Ökutæki flutt inn með búslóð

Við fullnaðartollafgreiðslu ökutækja þarf að greiða lögboðin aðflutningsgjöld. Heimilt er þó að fresta innheimtu vörugjalds af ökutæki þess sem flytur hingað til lands til varanlegrar búsetu í allt að einn mánuð frá komudegi flutningsfars til landsins. Á þessum mánuði þarf að ganga frá skráningu hjá Samgöngustofu og greiðslu gjalda hjá Skattinum.

  • Ökutæki á að tollafgreiða á því tollafgreiðslugengi sem gildir þegar ökutækið er flutt til landsins enda fari fullnaðartollafgreiðsla fram innan eins mánaðar frá komu ökutækis til landsins.

Verðmat ökutækja sem flutt eru inn með búslóð


Af ökutækjum einstaklinga sem flytjast hingað til lands ber að greiða lögboðin aðflutningsgjöld, í samræmi við 6. gr. vörugjaldslaga nr. 29/1993 og V. kafla tollalaga nr. 88/2005. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um vörugjald af ökutækjum nr. 331/2000 er þó heimilt að fresta innheimtu vörugjalds af ökutæki þess sem flytur hingað til lands til varanlegrar búsetu í allt að einn mánuð frá komudegi flutningsfars til landsins. Skilyrði fyrir slíkum greiðslufresti eru að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins, að innflytjandi og aðrir rétthafar tollfríðindanna, sem taka sér bólfestu hér á landi, verði með skráð lögheimili í landinu í samræmi við lög um lögheimili og að bifreiðin sé flutt til landsins eigi síðar en einum mánuði frá komu innflytjanda sjálfs til landsins. Innflytjendur þurfa að fylla út sérstaka yfirlýsingu á þar til gerðu eyðublaði (E-9) varðandi innflutninginn og gera þar grein fyrir atriðum, sem eyðublaðið gefur tilefni til en á þeim tíma sem tímabundna akstursheimildin er í gildi þarf innflytjandi að ganga frá skráningu ökutækisins hjá Samgöngustofu og greiðslu gjalda hjá Skattinum.

Sjá einnig: Tollafgreiðsla ökutækja


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum