Eignir og skuldir

Eignir

Framtalsskyldar eignir eru allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur eignarréttindi, og skiptir ekki máli hvort eignirnar skili tekjum eða ekki. Almenna reglan er því að öll verðmæti skuli telja fram í skattframtali en frá þeirri reglu eru nokkrar undantekningar. Þannig þarf til dæmis ekki að telja fram fatnað og innbú og inneign í séreignarsparnaði. Hjón sem í samvistum eru, svo og tveir einstaklingar í sambúð sem óskað hafa samsköttunar, skulu telja allar eignir sínar og skuldir fram saman og skiptir ekki máli þótt um sé að ræða séreign eða skuldir tengdar henni.

Eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins. Sérreglur gilda ef barn hefur misst annað foreldri sitt eða bæði og ekki verið ættleitt, þá er unnt að óska eftir sérskattlagningu með skattframtali barnsins. Þarf þá að skila upplýsingum um eignir og skuldir barnsins á sama formi og hjá fullorðnum.

Full framtalsskylda er á eignum og skuldum og gildir það jafnt um þá sem eru búsettir erlendis og þá sem búa hér á landi. Eignir og skuldir hafa m.a. áhrif á vaxtabætur og hagnaður af sölu ýmissa eigna er skattskyldur. Upplýsingar um eignir og skuldir hafa og almennt upplýsingagildi við mat á framtölum. Þá er bráðabirgðaákvæði í lögum um tekjuskatt um að lagður skuli á auðlegðarskattur gjaldárin 2010 til 2014.

Á hvaða verði á að telja eignir fram

Hvað telst ekki til eignar

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Skuldir

Gera skal grein fyrir öllum skuldum í lok tekjuárs í skattframtali, þ.m.t. yfirdrætti á hlaupareikningi og kreditkortaskuldum. Með skuldum í þessu sambandi teljast áfallnar verðbætur á höfuðstól og skal miða við vísitölu fyrir janúar á framtalsári. Skuldir í erlendum gjaldmiðli skal telja fram á gengi í árslok. Til skulda teljast öll opinber gjöld er varða viðkomandi tekjuár, þó ekki þau gjöld sem lögð eru á tekjur á næsta ári eftir lok tekjuárs.

Við framtalsskil skal sundurliða skuldir eftir því hvort viðkomandi lán var tekið til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða ekki. Hafi láninu bæði verið ráðstafað til kaupa á íbúðarhúsnæði eða til að greiða upp húsnæðisskuldir og til annars, svo sem bifreiðakaupa, þarf að skipta láninu upp á framtali eftir því hvernig því var ráðstafað. Sundurliðun þessi er nauðsynleg þar sem aðeins vaxtagjöld af lánum vegna öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota veita rétt til vaxtabóta.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Annað