Hafnir og flugvellir

Tollgæslan sér um tolleftirlit á höfnum og flugvöllum og er samkvæmt lögum heimil umferð hvarvetna um strendur landsins og meðfram þeim, um hafnarsvæði og flugvelli.

Eftirlit er með komum og brottförum flutningsfara, inn- og útflutnings á vörum og tollafgreiðslu farþega og farmanna. Innan afgreiðsluferilsins er öll skjalaskoðun sem fer fram áður en heimild er veitt til samskipta vegna komu flutningsfars til landsins, afhendingar vöru og tollafgreiðslu farþega og áhafna.

Við komu til eða brottför frá landinu er þó skylt að nota viðurkennda staði, tollhöfn eða flugvöll. Stjórnanda fars ber að tilkynna Skattinum komu fars inn á tollsvæði ríkisins og brottför með hæfilegum fyrirvara. Flugumferðarstjórn og Landhelgisgæslan veita Skattinum upplýsingar um komu og brottför flugfara og skipa í utanlandsferðum.

Tollgæslu er heimilt að leita alls staðar í förum sem eru á tollsvæði ríkisins. Einnig er heimilt að leita í farartækjum sem eru á eða koma frá fermingar- og affermingarstöðum skipa og flugfara, svo og öðrum þeim stöðum þar sem ótollafgreiddar vörur eru eða hafa verið geymdar. Tollgæslu er enn fremur heimilt að leita í öllum farartækjum sem hún hefur rökstuddan grun um að flytji ólöglega innfluttar vörur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum