Erlend skráningarmerki
Af gefnu tilefni er vakin athygli á að:
Einstaklingi með fasta búsetu/lögheimili á Íslandi er ekki heimilt að flytja ökutæki á erlendu skráningarmerki tímabundið til landsins.
Einstaklingi með fasta búsetu erlendis og ekki með skráð lögheimil á Íslandi er heimilt að flytja ökutæki á erlendu skráningarmerki til landsins. Ef einstaklingurinn skráir lögheimili á Íslandi innan 12 mánaða frá komu sinni til landsins, ber að tollafgreiða ökutækið eða flytja það úr landi áður en lögheimilisskráning á sér stað.
Tímabundinn innflutningur ökutækja með erlend skráningarmerki
Heimilt er að flytja tímabundið til landsins ökutæki með erlend skráningarmerki að vissum skilyrðum uppfylltum. Fyrir komu til landsins eiga innflytjendur ökutækja að fylla út sérstaka yfirlýsingu (E-9) og senda Skattinum í samráði við farmflytjanda eða tollmiðlara. Að hámarki getur ökutæki verið hér á landi tímabundið í 12 mánuði. Nánari upplýsingar um, tollfrelsi, gjaldskyldu, tímalengd og önnur skilyrði má nálgast hér að neðan.
Afrit af yfirlýsingu E-9 á rafrænu eða pappírsformi skal ávallt vera tiltækt í ökutæki meðan á dvöl stendur.
Ökutæki utan EES-svæðisins skal vátryggt með alþjóðlegu vátryggingarskírteini „Græna kortið“ á meðan ökutæki er hér á landi. Innflytjanda er skylt að framvísa skírteininu við tollafgreiðslu.
Fari innflytjandi út fyrir tímamörk heimildar eða fari gegn skilyrðum um tímabundinn innflutning er Skattinum heimilt án viðvörunnar að fjarlægja skráningarmerki. Heimilt er að óska eftir skriflegum rökstuðningi Skattsins eða kæra ákvörðun til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Sjá leiðbeiningar um kæruleiðir.
Tímabundinn innflutningur - kílómetragjald
Frá 1. júlí 2024 þarf að greiða gjald af bílum sem skráðir eru erlendis en koma tímabundið til Íslands.
Fast gjald
Fast gjald er lagt á alla bíla við komuna til landsins:
10.000 kr. fyrir rafmagnsbíla og vetnisbíla
5.000 kr. fyrir tengiltvinnbíla
Innflytjandi greiðir gjaldið til farmflytjanda sem stendur skil á því í ríkissjóð.
Kílómetragjald
Ef dvöl er lengri en 30 dagar er greitt kílómetragjald miðað við ekna kílómetra á Íslandi. Lesa þarf stöðu akstursmælis við komu og brottför.
Fast gjald sem greitt var við komu dregst frá kílómetragjaldi við uppgjör. Kílómetragjald verður aldrei lægra en nemur fasta gjaldinu.
Ökutæki einstaklinga – tímabundin dvöl vegna atvinnu, náms eða ferðalaga
Einstaklingum búsettum erlendis er heimilt að flytja tímabundið til landsins ökutæki til persónulegra nota. Með ökutæki er átt við skráningarskylt faratæki, t.d. bifreið, bifhjól, tjaldvagn, fellihýsi og hjólhýsi. Tímabundinn innflutningur til persónulegra nota er tollfrjáls að vissum skilyrðum uppfylltum.
- Innflytjandi er með fasta búsetu erlendis
- Ökutæki komi til landsins innan eins mánaðar frá komu innflytjanda
- Hámarkstímalengd eru 12 mánuðir frá komu ökutækis til landsins
- Innflytjandi skal dvelja hér á landi á sama tíma og hann nýtur tollfríðinda, þó er heimilt að dvelja erlendis í allt að 6 vikur á 12 mánaða tímabili
- Ökutækið er til persónulegra nota fyrir innflytjanda og samferðamenn hans með fasta búsetu erlendis
- Óheimilt er að nota ökutæki til fólks- eða vöruflutninga í atvinnuskyni
- Verði ökutæki ekki flutt úr landi innan 12 mánaða falla tollfríðindi úr gildi og gjaldskylda stofnast
Ef innflytjandi kemur með fólksbifreið sem hann leigir af bílaleigu, skráðri í öðru landi, er einungis heimilt að vera með ökutækið í 42 daga í hvert sinn og aldrei lengur en 183 daga á hverju 12 mánaða tímabili.
Nánari upplýsingar má finna hér eða hafa samband við Skattinn.
Einnig fá finna nánari upplýsingar um skilyrði í tollalögum nr. 88/2005 og reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.
Hópbifreiðar og önnur ökutæki til notkunar í atvinnuskyni
Heimilt er að flytja ökutæki, vélar og tæki tímabundið til landsins í atvinnuskyni. Einnig er ferðaþjónustuaðilum heimilt að flytja tímabundið til landsins hópferðabifreiðar með erlend skráningarmerki. Með hópbifreið er átt við ökutæki sem skráð er fyrir 10 manns eða fleiri (níu farþegar auk ökumanns). Tímabundinn innflutningur getur að hámarki varað í 12 mánuði. Innflytjandi skal fylla út E-9 yfirlýsingu og skal hún ávallt vera tiltæk í ökutækinu meðan á dvöl stendur. Almennt eru allar vörur sem fluttar eru tímabundið til landsins tollskyldar. Hins vegar er tímabundinn innflutningur hópferðabifreiða sem eingöngu eru fluttar til landsins vegna þjónustu við tiltekin hóp ferðamanna og flutt úr landi þegar hópur fer af landi brott tollfrjáls.
Ákvörðun tollverðs:
- Almennt er leigusamningur forsenda tollverðs í tímabundnum innflutningi. Innflytjandi leggur fram leigusamning fyrir tímabil sem ökutækið er hér á landi. Að öðru leiti gilda ákvæði V. kafla tollalaga um tollverð og tollverðsákvörðun.
- Liggi leigusamningur ekki fyrir skal tollverð ákvarðað skv. áætlaðri leigu miðað við 1/60 tollverðs.
Trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda:
- Innflytjendum ber að leggja fram tryggingu við tollafgreiðslu fyrir áætluðum aðflutningsgjöldum. Trygging getur verið í formi tollkrítar, reiðufjár, bankaábyrgðar eða A.T.A. ábyrgðarskjali.
Uppgjör aðflutningsgjalda:
- Tímabundnum innflutningi lýkur með útflutningi innan tímamarka. Samhliða útflutningi sendir innflytjandi inn uppgjör vegna tímabundins innflutnings. Við uppgjör reiknar Tollstjóri út endanleg aðflutningsgjöld, ber saman framlagða tryggingu og endanleg aðflutningsgjöld og endurgreiðir eða innheimtir í samræmi við ákvæði tollalaga.
- Verði vara ekki flutt út innan tímamarka sem vísað var til við tollafgreiðslu eða hámarksfrestur rofinn skal tollafgreiða vöruna að fullu og greiða aðflutningsgjöld eins og um almennan innflutning væri að ræða.
Nánari upplýsingar má finna hér eða hafa samband við Skattinn.
Nánar um heimildir þessar má finna í tollalögum nr. 88/2005 og reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.
Fyrirtækjabílar
Fyrirtækjum með staðfestu í öðru ríki EES, EFTA eða Færeyjum er heimilt að flytja ökutæki tímabundið til landsins til notkunar fyrir starfsmann, sé ökutækið nauðsynlegt til að starfsmaður geti sinnt starfsskyldum sínum.
- Ökutækið þarf að nýta meira í heimalandinu (í km talið) yfir 12 mánaða tímabil.
- Ökutækið má einungis vera á landinu í samtals 183 daga á 12 mánaða tímabili.
Nánari upplýsingar má finna hér eða hafa samband við Skattinn.
Nánar um heimildir þessar má finna í tollalögum nr. 88/2005 og reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.
Ítarlegar upplýsingar um tímabundinn innflutning ökutækja með erlend skráningarmerki
Í ákveðnum tilvikum er mögulegt að flytja ökutæki með erlend skráningarmerki til Íslands án þess að greiða aðflutningsgjöld að fullu. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum geta innflytjendur ýmist fengið að greiða lækkuð aðflutningsgjöld eða fengið þau felld niður að fullu. Eftirfarandi eru þau tilvik þar sem mögulegt er að flytja ökutæki með erlend skráningarmerki til Íslands án þess að greiða aðflutningsgjöld að fullu.
Innflytjendur þurfa í öllum tilvikum að fylla út sérstaka yfirlýsingu á þar til gerðu eyðublaði (E-9) varðandi innflutninginn og gera þar grein fyrir atriðum, sem eyðublaðið gefur tilefni til. Með skilum eyðublaðsins til Tollstjóra lýsir innflytjandi því yfir að hann hafi kynnt sér og uppfylli skilyrði fyrir ofangreindum tollfríðindum.
Tollstjóri getur farið fram á að innflytjendur leggi fram sérstök skilríki til staðfestingar á atriðum sem máli skipta, í samræmi við m.a. 54. og 66. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerðir nr. 830/2011 og 267/1993. Má nefna til dæmis skráningarskírteini ökutækis, ökuskírteini, skilríki um að viðkomandi hafi lögleg umráð ökutækis (til dæmis bílaleigusamning), vátryggingarskírteini, vottorð um búsetu erlendis og eftir atvikum farmbréf og flutningsreikning (skjölin fást á skrifstofu skipafélags ef ökutæki er flutt til landsins með vöruflutningaskipi).
Samkvæmt reglugerð nr.1244/2019 teljast ökutæki sem eru skráð í eftirtöldum ríkjum hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu við komu til landsins:
Andorra (AND), Austurríki (A), Belgía (B), Danmörk (ásamt Færeyjum) (DK), Eistland (EST), Finnland (FIN), Frakkland (ásamt Mónakó) (F), Grikkland (GR), Holland (NL), Írland (IRL), Ítalía (ásamt San Marínó og Páfagarði) (I), Króatía (HR), Kýpur (CY), Lettland (LV), Litháen (LT), Lúxemborg (L), Malta (M), Noregur (N), Portúgal (P), Pólland (PL), Serbía (RS), Slóvakía (SK), Slóvenía (SLO), Sviss (ásamt Liechtenstein) (CH), Svíþjóð (S), Tékkland (CZ), Ungverjaland (H) og Þýskaland (D).
Ef framangreint á ekki við, þarf innflytjandi annaðhvort að leggja fram alþjóðlegt vátryggingarkort („grænt kort") eða önnur skilríki um gilda ábyrgðartryggingu vegna notkunar ökutækis á Íslandi.
Hópferðabifreiðar
Samkvæmt c-lið 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 20. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008 er ferðaskrifstofum og öðrum sem hafa atvinnu af skipulagningu hópferðalaga um landið, heimilt að flytja inn tímabundið og án greiðslu aðflutningsgjalda hópferðabifreið, skráða erlendis, til nota vegna ferðar tiltekins hóps ferðamanna sem búsettir eru erlendis, enda verði hún flutt úr landi á ný við brottför viðkomandi ferðamannahóps.
Með hópferðabifreið í ofangreindum skilningi er átt við ökutæki sem skráð er fyrir fleiri en 10 manns, þá a.m.k. 9 farþega auk ökumanns.
Ökutæki einstaklinga
Þeim sem dvelja hér á landi í ár eða skemmri tíma vegna atvinnu, náms eða ferðalaga er heimilt að flytja inn bifreið, skráða erlendis, án greiðslu aðflutningsgjalda, skv. a-lið 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 18. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008. Bifreiðina má einnig, að uppfylltum skilyrðum til tollfrelsis, kaupa nýja og óskráða hér á landi. Skilyrðin fyrir tollfrjálsum tímabundnum innflutningi ökutækja einstaklinga eru eftirfarandi:
1. Innflytjandi sé með eða hafi verið með fasta búsetu erlendis.
2. Bifreiðin sé ætluð til persónulegra nota innflytjanda og fjölskyldumeðlima hans og annarra sem eru með honum í för og eru búsettir erlendis. Bifreið sem grein þessi tekur til er óheimilt að nota til fólks- eða vöruflutninga í atvinnuskyni.
3. Bifreiðin sé flutt til landsins innan eins mánaðar frá komu viðkomandi til tímabundinnar dvalar.
4. Bifreiðin verði flutt úr landi við lok dvalar viðkomandi í landinu, en þó eigi síðar en innan eins árs frá komu innflytjanda til landsins. Ekki skal hafa áhrif í þessu sambandi þó viðkomandi fari um stundarsakir af landi brott, t.d. í leyfi frá vinnu eða námi, enda vari slík fjarvera eigi lengur en í 6 vikur á 12 mánaða tímabili.
Ferðamönnum er jafnframt heimilt að flytja inn með sömu skilyrðum og að ofan greinir önnur ökutæki en bifreiðar, s.s. bifhjól, fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna, sbr. d-lið 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 20. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008.
Tollstjóri getur áskilið að innflytjandi bifreiðar samkvæmt þessari grein sýni fram á það með skjalfestum hætti að hann hyggist dvelja tímabundið í landinu eigi lengur en eitt ár, t.d. með því að framvísa tímabundnum starfssamningi eða tímabundnum leigusamningi um íbúðarhúsnæði, eftir því sem við getur átt.
Ef innflytjandi dvelur lengur en 12 mánuði, eða tekur upp fasta búsetu á Íslandi, fellur þessi undanþága sjálfkrafa niður og greiða ber gjöld af ökutækinu eða senda það úr landi.
Samkvæmt f-lið 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 gildir ofangreind undanþága, með sömu skilyrðum, einnig um fólksbifreiðar leigðum út af bílaleigum, skráðum í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum, sem innflytjandi nýtir hér á landi tímabundið í eigin þágu enda vari dvöl bifreiðarinnar hér á landi ekki lengur en 42 daga í hvert sinn en aldrei lengur en 183 daga á hverju 12 mánaða tímabili. Hver sá sem nýtir sér heimild til tímabundins innflutnings samkvæmt þessum lið getur aldrei nýtt heimildina lengur en 42 daga á ári hverju.
Fyrirtækjabílar
Undanþága frá greiðslu aðflutningsgjalda í tilvikum ferðamanna gildir einnig um bifreiðar sem skráðar eru erlendis og vinnuveitandi með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum sér starfsmanni sínum fyrir, enda sé bifreiðin nauðsynleg til þess að starfsmaðurinn geti sinnt starfsskyldum sínum. Það er jafnframt skilyrði að notkun bifreiðarinnar hér á landi sé tímabundin og ekki meiri en notkun hennar erlendis. Notkun telst tímabundin ef hún er ekki lengri en samtals 183 dagar á sérhverju 12 mánaða tímabili. Notkun telst meiri hér á landi en erlendis ef hún er notuð meira hér á landi en erlendis í kílómetrum talið á 12 mánaða tímabili, sbr, e-lið 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005.
Eldsneyti og varahlutir
Innflytjendur ofangreindra ökutækja sem uppfylla skilyrði fyrir tímabundnum innflutningi er ennfremur heimilt að flytja inn tollfrjálst eldsneyti sem rúmast í innbyggðum eldsneytisgeymum ökutækisins, þó að hámarki 200 lítrum, auk varahlutum í ökutækið ef það skyldi eða verða fyrir tjóni, sbr. 5. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga og 22. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi.
Ökutæki til nota í atvinnuskyni
Fyrir ökutæki til nota í atvinnuskyni, m.a. bifreiðar til fólks- og vöruflutninga og ökutæki til sérstakra nota, ber að reikna aðflutningsgjöld á grundvelli leiguverðs, sbr. 6. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga og 28. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi. Liggi leiguverð tækis ekki fyrir skal reikna aðflutningsgjöld af áætlaðri leigu sem ákvörðuð skal sem 1/60 hluti tollverðs eins og það er ákveðið skv. V. kafla tollalaga, sbr. VII. kafla reglugerðar um vörslu og tollmeðferð vöru, fyrir hvern byrjaðan mánuð frá lokum hins fyrsta mánaðar frá komudegi þess til landsins.
Reynist notkunartíminn annar skal gera upp aðflutningsgjöld við brottför bifreiðarinnar frá landinu. Gera þarf aðflutningsskýrslu til bráðabirgða og leggja fram tryggingu við innflutning hópbifreiðarinnar til landsins en við útflutning bifreiðarinnar þarf að skila inn bæði útflutningsskýrslu og eyðublaði E-14, „Beiðni um skoðun á vöru sem senda á til útlanda.“ Trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda getur verið í formi ATA Carnet ábyrgðarskjals eða fjártryggingar.
Samkvæmt 23. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi þá er greiðsla aðflutningsgjalda að hluta háð því skilyrði að ökutæki verði notað hér á landi að hámarki í 12 mánuði. Ákveði innflytjandi að nota ökutækið hér á landi lengur en í eitt ár skal hann þá þegar gefa sig fram við tollstjóra. Skal þá uppgjör aðflutningsgjalda eiga sér stað. Greidd aðflutningsgjöld skv. 6. tl. 7. gr. tollalaga skulu koma til frádráttar álögðum aðflutningsgjöldum.
Ítarefni
Eyðublöð
Yfirlýsing vegna farangurs á farmskrá