Búslóð

Búslóðir manna sem flytja búferlum til Íslands eru tollfrjálsar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það eru heimilismunir, til dæmis húsgögn og búsáhöld, og aðrir persónulegir munir sem ekki eru sérstaklega undanskildir sem geta verið tollfrjálsir við búferlaflutning.

Almenn skilyrði fyrir tollfrelsi

Tollfrelsi búslóða er háð því að eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt:

  1. Að viðkomandi hafi haft fasta búsetu erlendis að minnsta kosti næstliðna 12 mánuði áður en hann flytur til landsins. Með fastri búsetu er almennt átt við þann stað þar sem maður hefur aðsetur eða bækistöð, hefur heimilismuni sína, dvelst að jafnaði í tómstundum og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnu o.fl.
  2. Innflytjandi og aðrir rétthafar tollfríðindanna, sem taka sér bólfestu hér á landi, verði með skráð lögheimili hér á landi í samræmi við lög um lögheimili.
  3. Að búslóðarmunirnir séu notaðir og hafi verið í eigu viðkomandi að minnsta kosti eitt ár. Að auki mega þeir sem eru 18 ára og eldri hafa tollfrjálst muni sem þeir hafa átt í skemmri tíma að heildarverðmæti 140.000 kr. miðað við smásöluverð á innkaupsstað; helmingi lægri fjárhæð gildir fyrir þá sem yngri eru.
  4. Að viðkomandi hafi búslóðina með sér er hann flytur búferlum eða flytji hana til landsins innan sex mánaða frá því að hann tekur sér bólfestu hér á landi eða öðlast hér lögheimili. Skatturinn getur heimilað rýmri tímafrest til innflutnings búslóðar eða einstakra hluta sem tilheyra henni ef sérstaklega stendur á.

Við tollafgreiðslu búslóðar kann að vera óskað eftir að innflytjandi sýni fram á að framangreindum skilyrðum fyrir tollfrelsi sé fullnægt. Þurfi hann til dæmis að sýna fram á búsetu erlendis í tilskilinn tíma, gæti átt við að afla vottorðs Þjóðskrár um skráningu aðseturs, eða vottorðs skólastofnunar eða vinnustaðar erlendis.

Sérstök innflutningsskilyrði

Sem dæmi um innflutningsskilyrði sem vörutegundir eru háðar má nefna eftirfarandi:

Símar og önnur fjarskiptatæki

Leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar er áskilið. Það gildir þó ekki um GSM farsíma með CE-merkingu (notendabúnaður með viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu); leyfi er heldur ekki áskilið ef um er að ræða einn GSM farsíma sem ekki er með CE-merkingu.

Notaður stangaveiðibúnaður, notaður reiðfatnaður.

Sérstaka sótthreinsun þarf að framkvæma fyrir innflutning; ef vottorði erlends yfirvalds um sótthreinsun er ekki framvísað við tollafgreiðslu, verður búnaðurinn sótthreinsaður á kostnað innflytjanda áður en innflutningur er heimilaður.

Notuð reiðtygi

Ekki er heimilt að flytja inn til landsins notuð reiðtygi úr leðri.

Skotvopn, skotfæri og þess háttar

Innflutningur vopna, skotfæra og sprengiefna er bannaður nema með leyfi lögreglustjóra.

Handhafi evrópsks skotvopnaleyfis getur þó án sérstaks leyfis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu flutt þau vopn sem tilgreind eru í leyfinu og hæfilegt magn skotfæra til landsins, svo framarlega að notkun vopnsins og skotfæranna sé leyfð á Íslandi og að dvölin sé ekki lengri en þrír mánuðir. Heimilt er að krefja skotíþróttamenn um staðfestingu á boði frá skotfélagi og veiðimenn um staðfestingu frá landeiganda eða úthlutun á hreindýraveiðileyfi. Þeir sem hafa hug á að flytja skotvopn eða skotfæri til landsins snúi sér til lögreglu í sínu umdæmi og afli nauðsynlegra leyfa áður en innflutningur fer fram.

Lifandi dýr

Gæludýr sem hafa verið í eigu innflytjanda og fjölskyldu hans í að minnsta kosti undanfarið ár fyrir búferlaflutning til landsins eru undanþegin aðflutningsgjöldum að uppfylltum öðrum almennum skilyrðum.

Ef gæludýrið hefur verið í eigu innflytjanda í skemmri tíma gilda sömu reglur og um aðra búslóðarmuni sem hafa verið í eigu innflytjanda í skemmri tíma.

Leyfi Matvælastofnunar er áskilið og fara þarf að fyrirmælum um einangrun dýranna, sjá nánari upplýsingar á vefsíðu MAST. Verði uppvíst um innflutning dýra í heimildarleysi ber að lóga þeim.

Tollafgreiða þarf öll gæludýr áður en þau losna úr einangrun og ráðlagt er að nýta sér þjónustu tollmiðlara til þess að annast tollafgreiðsluna.

Blóm og aðrar plöntur

Við búferlaflutninga frá Evrópulandi er heimilt að taka með sér pottaplöntur (inniplöntur) sem tilheyra venjulegri búslóð (allt að 30 stykki, 1-5 af hverri tegund). Að öðru leyti er innflutningur blóma og annarra plantna háður því að þeim fylgi heilbrigðisvottorð frá opinberum aðila sem hefur eftirlit með plöntusjúkdómum í ræktunarlandinu, svo og leyfi Matvælastofnunar.

Áfengi og tóbak

Áfengi og tóbak í búslóðum er ekki tollfrjálst; við komu til landsins geta þeir sem flytja búferlum notið tollfríðinda sem ferðamenn hvað varðar þess konar varning.

Tollafgreiðsla

Búslóð þarf að tollafgreiða hjá skattinum, að lokinni tollafgreiðslu er viðkomandi skipa- eða flugfélagi heimilt að afhenda búslóðina til innflytjanda.

Þegar skilyrðum um tollfrelsi búslóðar er fullnægt fær hún einfaldari og að jafnaði skjótari afgreiðslu en ella. Í þessum tilvikum telst undirritun innflytjanda á sérstakt tollskýrslueyðublað (E1.3, pdf) jafngilda yfirlýsingu hans um að tollfrelsisskilyrðunum sé fullnægt. Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á þessu atriði.

Ef tollskyldir munir eru í búslóð á að nota almennt tollskýrslueyðublað (E1), þar sem gera á grein fyrir því sem er tollfrjálst, annars vegar, og tollskylt, hins vegar.

Tollskýrslu eiga að jafnaði að fylgja farmbréf og reikningur vegna flutningskostnaðar, sem eru skjöl sem fást hjá farmflytjanda; auk þess kunna önnur skjöl eftir atvikum að vera áskilin, til dæmis vörureikningar vegna þess sem tollskylt er.

Tekið skal fram að tollstarfsmenn geta jafnan ákveðið að skoða búslóð til að tryggja að hún fái rétta tollmeðferð. Leiði tollskoðun í ljós að ekki hefur verið gerð grein fyrir tollskyldum varningi í búslóðinni eða varningi sem háður er innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni, skoðast slíkur varningur ólöglega innfluttur. Er þá heimilt að gera hann upptækan til ríkissjóðs, auk þess sem viðkomandi kann að þurfa að sæta refsingu lögum samkvæmt.

 Ítarefni

Eyðublöð

Einfaldari tollskýrsla - innflutningur (E1.3)
Yfirlýsing vegna innflutnings búslóðar (TS-108) Útfyllanlegt hægt að fjölga línum eftir þörfum vistið á disk og opnið með Adobe Reader
Yfirlýsing vegna innflutnings búslóðar prentvæn (TS-108) Prentið og fyllið út

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum