Ofnýttur persónuafsláttur eða rangt skattþrep
Reglulega eru sendar tilkynningar til þeirra sem ofnýtt hafa
persónuafslátt og/eða greitt staðgreiðslu í röngu skattþrepi.
Þau sem fá slíkar tilkynningar eru ekki að greiða nóg í
staðgreiðslu og eru líkleg til að lenda í skuld að lokinni álagningu sé ekkert
að gert.
Skattþrepin eru þrjú og fara hækkandi samhliða hærri launum.
Ef tekjurnar eru skattlagðar í of lágu skattþrepi þýðir það að ekki er greiddur
nægur skattur. Í kerfinu kemur það út sem nýting á persónuafslætti.
Ég fékk tilkynningu, hvað geri ég?
Fyrst þarf að átta sig á stöðunni og fyrsta skrefið er að
skrá sig inn á þjónustuvef Skattsins með veflykli eða rafrænum skilríkjum og
velja Almennt > Staðgreiðsluskrá.
Hjónum og samsköttuðu sambúðarfólki er báðum send tilkynning,
jafnvel þegar ofnýting á aðeins við um annað þeirra. Á „yfirliti til launagreiðenda“
sést nýting persónuafsláttar hjá báðum aðilunum.
Ef nýting persónuafsláttar er hærri en leyfileg
hámarksnýting þarf að bregðast við og gera ráðstafanir til að forðast skuld í
lok árs.
Skoða heimila hámarksnýtingu
Til að sjá hversu mikið er ofnýtt þarf að bera fjárhæðir um
nýttan persónuafslátt á þjónustuvefnum saman við töfluna um leyfilega
hámarksnýtingu í hverjum mánuði.
Skoða heimila hámarksnýtingu
Á þjónustuvef Skattsins, undir Almennt > Staðgreiðsluskrá
> Ráðstöfun persónuafsláttar má sjá hvernig persónuafsláttur hefur verið
nýttur í hverjum mánuði.
Hafi skattur verið greiddur í röngu skattþrepi birtist mismunur á
greiðslunni og því sem átti að greiða sem nýttur persónuafsláttur.
Aðeins með því að skoða launaseðla þeirra mánaða sem við á
er hægt að sjá hvort mismunurinn sé greiðsla í röngu skattþrepi, ofnýting á persónuafslætti eða hvoru tveggja.
Hvernig laga ég þetta?
Besta leiðin til að leiðrétta ofnýtingu er hafa
samband við launagreiðanda og stöðva nýtingu persónuafsláttar tímabundið uns
nýting jafnast út. Hversu lengi það er fer eftir því hver ofnýtingin er.
Ef ekkert er að gert má gera ráð fyrir að öll ofnýting
persónuafsláttar verði að skuld í álagningu, þegar tekjuárið er gert upp. Hver
mánuður sem ekki er nýttur lækkar tilvonandi skuld um sömu fjárhæð.
- Upplýstu launagreiðandinn þinn um að þú hafir
ofnýtt persónuafsláttinn þinn og óskaðu eftir því að nýtingin verði stöðvuð
þangað til hún jafnast út.
- Ef launagreiðandi er fleiri en einn þarf sjá til
þess að nýta persónuafslátt ekki hjá öðrum ef hann er nýttur að fullu á einum
stað.
- Hafðu samband við launagreiðanda og óskaðu eftir
að stöðva nýtingu persónuafsláttar tímabundið eða þangað til nýting hefur
jafnast út.
- Tilkynntu launagreiðanda hve mikið af
launum á að skattleggja framvegis í skattþrepi 2 eða 3, eftir atvikum.
Ef
launagreiðendur eru fleiri en einn þá þarf að hafa samband við þá
launagreiðendur sem eiga að greiða í skattþrep 2 og/eða 3.
Nánari upplýsingar um
skattþrep og dæmi um hvernig þau virka
Skulda ég pening sem ég þarf að greiða núna?
Nei, tilkynningin er viðvörun – ekki krafa um greiðslu.
Ef þú bregst við núna geturðu komist hjá skuld við álagningu. Ef ekkert er gert verður ofnýtingin dregin frá í skattframtalinu og skuld innheimt með 2,5% álagi.
Til að stöðva nýtingu hefur þú samband við launagreiðanda og biðja um að nýtingin verði stöðvuð þangað til nýting persónuafsláttar jafnast út.
Hvernig getur þetta gerst?
Fyrir þessu geta verið margar ástæður og þær mismunandi
eftir aðstæðum hvers og eins.
Algengar ástæður sem valda því að persónuafsláttur er ofnýttur eða greitt í röngu skattþrepi.
Þau sem fá greiðslur frá fleiri en einum launagreiðanda eða lífeyrissjóði þurfa að huga að því að ákvarða skattþrep rétt og að nýta persónuafslátt aðeins hjá einum launagreiðanda.
Þegar skipt er um vinnu og launagreiðslur frá tveim (eða fleiri) launagreiðendum skarast þarf að passa upp á að ekki sé nýttur persónuafsláttur á fleiri en einum stað og að taka þarf ákvörðun um skattþrep til samræmis.
Huga þarf að því að launagreiðandi nýti ekki uppsafnaðan persónuafslátt þegar foreldrar koma aftur til vinnu, hafi persónuafsláttur verið nýttur hjá fæðingarorlofssjóði.
1. Til að sækja upplýsingar um nýtingu persónuafsláttar er nauðsynlegt að skrá sig inn á þjónustuvef Skattsins með rafrænum skilríkjum eða veflykli.

2. Eftir innskráningu er smellt á „Opna yfirlit“undir „Laun og staðgreiðsla“.

3. Undir töflunni með ítarlegum upplýsingum um laun, greiddan skatt, skattþrep og nýtingu persónuafsláttar er hnappur „Sækja yfirlit til launagreiðanda“. Með honum má hlaða niður Pdf skjali sem afhenda má launagreiðanda.

Ítarefni