Fyrsta íbúð

Almennt

Heimilt er að nýta séreignarsparnað skattfrjálst vegna kaupa eða byggingar á fyrstu íbúð. Heimild þessi skiptist annars vegar í útborgun uppsafnaðs séreignarsparnaðar og hins vegar mánaðarlega ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á íbúðalán

Útgreiðsla uppsafnaðs iðgjalds tekur til tímabilsins frá völdum upphafsdegi fram að fasteignakaupunum. Þá tekur mánaðarleg ráðstöfun inn á lán við, sem gildir frá kaupdegi fram til loka samfelldrar 10 ára nýtingar. 

Helstu skilyrði fyrir nýtingu úrræðisins eru:

  • Umsækjandi eignist 30% eignarhlut í eigninni.
  • Umsækjandi sæki um nýtinguna innan 12 mánaða frá undirritun kaupsamnings.
  • Umsækjandi sé að eignast sína fyrstu íbúð eða hafi ekki átt íbúðarhúsnæði í 5 ár.

Nánari skýringar á skilyrðunum má finna hér að neðan.

Árleg hámarksnýting séreignarsparnaðar er kr. 500.000,- fyrir hvern einstakling og nýtingin getur staðið yfir í að hámarki 10 ára samfellt tímabil.

Heimilt er að færa mánaðarlega ráðstöfun séreignar á milli lána eftir að umsókn hefur verið samþykkt, til dæmis þegar fyrsta íbúðin er seld og önnur keypt, eða við endurfjármögnun lána.

Opna umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar

 

Almennt um nýtingu úrræðisins

Sótt er um nýtingu úrræðisins á www.skattur.is en nýting getur hvort tveggja verið útborgun uppsafnaðs séreignarsparnaðar inn á bankareikning umsækjanda og/eða mánaðarleg ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lán. Hægt er að sækja um báðar leiðir í einu eða einungis aðra þeirra velji umsækjandi það.

Útgreiðsla uppsafnaðs iðgjalds

Hafi umsækjandi verið með samning um greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar fyrir kaup á íbúð þá má fá þennan uppsafnaða séreignarsparnað greiddan inn á bankareikning umsækjanda. Umsækjandi velur upphafsdag 10 ára ráðstöfunartímabilsins. 

Fjárhæðin sem er greidd inn á reikning umsækjanda eru viðbótariðgjöld sem hafa safnast frá valda upphafsdeginum og fram að kaupmánuði fasteignarinnar. Að hámarki má nýta 500.000 kr fyrir hvert ár af 10 ára heimildinni.

Mánaðarleg ráðstöfun inn á lán

Eftir kaupdagsetningu íbúðarhúsnæðis er mögulegt að setja upp mánaðarlega ráðstöfun inn á lán. Mánaðarlega ráðstöfunin tekur til þeirrar fjárhæðar sem greidd er til séreignarsjóðs þann mánuðinn og nýta má að hámarki 500.000 kr á hverju ári.

Mánaðarleg ráðstöfun fellur sjálfkrafa niður ef:

  • Umsækjandi hættir að greiða í sjóðinn
  • Lánið er uppgreitt
  • Umsækjandi er ekki lengur skuldari lánsins

Umsækjandi getur alltaf farið inn á þjónustuvef Skattsins og breytt því hvaða lán er greitt inná, eða úr hvaða séreignarsjóði greiðslan á að berast.

Sýnidæmi

Einstaklingur A byrjaði að greiða í séreignarsjóð í janúar 2016, og fór að greiða meira en 500.000 á ári eftir árið 2020. Hann kaupir sér íbúð í júlí 2022. A sækir um úrræðið í sama mánuði og getur valið nokkrar leiðir til að nýta úrræðið.

Dæmi 1

A sækir um að nýta bæði útgreiðslu uppsafnaðs séreignarsparnaðar og mánaðarlega ráðstöfun inn á lán. Til að hámarka útgreiðslu séreignar sinna velur hann upphafsdag 1.1.2016. 

Útgreiðslan gildir þá fyrir mánuðina janúar 2016 og fram að kaupmánuði, júlí 2022. Eftir júlí byrjar mánaðarleg ráðstöfun séreignar inn á lán sem gildir til desember 2026, en þá hefur A nýtt úrræðið í samtals 10 ár.

Dæmi 2

A sækir um að nýta bæði útgreiðslu og mánaðarlega ráðstöfun inn á lán. Til að fullnýta hámark allra 10 áranna velur hann að hefja 10 ára tímabilið sitt eftir að hann byrjar að greiða meira en 500.000 á ári í séreignarsjóð. Hann velur því upphafsdag 1.1.2020. Hann fær því útgreiðslu á uppsafnaðri séreign fyrir tímabilið 1.1.2020 og fram að kaupmánuði, júlí 2022. Eftir það hefst mánaðarleg ráðstöfun inn á lán, og gildir til 1.1.2030, en þá hefur A nýtt úrræðið í samtals 10 ár.

Dæmi 3 

A sækir aðeins um mánaðarlega ráðstöfun inn á lán. Upphafspunktur tímabilsins er þá frá umsóknarmánuði og viðbótariðgjald A greiðist mánaðarlega inn á lán þar til að samtals 10 árum er náð, sem væri í þessu tilviki júlí 2032.

Fjárhæðir

Einstaklingur getur að hámarki nýtt samtals kr. 500.000,- fyrir hverja tólf mánuði í samfellt tíu ár.

Eigið framlag einstaklings getur numið allt að 4% af iðgjaldsstofni og að hámarki 333 þús. kr. Framlag launagreiðanda getur numið allt að 2% og að hámarki 167 þús. kr. Framlag einstaklingsins getur ekki verið lægra en framlag launagreiðandans.

Samtals nemur hámarksheimild því 5.000.000 kr. á tíu ára samfelldu tímabili.

Hvenær á að senda umsókn

Unnt er að sækja um þegar kaupsamningi hefur verið þinglýst eða þegar nýbygging hefur verið skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá og fengið fastanúmer sem slíkt.

Umsókn þarf að berast innan 12 mánaða frá undirritun kaupsamnings, eða frá því að nýbygging í eigu umsækjanda er skráð á byggingarstig 2 (gamla byggingarstig 4) í fasteignaskrá.

Kaup og sala fasteignar

Heimild til að nýta séreign til lækkunar íbúðarlána fellur ekki niður þó að fyrsta fasteign umsækjandans sé seld. Skilyrði er að seinni fasteignin sé keypt innan 12 mánuðum frá því að fasteign sem samþykkt var sem fyrsta fasteign umsækjanda var seld. Með kaupum og sölu í þessu skyni er átt við undirritun kaupsamnings, ekki undirritun afsals, kauptilboðs eða afhendingu eignarinnar.

Gögn sem þurfa að fylgja umsókn

Þinglýstur kaupsamningur er hengdur við rafræna umsókn. Kaupsamninga má nálgast hjá fasteignasala sem fór með viðskiptin eða hjá Sýslumanni.

Afgreiðsla umsókna

Afgreiðslutími umsókna er almennt á bilinu 4-6 vikur, en getur verið lengri á stundum vegna árstíðabundinna anna.

Umsækjanda er tilkynnt um niðurstöðu þegar umsókn hefur verið afgreidd með tölvupósti á það netfang sem skráð er í umsókn.

Ef upp kemur við vinnslu umsóknar að gögn að upplýsingar vantar er haft samband við umsækjanda með tölvupósti.

Umsóknarferli

Eftir innskráningu skal velja Samskipti > Fyrsta íbúð og þar „Opna umsókn“.

Þrep 1 af 5

Yfirfara persónuupplýsingar og velja fasteign.

  • Hægt er að velja fasteign í fellilista, eða að skrá nýja eign með því að velja „Skrá nýja eign“.
  • Óskað er eftir fastanúmeri eignar sem er sjö stafa númer. Fastanúmer má finna á HMS.is
  • Þinglýstur kaupsamningur skal fylgja umsókninni nema þegar um nýbyggingu er að ræða.
  • Ef umsækjandi er byggja fasteignina sjálfur velur hann nýbygging. Ef eignin var keypt fullkláruð eða fokheld þarf ekki að haka við nýbygging.

Þrep 2 af 5

Umsækjandi hvernig hann hyggst nýta úrræðið. Hægt er að sækja um útborgun séreignarsparnaðar, mánaðarlega ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lán eða bæði.

  • Sé sótt um útborgun séreignarsparnaðar þá er valið „Ég sæki um útborgun séreignarsparnaðar“.
  • Sé sótt um mánaðarlega ráðstöfun séreignarsparnaðar er valið „Ég sæki um ráðstöfun séreignarsparnaðar upp í lán“.

Ef umsækjandi valdi að taka út uppsafnaða séreign þarf að velja upphafsdag 10 ára tímabilsins. Þetta er yfirleitt sú dagsetning þegar umsækjandi byrjaði að greiða viðbótariðgjald. Aðeins er heimilt að taka út viðbótariðgjald sem safnast fyrir kaup. Valinn upphafsdagur þarf því að vera fyrir dagsetningu kaupsamningsins.

Velja þarf á milli hámarksnýtingar eða að takmarka nýtingu séreignar. Ef hámarksnýting er valin er nýtt eins mikið af viðbótariðgjaldi hvers árs og heimilt er í lögunum. Ef takmörkuð nýting er valin tilgreinir umsækjandi hámarksfjárhæð hvers árs.

Þrep 3 af 5

Velja þarf úr hvaða séreignarsjóði á að taka uppsafnaða fjárhæð. Þegar sjóðurinn er valinn þarf að gefa upp bankareikning sem greiða má uppsöfnuðu fjárhæðina inn á.

Ef valið er að greiða mánaðarlega inn á lán er valinn hvaða séreignarsjóð á að greiða frá. Svo þarf að velja inn á hvaða lán skal greiða. Það þarf að skrá nýtt lán ef umsækjandi hefur ekki greitt inn á lánið áður.

Þrep 4 af 5

Umsækjandi þarf að yfirfara umsókn áður en hún er staðfest og send.

Þrep 5 af 5

Umsækjanda er birt staðfesting á móttöku umsóknar.

Breytingar á umsókn

Gera má breytingar á umsókn eftir að hún hefur verið staðfest með því að opna umsóknina á skattur.is og velja „breyta umsókn“. Helstu tilefni breytinga á umsókn eru þessar:

Endurfjármögnun fasteignalána

Heimilt er að færa mánaðarlega ráðstöfun séreignarsparnaðar á milli lána, hvort sem umsækjandi skuldar tvö lán og vill færa ráðstöfunina frá öðru þeirra yfir á hitt, eða þegar eitt lán er greitt upp og annað tekið í þess stað.

Kaup og sala fasteignar

Heimild til að nýta séreign til lækkunar íbúðarlána vegna fyrstu kaupa fellur ekki niður þó að fyrsta fasteign umsækjandans sé seld. Skilyrði er að önnur fasteign sé keypt innan 12 mánaða frá því að fasteign sem samþykkt var sem fyrsta fasteign umsækjanda er seld. Með kaupum og sölu í þessu skyni er átt við undirritun kaupsamnings, ekki undirritun afsals, kauptilboðs eða afhendingu eignarinnar.

Lagfæringar á umsókn

Ef umsækjandi hefur valið rangan séreignarsjóð, rangt fastanúmer eignar, rangt lánsnúmer, rangan lánveitanda eða annað má lagfæra staðfesta umsókn.

Nánari leiðbeiningar

Breyting á umsókn er gerð með því að umsækjandi skráir sig inn á þjónustuvef skattsins og opni umsókn sína í gegnum Samskipti > Umsóknir > Fyrsta Fasteign. Þar má velja að „Breyta umsókn“ og fara í gegnum skrefin og gera þar þær breytingar sem við á.

Þegar allar breytingarnar hafa verið gerðar þarf að velja „staðfesta og senda umsókn“ við lok umsóknarferlisins. Breytingar taka gildi um leið og umsókn hefur verið send.

Nánar um skilyrði nýtingar

Í þessum kafla er að finna helstu skilyrði úrræðisins og nánari skýringu á þeim.

Kaup á íbúð

Réttur til úrræðisins virkjast við kaup á íbúðarhúsnæði.

Hægt er að sækja um eftir að kaupsamningur hefur verið undirritaður, annars er umsókn synjað á þeim grundvelli að umsækjandi sé ekki skráður eigandi fasteignarinnar.

Úrræðið á aðeins við um eigin kaup á íbúðarhúsnæði. Það er því hvorki hægt að sækja um vegna kaupa á búseturétti né vegna kaupa annars aðila, t.d. kaupa sambúðarmaka. 

Fyrsta íbúð umsækjanda

Skilyrði er að um fyrstu íbúð umsækjanda sé að ræða. Hér er átt við að umsækjandi má ekki hafa verið skráður eigandi meira en 30% eignarhluta íbúðarhúsnæðis á Íslandi áður. Undanþága frá þessu skilyrði er þó veitt ef umsækjandi hefur ekki átt íbúð í meira en 5 ár fyrir kaup á nýjustu eigninni. Sjá nánar hér að neðan.

Eftir samþykkta umsókn með fyrstu eign þá getur umsækjandi skipt um íbúðareign og haldið áfram nýtingu úrræðisins. Skilyrði er að seinni eign sé keypt innan 12 mánaða frá sölu fyrri eignar.

Umsækjandi getur nýtt úrræðið þó svo að hann hafi áður átt íbúðareign fyrir erfðir.

Ekki átt íbúðarhúsnæði í 5 ár

Veitt er undanþága frá skilyrðinu um að íbúð skuli vera fyrsta íbúð ef:

  • umsækjandi hefur ekki verið skráður eigandi íbúðarhúsnæðis í samfleytt 5 ár. 
  • umsækjandi hefur ekki uppfyllt skilyrði samsköttunar með aðila sem skráður er eigandi íbúðarhúsnæðis á síðustu 5 árum. 
  • Samanlagður tekjuskattsstofn og fjármagnstekjuskattstofn á tekjuárinu fyrir kaup, má ekki vera hærri en fjárhæðarmark þriðja skattþreps. Fjárhæðin er tilgreind í 66. gr. laga nr. 90/2003 og var sú fjárhæð 13.812.144 kr. fyrir tekjuárið 2023.
  • Sé fasteignin keypt árið 2024 er umsóknin afgreidd eftir álagningu þess sama árs (sem er birt 1. júní 2024, vegna tekjuárs 2023)

Umsækjandi hefur 12 mánuði frá undirritun kaupsamnings til að senda inn umsókn til Skattsins.

Íbúðarhúsnæði

Eignin þarf að vera skráð sem íbúðarhúsnæði í Þjóðskrá Íslands. Þetta útilokar fasteignir erlendis, og allar eignir sem eru ekki íbúðarhúsnæði, svosem atvinnuhúsnæði, frístundahús eða aðrar fasteignir.

Sé um nýbyggingu að ræða þá þarf eignin hafa fengið fastanúmer sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá áður en hægt er að sækja um.

Ekki er hægt að nýta úrræðið vegna kaupa á búseturétti. Umsækjandi þarf að bera beinan eignarrétt til fasteignarinnar sem eigandi. Það er þó ekki gert skilyrði um að eignin sé til eigin nota umsækjanda, og því ekki skilyrði að umsækjandi hafi lögheimili í íbúðarhúsnæðinu.

Eignarhluti að lágmarki 30%

Gerð er krafa um að umsækjandi eigi a.m.k. 30% eignarhlut í eigninni, hvort sem um kaup eða byggingu á íbúðarhúsnæði sé að ræða.

Athugið að hér er ekki átt við hreina eign eða veðhlutfall lána umsækjanda í eigninni, heldur beinlínis eignarhlut umsækjanda í eigninni. Ef einstaklingur er einn eigandi eignar á hann því alltaf 100% eignarinnar.

12 mánaða umsóknarfrestur

Umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar þarf að berast með réttum hætti innan 12 mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Hafi kaupsamningur verið undirritaður 21. september 2022 þarf umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar að skila sér eigi síðar en 21. september 2023.

Þegar um nýbyggingu sem umsækjandi byggir sjálfur þarf umsókn um nýtingu séreignarsparnaðar að skila sér innan 12 mánaða frá því húsnæðið er fært á byggingarstig 2 (gamla byggingarstig 4) í kjölfar fokheldisúttektar.

10 ára samfellt tímabil

Nýting séreignarsparnaðar getur spannað 10 ára samfellt tímabil og heldur áfram að líða þrátt fyrir að umsækjandi sé ekki að nýta úrræðið hluta tímabilsins. 10 ára tímabilið telst byrja að líða þegar umsækjandi nýtir séreign vegna kaupa, hvort sem það er sem úttekt eða inn á lán, með þessu úrræði eða almenna úrræðinu sem finna má á leidretting.is. Ekki er hægt að „frysta“ nýtinguna á 10 ára tímabilinu, þótt umsækjandi sé ekki að nýta úrræðið hluta tímabilsins lengist það aldrei umfram 10 ára frá fyrstu nýtingu séreignar vegna kaupa.

Upphafsdagur

Upphafsdagur 10 ára tímabilsins er dagsetning sem umsækjandi velur í umsóknarferlinu. Ef umsækjandi velur ekki upphafsdag, til dæmis þegar aðeins er sótt um að greiða inn á lán, telst umsóknardagur upphafsdagur 10 ára tímabilsins.

Ef umsækjandi hefur fengið greiðslu úr séreignarsjóði er ekki hægt að færa upphafsdag þessa úrræðis fram fyrir þann iðgjaldamánuð.

Ef umsækjandi hefur fengið greiðslu úr séreignarsjóði með nýtingu almenna úrræðisins telst upphafsdagur 10 ára tímabilsins vera sá iðgjaldamánuður sem nýttur var með almenna úrræðinu.

Íbúðalán

Heimilt er að greiða séreignarsparnað mánaðarlega inn á fasteignalán sem umsækjandi skuldar sjálfur og tryggt er með veði í fyrstu íbúð umsækjanda. Þetta eru þau lán sem neytendum veitt eru af viðurkenndum lánveitendum til íbúðakaupa.

Lánið þarf að vera tryggt með veði í þeirri eign sem telst fyrsta íbúð umsækjanda. Ekki er gert skilyrði um að lánið hafi verið tekið að afla eignar til eigin nota, og því er ekki skilyrði að umsækjandi hafi lögheimili í eigninni.

Ef umsækjandi er ekki lengur skuldari láns, það uppgreitt eða umsækjandi hefur verið tekinn af lánssamningi sem skuldari fellur umsóknin strax niður. Það þarf því ekki að ógilda umsókn við þessar aðstæður til að stöðva mánaðarlegar greiðslur.

Greiða inn á afborgun eða höfuðstól láns.

Ef sótt er um ráðstöfun viðbótariðgjalda inn á verðtryggt lán fer öll heimil fjárhæð til greiðslu inn á höfuðstól lánsins eins og hann stendur hverju sinni, þ.e. með verðbótum.

Ef sótt er um ráðstöfun viðbótariðgjalda inn á óverðtryggt lán þá getur umsækjandi valið að ráðstafa þeim bæði inn á höfuðstól lánsins og afborganir lánsins.

Heimilt er að greiða inn á afborganir óverðtryggðra lána öll iðgjöld á fyrstu tólf mánuðum ráðstöfunar en síðan lækkar hlutfallið um 10% á hverju ári yfir 10 ára tímabilið. Hjá þeim sem hafa fengið greitt út við kaup og/eða hafa verið að ráðstafa inn á veðlán er tekið tillit til þess tíma sem sú ráðstöfun nær yfir þegar óskað er eftir að greiða inn á óverðtryggt lán.

Umsækjandi

Umsækjandi getur aðeins nýtt sitt eigið viðbótariðgjald, vegna lána sem hann er sjálfur skráður lántaki af og vegna fasteignakaupa á sinni kennitölu. Það er því ekki hægt að nýta erfð séreignarréttindi, eða nýta séreign vegna kaupa sambúðarmaka eða annars aðila. Þá er ekki hægt að greiða inn á lán sem sambúðarmaki eða annar aðili tók þótt að umsækjandi hafi verið að kaupa fasteign með viðkomandi.

Spurt og svarað

Hvernig sæki ég um?

Rafrænt umsóknarferli fer fram á www.skattur.is

Hvenær er hægt að sækja um?

Umsókn um nýtingu séreignar vegna fyrstu kaupa þarf að berast innan 12 mánuðum frá undirritun kaupsamnings eignar sem sótt er um vegna.

Skoða stöðu umsóknar

Hafi umsókn verið skilað inn þá fer hún í hefðbundið afgreiðsluferli sem að er u.þ.b. 8 vikur. Þér berst tölvupóstur um leið og niðurstaða liggur fyrir og getur nálgast hana á www.skattur.is.

Heimilt tímabil til nýtingar?

Heimild til nýtingar séreignarsparnaðar getur að hámarki spannað 10 ára samfellt tímabil sem getur samanstaðið af útborgun séreignarsparnaðar og mánaðarlegri ráðstöfun séreignarsparnaðar.

Upphafstímamark útborgunar getur náð allt aftur til júlí 2014.

Greiðslur eru hættar að berast inn á lán?

Greiðslur geta hætt að berast vegna þess að:

  • Umsækjandi hefur fullnýtt árlega heimild. Greiðslur hefjast aftur sjálfkrafa á næsta ári án aðkomu umsækjanda.
  • Umsækjandi hefur endurfjármagnað lánið, greitt það upp eða er ekki skuldari þess lengur. Umsækjandi ætti að fá skilaboð þess efnis að láninu hafi verið hafnað. Breyta má umsókninni í gegnum skattur.is, t.d. sækja um nýtt lán.
  • Vinnuveitandi er ekki að greiða í séreignarsjóðinn. Þetta er algengt þegar einstaklingar skipta um starf og óska ekki eftir að launagreiðandi greiði í séreignarsjóð.

Upplýsingar um nýtta heimild og stöðu umsóknar má finna á skattur.is.

Hvaða upphafsdag á ég að velja?

Upphafsdagur nýtingar getur verið sá mánuður þegar umsækjandi byrjaði með viðbótarlífeyrissparnað.

Upphafstímamark útborgunar getur náð allt aftur til júlí 2014.

Hvaða eignir útiloka mig frá úrræðinu?

Aðeins 30% eða hærri eignarhlutur í íbúðarhúsnæði í þjóðskrá Íslands á síðustu 5 árum útilokar umsækjanda frá úrræðinu. Það er því hægt að nýta úrræðið þótt umsækjandi hafi átt atvinnuhúsnæði, sumarhús, fasteign erlendis, erfða eign, minna en 30% eignarhlut, búseturétt á síðustu 5 árum.

Meira en 5 ár síðan ég átti síðast íbúð?

Veitt er sérstök undanþága fyrir þá sem hafa átt íbúð áður en vilja nýta úrræði laga nr. 111/2016 vegna kaupa á íbúð. Skilyrði undanþágunnar eru annars vegar að umsækjandi hafi ekki átt íbúðarhúsnæði, eða uppfyllti skilyrði samsköttunar með aðila sem þá átti íbúðarhúsnæði í 5 ár fyrir umsóknardag. 

Þá mega samtaldar tekjur og fjármagnstekjur umsækjandans á síðasta tekjuári ekki vera hærri en fjárhæðarmark þriðja skattþreps. Fjárhæðin er tilgreind í 66. gr. laga nr. 90/2003 og var var sú fjárhæð 13.812.144 kr. fyrir árið 2023.

Er hægt að nýta úrræðið vegna kaupa á búseturétti?

Ekki er hægt að nýta úrræðið vegna kaupa á búseturétti. Umsækjandi þarf að bera beinan eignarrétt til fasteignarinnar sem eigandi.

Ég hef ekki verið að greiða séreignarsparnað?

Þú getur sótt um að hefja ráðstöfun séreignar inn á fasteignalán. Greiðslur fara fyrst að berast inn á lánið þegar greiðslur hefjast til séreignarsjóðsins. Umsókn um nýtingu séreignar má ekki berast síðar en 12 mánuðum frá undirritun kaupsamnings.

Hvað ef ég sel mína fyrstu íbúð?

Kaupir þú annað íbúðarhúsnæði í stað hins selda innan tólf mánaða má halda áfram að greiða inn á lán vegna nýju eignarinnar. Skilyrði er að þetta gerist innan tíu ára tímabilsins, talið frá þeim tíma sem ráðstöfun hófst fyrst. Þetta er gert með því að breyta umsókninni inni á skattur.is.

Athugaðu að hámarkstími ráðstöfunar á séreignarsparnaði í tengslum við kaup á fyrstu íbúð getur aldrei orðið lengri en tíu ár og er alltaf talið frá því tímamarki sem ráðstöfun hófst fyrst.

Hvenær er greitt inn á lán?

Séreignarsjóður þinn, sem vörsluaðili viðbótarlífeyrissparnaðar, sér alfarið um greiðslu séreignarsparnaðar. Almennt er greitt inn á lán á mánaðarfresti en þó hafa vörsluaðilar heimild til að greiða á 3ja mánaða fresti.

Hvað gerist ef ég næ hámarksfjárhæð áður en árið er liðið?

Sé hámarksfjárhæð náð fyrir lok tekjuárs þá fer það sem umfram er inn á hefðbundinn séreignarsjóð hjá vörsluaðila. Þá fjárhæð má svo taka út síðar eftir þeim reglum sem um það gilda.

Hvað ef ég fer tímabundið í nám/flyt til útlanda?

Ef greiðslur til lífeyrissjóðs falla niður hluta af tímabilinu er ekki hægt að ráðstafa inn á lán fyrir það tímabil. Hefjir þú greiðslur síðar getur mánaðarlega ráðstöfunin hafist aftur, en þá aðeins í þann tíma sem eftir er af samfellda tíu ára tímabilinu.

Ítarefni

Hvar finn ég reglunar?

Lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð

Skattþrepamörk - 66. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Reglugerð nr. 1586/2022 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum