Tollafgreiðsla vörusendinga

Flestir einstaklingar kjósa að nýta sér sérþekkingu tollmiðlara og láta þá sjá um tollskýrslugerðina.

  • Ef sending sem berst frá útlöndum inniheldur tollskyldan varning ber að greiða af henni lögboðin aðflutningsgjöld (tolla, vörugjöld, virðisaukaskatt og ýmis önnur gjöld) nema annað sé tekið fram í tollskrá eða lögum.
  • Ef allar upplýsingar liggja fyrir getur tollmiðlari gengið frá tollafgreiðslu sendingarinnar og að fenginni afhendingarheimild frá Tollstjóra afhent hana móttakenda .
  • Tollmiðlari hefur samband við móttakanda ef upplýsingar vantar t.d. vörureikning.

Ferill tollafgreiðslu

Þegar vara er flutt inn til landsins er hún sett á farmskrá hjá farmflytjanda og fær sendingarnúmer sem notað er til að auðkenna hana í tollakerfi embættisins. Innflytjandi þarf að fara fram á að varan verði tollafgreidd með því að skila inn aðflutningsskýrslu. Aðflutningsskýrslu geta þeir sem stunda atvinnurekstur skilað rafrænt með VEF- eða SMT- tollafgreiðslu. Í undantekningartilfellum er hægt að skila aðflutningsskýrslu á pappír.

Ekki má afhenda vöru nema afhendingarheimild liggi fyrir en í því felst m.a. að öll skjöl (t.d. vörureikningur, leyfi o.s.frv.) séu til staðar hjá innflytjanda og að aðflutningsgjöld hafi verið greidd eða skuldfærð.

Hvaða skjöl þarf að leggja fram við tollafgreiðslu?

Mikilvægt er að öll skjöl séu lögð fram svo unnt sé að hraða tollafgreiðslu eins og kostur er. Einnig skiptir miklu máli að skjölin séu rétt útfyllt svo ekki komi til þess að gera þurfi athugasemd en það hefur í för með sér tafir á tollafgreiðslu.

Leggja þarf fram eftirtalin skjöl þegar óskað er tollafgreiðslu:

Aðflutningsskýrsla

Vörureikningur

Farmbréf

Flutningsgjaldareikningur

Leyfi eða vottorð

Önnur skjöl

Fríðindameðferð

Sé um vöru að ræða sem njóta á tollaívilnunar samkvæmt EES-samningnum, EFTA-sáttmálanum, fríverslunarsamningi Íslands við ESB eða öðrum hliðstæðum fríverslunarsamningum skal leggja fram fullgild flutningsskilríki, frumrit EUR.1 flutningsskírteinis, eða reikning með yfirlýsingu um upprunaréttindi viðkomandi vara í samræmi við ákvæði viðkomandi fríverslunarsamninga.

Við tollafgreiðslu skal leggja fram frumrit eða samrit nefndra skjala, enda leiði ekki annað af lögum, reglugerðum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Með sama hætti er heimilt að leggja fram slík skjöl sem innflytjandi hefur fengið send um gagnaflutningsnet, til dæmis símbréf.

Þegar tolleftirlit fer fram með vörusendingu er aðflutningsskýrsla skoðuð og öll gögn sem henni fylgja yfirfarin. Þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi er vöruskoðun látin fara fram. Komi til þess hefur verið reynt að haga eftirliti með þeim hætti að sem minnstar tafir verði á tollafgreiðslu.

Liggi fullnægjandi gögn ekki fyrir við tollafgreiðslu getur innflytjandi í sérstökum tilvikum og með vissum skilyrðum óskað eftir tollafgreiðslu vörunnar með bráðabirgðatollafgreiðslu.

Nánari upplýsingar veita þjónustufulltrúar okkar í síma 442 1000, einnig er hægt að hafa samband.

Aðflutningsskýrslueyðublöð er hægt að sækja hér á vefnum.

Ítarefni

Eyðublöð

Nánari upplýsingar


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum