Leiðréttingar og kæruleiðir

Ákvörðun ríkisskattstjóra á virðisaukaskatti er kæranleg til hans innan 30 daga frá því skatturinn var ákveðinn og gildir það hvort heldur sem ákvörðunin er gerð á grundvelli innsendrar virðisaukaskattsskýrslu eða áætlunar. Sama gildir varðandi ákvörðun ríkisskattstjóra um skráningu á virðisaukaskattsskrá, synjun skráningar eða afskráningu.

Ný virðisaukaskattsskýrsla sem send er fyrir lok kærufrests í stað eldri skýrslu eða eftir að áætlun hefur farið fram er tekin sem kæra í þessu sambandi.

Sætti aðili sig ekki við úrskurð ríkisskattstjóra um fjárhæð virðisaukaskatts, skráningu á virðisaukaskattsskrá, synjun skráningar,  afskráningu og endurgreiðslu til opinberra aðila er heimilt að skjóta málinu til yfirskattanefndar að uppfylltum tilteknum skilyrðum, eða til dómstóla. Aftur á móti eru ákvarðanir ríkisskattstjóra um aðrar endurgreiðslur  á virðisaukaskatti, s.s. til íbúðareigenda vegna vinnu við íbúðarhúsnæði, kæranlegar til yfirskattanefndar. Þó er heimilt að sækja um endurupptöku til ríkisskattstjóra á ákvörðun hans ef lögð eru fram ný gögn eða sjónarmið sem ekki lágu fyrir við ákvörðunina.

Hvar og hvernig leiðrétti ég fyrri skil?

Komi í ljós mismunur á milli bókhalds og innsendra virðisaukaskattsskýrslna er heimilt að senda inn nýja og leiðrétta skýrslu. Leiðréttingar skulu fara fram rafrænt á þjónustuvef ríkisskattstjóra þar sem leiðrétta skal hvert uppgjörstímabil fyrir sig. Hafi skattframtali verið skilað vegna umrædds árs þarf þó að skila leiðréttingu á pappír með því að senda útfyllta skýrslu RSK 10.03 vegna einstaks uppgjörstímabils. Þurfi á hinn bótinn að leiðrétta fleiri en eitt uppgjörstímabil er hægt að notast við eyðublaðið RSK 10.26 til hægðarauka og leiðrétta öll tímabilin á sömu skýrslunni. Þeir aðilar sem nota almanaksmánuðinn sem uppgjörstímabil þurfa þó ávallt að nota RSK 10.03 til að leiðrétta fyrri skil hvort sem leiðrétta þarf eitt eða fleiri tímabil. Senda skal leiðréttingarskýrslurnar til ríkisskattstjóra.

Leiðrétting leiðir af sér greiðslu

Ef niðurstaða leiðréttingar hefur í för með sér að aðili þurfi að inna af hendi greiðslu í ríkissjóð skal hann greiða virðisaukaskattinn til innheimtumanns ríkissjóðs eins fljótt og unnt er, m.a. til að lágmarka fjárhæð dráttarvaxta.

Leiðrétting leiðir af sér inneign

Ef innskattur er hærri en útskattur á einhverju uppgjörstímabili endurgreiðir ríkissjóður mismuninn. Skilyrði endurgreiðslu inneignar er að virðisaukaskattsskýrslur fyrri uppgjörstímabila hafi borist ríkisskattstjóra.

Ógreiddum virðisaukaskatti vegna fyrri uppgjörstímabila og öðrum ógreiddum opinberum gjöldum til ríkissjóðs er skuldajafnað á móti endurgreiðslu.

Kæra til ríkisskattstjóra

Telji aðili ákvörðun ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt, nýskráningu á virðisaukaskattsskrá, afskráningu af virðisaukaskattsskrá eða endurgreiðslu til opinberra aðila vera ranga er heimilt að kæra ákvörðunina til hans innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðarins. Endurákvarði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt vegna eldri tímabila samtímis frumákvörðun virðisaukaskatts er kæruheimild einnig til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðar. Hafi ríkisskattstjóri á hinn bóginn lagt innsenda skýrslu aðila óbreytta til grundvallar ákvörðunar á virðisaukaskatti, og því engin tilkynning send, reiknast kærufrestur frá gjalddaga viðkomandi uppgjörstímabils. Ef innskattur á virðisaukaskattsskýrslu er hærri en útskattur þannig að frumákvörðun kveður á um inneign á virðisaukaskatti er kærufrestur 30 dagar frá dagsetningu tilkynningar þar um.

Kæra til yfirskattanefndar

Hafi ríkisskattstjóri úrskurðað um kæru aðila og hann sættir sig ekki við niðurstöðuna er honum heimilt að kæra ákvörðunina til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða frá dagsetningu kæruúrskurðar. Sama gildir hafi ríkisskattstjóri endurákvarðað virðisaukaskatt aðila. Úrskurður nefndarinnar er fullnaðarúrskurður um skattfjárhæð á stjórnsýslustigi en ágreining um skattskyldu og skattstofna má þó bera undir dómstóla.

Kæra til fjármálaráðuneytis

Taki ríkisskattstjóri ákvörðun um annað en skatta, gjöld og skattstofna, skráningu, afskráningu og um endurgreiðslur á virðisaukaskatti, s.s. um undanþágubeiðnir, er aðila heimilt að kæra ákvörðun hans til fjármálaráðuneytisins sem æðra stjórnvald. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðila er tilkynnt um ákvörðunina. Berist kæra eftir að kærufrestur er liðinn er einungis heimilt að taka málið til efnismeðferðar ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

  1. Afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða
  2. að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Berist kæra þó eftir að ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila verður hún ekki tekin til efnismeðferðar.

Málinu skotið til dómstóla

Ágreining um skattskyldu og skattstofn má einnig bera undir almenna dómstóla. Frestur til málshöfðunar eru sex mánuðir frá póstlagningu úrskurðar ríkisskattstjóra eða frá því að yfirskattanefnd úrskurðar í málinu, hafi niðurstöðu ríkisskattstjóra verið skotið til nefndarinnar.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Fullnaðarúrskurður yfirskattanefndar – 15. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd

Kæra til fjármálaráðuneytis – 7. gr. Stjórnsýslulaga nr. 37/1993

Kæra til ríkisskattstjóra – 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Kærufrestur til yfirskattanefndar – 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd

Leiðréttingar – 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Leiðréttingar – 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Málskot til dómstóla – 15. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd

Eyðublöð

Leiðrétting einstakra tímabila - RSK 10.03

Leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts - RSK 10.26

Virðisaukaskattsskýrsla - RSK 10.01


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum