Umsókn um niðurfellingu tolla og annarra gjalda
Leiðbeiningar með eyðublaðinu E-20
Þetta eyðublað inniheldur virkni sem krefst notkunar Adobe Reader, forritið er frítt og mælt er með nýjustu útgáfu. Eyðublaðið virkar ekki rétt með öðrum pdf lesurum.
Skoðaðu þessa lausn ef þú lendir í vandræðum með að opna eyðublaðið.
Leiðbeiningar um útfyllingu einstakra reita eyðublaðsins birtast þegar farið er með músina yfir reitina.
- Mikilvægt er að senda tvö eintök af útfylltri umsókn til skattsins.
- Frumrit vörureikninga þurfa að fylgja.
- Mikilvægt er að símanúmer sé gefið upp svo hægt sé að hafa samband við umsækjanda.
- Endurgreiðslur eru aðeins lagðar inn á reikning í eigu umsækjanda.
Gjöf til mannúðar og líknarstarfsemi skv. 33. gr. rg. 630/2008 um ýmis tollfríðindi
Til þessa liðs teljast tæki, búnaður og aðrar fjárfestingarvörur sem gefnar eru til að nota í starfsemi sjúkra, umönnunar og meðferðarstofnana, dvalar- og vistheimila og sambýla fyrir fatlaða, greiningarstöðva, öldrunarstofnana og stofnana í hliðstæðri starfsemi, slysavarnafélaga, björgunarsveita, Rauða krossins og aðila sem hafa með höndum sambærilega starfsemi, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum. Undanþágan er háð því skilyrði að ekki séu fjárhagsleg tengsl milli gefanda og gjafþega.
1. Meðfylgjandi gögn
- Umsókn E-20 í tveimur eintökum, eintak umsækjanda og eintak skattsins.
- Gjafabréf og þakkarbréf. Fram þarf að koma yfirlýsing frá gefanda um gjöfina og tilgang hennar ásamt staðfestingu þiggjanda um að hún verði nýtt í viðkomandi starfsemi. Bréfin þurfa að vera dagsett og undirrituð.
2. Hvert skal senda umsóknina
Umsóknina skal senda til Skattsins á netfangið E20@skatturinn.is.
Tæki og búnaður til vísindarannsókna skv. 35. gr. rg. 630/2008 um ýmis tollfríðindi
Til þessa liðs teljast tæki og búnaður til vísindarannsókna sem vísindastofnanir kaupa fyrir styrki eða eiga kost á endurgjaldslaust frá erlendum aðilum til láns eða eignar. Skilyrðin eru að tæki og búnaðurinn verði nýttur beint til rannsóknarstarfa hjá viðkomandi stofnun. Einnig þarf að liggja fyrir formleg staðfesting á styrkveitingu, láni eða gjöf, eftir því sem við á, og yfirlýsing viðkomandi vísindastofnunar um viðtöku vörunnar. Nemi styrkur hluta af verðmæti vöru, skal reikna aðflutningsgjöld af því verðmæti sem er umfram styrkfjárhæð. Sé um að ræða gjöf skulu ekki vera fjárhagsleg tengsl milli gefanda og gjafþega.
Skilyrði er að styrkþegi eða þiggjandi þarf að vera íslensk vísindastofnun eða vísindastofnun sem Ísland er aðili að.
1. Meðfylgjandi gögn:
- Umsókn E-20 í tveimur eintökum, eintak umsækjanda og eintak skattsins.
- Yfirlýsing um að tækið muni einungis vera notað með beinum hætti í nánar tilgreinda rannsókn hjá viðkomandi vísindastofnun.
- Staðfesting á því að tæki eða búnaður verði notaður sem þáttur í tilteknu verkefni ef styrkur er veittur til ákveðins verkefnis.
- Staðfesting á styrkveitingu, láni eða gjöf, eftir því sem við á.
2. Hvert skal senda umsóknina
Umsóknina skal senda til Skattsins á netfangið E20@skatturinn.is.
Endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna kaupa á búnaði slökkviliða
Eftir ákvæðum 42. gr. laga 50/1988 um virðisaukaskatt kemur fram að endurgreiða skal sveitafélögum og stofnunum eða félögum alfarið í þeirra eigu sem sinnar lögbundnu hlutverki á sviði brunavarna, brunamála eða mengunarvarna virðisaukaskatt af innflutningi og kaupum á eftirfarandi ökutækjum og tækjabúnaði:
- Dælubifreiðum , tækjabifreiðum, vatnsflutningabifreiðum, björgunarbifreiðum, þ.e. mannflutningabifreiðum og stiga- og kranabifreiðum.
- Slökkvidælum, reykblásurum, rafstöðvum, slöngum, börkum, tækjum og öðrum tilheyrandi búnaði.
- Klippum, glennum, tjökkum, dælum og öðrum tilheyrandi sérhæfðum björgunarbúnaði sem notaður er við björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum.
- Ytri hlífðarfatnaði vegna slökkvistarfa og mengunaróhappa sem og reykköfunartækjum og tækjabúnaði þeim tengdum.
- Tækjabúnaði sem notaður er vegna mengunaróhappa og fjarskiptabúnaði fyrir slökkvilið sem og boðtækjum, talstöðvum og farsímum.
Skilyrði fyrir endurgreiðslu er að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskiptin eiga sér stað.
1. Meðfylgjandi gögn
- Frumrit reikninga ásamt afriti.
- Reikningar þurfa að vera stílaðir á umsækjanda
- Virðisaukaskattur þarf að vera sérstaklega tilgreindur á þeim
2. Hvert skal senda umsóknina?
Umsóknina skal senda til Skattsins á netfangið E20@skatturinn.is.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Reglugerð um ýmis tollfríðindi nr 630/2008
Lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988
Lög um gjald af áfengi og tóbaki nr. 96/1995
Reglugerð um vörugjald af ökutækjum nr. 331/2000
Reglugerð nr. 1188/2014 um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis