Arður

Arður telst til fjármagnstekna

Ef þú átt hlut í félagi og færð arð, þá telst hann til skattskyldra fjármagnstekna, svo framarlega sem um er að ræða heimila arðsúthlutun.

Arður getur einnig verið önnur úthlutun verðmæta úr félaginu, sem telst sem tekjur af eignarhlut.

Arður telst til tekna á því ári sem ákvörðun um úthlutun er tekin, ekki endilega þegar hann er greiddur út.

Óheimil arðsúthlutun

Ef um er að ræða óheimila úthlutun arðs fer með þær tekjur annað hvort sem laun eða sem gjöf. Slíkar greiðslur eru skattlagðar samkvæmt almennum tekjuskattshlutföllum og útsvari.

Staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts

Félagið sem greiðir arðinn á að halda eftir fjármagnstekjuskatti og skila honum til ríkissjóðs með skilagrein fyrir viðeigandi tímabil. 

Sé arður ekki greiddur á sama ári og ákvörðun er tekin, skal skila staðgreiðslu í síðasta lagi með skilagrein fyrir október–desember á ákvörðunarári.

Lesa nánar um fjármagnstekjuskatt

Frítekjumark vegna arðs

Ekki þarf að greiða skatt af vaxtatekjum, arði og söluhagnaði að því marki sem þau falla undir samtals 300.000 kr. frítekjumark á ári (frá og með tekjuárinu 2020).

Frítekjumarkið gildir fyrir:

  • Vaxtatekjur
  • Arðstekjur
  • Söluhagnað af hlutabréfum félaga skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga

Frádráttur fer fyrst í að jafna út vaxtatekjur, næst arðstekjur og loks söluhagnað af hlutabréfum þar til hámarki frádráttar hefur verið náð.

Arður af erlendum hlutabréfum

Arð af erlendum hlutabréfum á að færa til tekna á skattframtali. Miða á við kaupgengi þess tíma þegar arður var greiddur út. 

Hafi skattur verið greiddur af arði erlendis skal gera grein fyrir því í athugasemdardálki í skattframtali og láta fylgja með gögn því til staðfestingar.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?


Skattskyldar fjármagnstekjur – C-liður 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Skattskyldur arður - 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Staðgreiðsla fjármagnstekna - lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Skattmat


Einu sinni var...

Skattprósenta fjármagnstekjuskatts var lengst af 10%. Frá árinu 2009 hefur skattprósentan hins vegar tekið breytingum og er 22% frá og með 1. janúar 2018.

Sérregla um skattlagningu arðs hjá starfandi hluthöfum sem eru í ráðandi stöðu hjá félaginu - gilti á álagningarárunum 2011-2014 - Arður talinn sem laun

Annað

Fjármagnstekjuskattur


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum