Skattfrádráttur vegna gjafa/framlaga til almannaheillafélaga

Einstaklingur getur fengið skattfrádrátt (lækkun á tekjuskattsstofni) allt að 350 þús. krónum á ári, vegna gjafa og framlaga til félaga sem skráð eru á almannaheillaskrá Skattsins.

Móttakendur gjafa og framlaga, sem skráðir eru á almannaheillaskrá, þurfa að gefa út kvittun fyrir móttöku þar sem m.a. kemur fram nafn og kennitala gefanda og fjárhæð framlags. Að ári loknu þarf móttakandi að skila upplýsingum um móttekin framlög ársins til Skattsins og á grundvelli þeirra gagnaskila verður frádráttur áritaður á framtöl gefenda (reitur 155 í kafla 2.6 á tekjusíðu framtals).

Til þess að einstaklingur fái frádrátt þurfa gjafir/framlög hans á árinu að vera a.m.k. 10 þúsund krónur. Hámarks frádráttur er 350 þúsund krónur. Frádráttur þessi er ekki millifæranlegur hjá hjónum/sambúðarfólki.

Viðurkenndir móttakendur

Þeir lögaðilar, sem fengið geta skráningu á almannaheillaskrá, eru almennt óhagnaðardrifin félög sem stunda starfsemi með þjóðfélagslegan tilgang og samfélagsleg markmið að leiðarljósi.

Lögaðilar á almannaheillaskrá

Starfsemi sem telst til almannaheilla:

  • Mannúðar- og líknarstarfsemi
  • Æskulýðs- og menningarmálastarfsemi
  • Björgunarsveitir og slysavarnadeildir
  • Vísindaleg rannsóknarstarfsemi
  • Háskólasjóðir og aðrir menntasjóðir
  • Neytenda- og forvarnarstarfsemi
  • Þjóðkirkjan og önnur trú- og lífsskoðunarfélög
Sjá nánar um skilyrði og skilgreiningar.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum