Eignir og skuldir

Eignir

Framtalsskyldar eignir eru allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur eignarréttindi, og skiptir ekki máli hvort eignirnar skili tekjum eða ekki. Almenna reglan er því að öll verðmæti skuli telja fram í skattframtali en frá þeirri reglu eru nokkrar undantekningar. Þannig þarf til dæmis ekki að telja fram fatnað og innbú og inneign í séreignarsparnaði. Hjón sem í samvistum eru, svo og tveir einstaklingar í sambúð sem óskað hafa samsköttunar, skulu telja allar eignir sínar og skuldir fram saman og skiptir ekki máli þótt um sé að ræða séreign eða skuldir tengdar henni.

Eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins. Sérreglur gilda ef barn hefur misst annað foreldri sitt eða bæði og ekki verið ættleitt, þá er unnt að óska eftir sérskattlagningu með skattframtali barnsins. Þarf þá að skila upplýsingum um eignir og skuldir barnsins á sama formi og hjá fullorðnum.

Full framtalsskylda er á eignum og skuldum og gildir það jafnt um þá sem eru búsettir erlendis og þá sem búa hér á landi. Eignir og skuldir hafa m.a. áhrif á vaxtabætur og hagnaður af sölu ýmissa eigna er skattskyldur. Upplýsingar um eignir og skuldir hafa og almennt upplýsingagildi við mat á framtölum. Þá er bráðabirgðaákvæði í lögum um tekjuskatt um að lagður skuli á auðlegðarskattur gjaldárin 2010 til 2014.

Á hvaða verði á að telja eignir fram

  • Fasteignir skal telja til eignar á gildandi fasteignamatsverði. Eigandi leigulóðar skal telja hana til eignar á afgjaldskvaðarverðmæti hennar, en leigjandi hennar skal telja til eignar mismun á fasteignamatsverði og afgjaldskvaðarverðmæti. Afgjaldskvaðarverðmæti er 15-föld lóðarleiga eins og hún kemur fram á fasteignagjaldaseðlum sveitarfélaganna. Sé fasteignamatsverð ekki fyrir hendi skal eignin talin til eignar á stofnverði, þ.e. á kaupverði eða kostnaðarverði. Fasteignir í byggingu teljast til eignar á kostnaðarverði. Hafi fasteign t.d. verið metin fokheld til fasteignamats skal færa hana til eignar á því mati og bæta síðan við byggingarkostnaði sem fallið hefur til síðan. Erlendar fasteignir í eigu framteljanda skal færa á kaupverði, umreiknað í íslenskar krónur á kaupgengi í lok hvers árs.
  • Lausafé manna, sem ekki er heimilt að fyrna og ekki er notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, skal telja til eignar á upphaflegu kaup- og kostnaðarverði. Þó skal ár hvert heimilt að færa niður verð bifreiða um 10% af því verði sem þær voru taldar til eignar hjá framteljanda árið áður.
  • Hlutabréf skal telja til eignar á nafnverði nema sannað sé að raunvirði eigna félags að frádregnum skuldum sé lægra en hlutafé þess. Nafnverð hlutabréfa sem skráð í erlendum gjaldmiðli skal umreikna með kaupverði miðað við daggengi við kaup, en ef nafnverð er ekki þekkt skulu bréfin færð til eignar á kaupverði.
  • Áhættufjármuni og langtímakröfur, sem ekki eru skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði, skal telja til eignar á nafnverði að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum á höfuðstól sem miðast við vísitölu í næsta mánuði eftir lok reikningsárs. Ef þessar eignir eru skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði skal telja þær til eignar á skráðu markaðsverði á virkum markaði í lok reikningsárs.
  • Skammtímakröfur skal telja til eignar á nafnverði að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum á höfuðstól sem miðast við vísitölu í næsta mánuði eftir lok reikningsárs, nema sannað sé að þær séu minna virði.
  • Útistandandi skuldir á hendur viðurkenndum sjálfseignarstofnunum, sem samhliða veita kröfuhafa íbúðarrétt, má telja til eignar samkvæmt fasteignamati viðkomandi íbúðar.
  • Erlenda peninga, innstæður og kröfur skal telja til eignar á gengi í árslok.

Hvað telst ekki til eignar

Eftirtaldar eignir eru ekki framtalsskyldar:

  • Fatnaður til einkanota, húsgögn, húsmunir, bækur og munir sem hafa persónulegt gildi. Undir þetta falla t.d. málverk og frímerkjasöfn.
  • Skilyrt fjárréttindi, svo sem réttur til líftryggingarfjár sem ekki er fallið til greiðslu.
  • Réttur til eftirlauna, lífeyris, framfærslu eða annarra slíkra tímabilsgreiðslna sem bundinn er við einstaka menn. Þannig skal því ekki telja til eignar séreignarsparnað sem lagt hefur verið í og veitt hefur rétt til frádráttar frá tekjum.
  • Réttur til leigulauss bústaðar og hliðstæð afnotaréttindi.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Framtalsskyldar eignir - 72. og 73. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt

Hvað ekki telst til eignar – 74. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt


Skuldir

Gera skal grein fyrir öllum skuldum í lok tekjuárs í skattframtali, þ.m.t. yfirdrætti á hlaupareikningi og kreditkortaskuldum. Með skuldum í þessu sambandi teljast áfallnar verðbætur á höfuðstól og skal miða við vísitölu fyrir janúar á framtalsári. Skuldir í erlendum gjaldmiðli skal telja fram á gengi í árslok. Til skulda teljast öll opinber gjöld er varða viðkomandi tekjuár, þó ekki þau gjöld sem lögð eru á tekjur á næsta ári eftir lok tekjuárs.

Við framtalsskil skal sundurliða skuldir eftir því hvort viðkomandi lán var tekið til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða ekki. Hafi láninu bæði verið ráðstafað til kaupa á íbúðarhúsnæði eða til að greiða upp húsnæðisskuldir og til annars, svo sem bifreiðakaupa, þarf að skipta láninu upp á framtali eftir því hvernig því var ráðstafað. Sundurliðun þessi er nauðsynleg þar sem aðeins vaxtagjöld af lánum vegna öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota veita rétt til vaxtabóta.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Skuldir – 75. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt

Annað

Vaxtabætur

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum