
Eimskip Klettagörðum Klettagörðum 13 104 Reykjavík
Eimskip Tunguhálsi Tunguháls 11 110 Reykjavík
Eimskip Akureyri Oddeyrarskála 600 Akureyri
Samskip Kjalarvogi Kjalarvogi 7-15 104 Reykjavík
Samskip Skútuvogi Skútuvogi 5 104 Reykjavík
Flugfélag Íslands - Reykjavík og Akureyri Reykjavíkurflugvelli / Akureyrarflugvelli 101 Reykjavík
Fraktflutningsmiðlun ehf Héðinsgötu 1-3 105 Reykjavík

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum