Fyrirframgreiðsla vaxtabóta
Endanleg ákvörðun á vaxtabótum fer fram við álagningu að tekjuári liðnu. Þeir sem festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á tekjuárinu geta sótt um að fá greiddar ársfjórðungslega fyrirfram áætlaðar vaxtabætur.
Fyrirframgreiðslan er reiknuð eftir sömu reglum og gilda um útreikning vaxtabóta í álagningu, nema hvað miðað er við ársfjórðung í staðinn fyrir heilt ár. Hámark vaxtabóta, í hverjum ársfjórðungi, er fjórðungur af hámarks vaxtabótum fyrir heilt ár. Miðað er við gjaldfallna og greidda vexti í hverjum ársfjórðungi, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur fjórðungi hámarks vaxtagjalda miðað við heilt ár. Skerðing vegna tekna er miðuð við fjórðung launatekna umsækjanda á síðustu 12 mánuðum samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og upplýsingar um tekjur utan staðgreiðslu og eignir samkvæmt síðasta skattframtali.
Hvenær er greitt?
Umsókn um fyrirframgreiðslu vaxtabóta
Sækja skal um fyrirframgreiðslu vaxtabóta til ríkisskattstjóra (RSK 3.14).
Þegar kaup hafa átt sér stað eða bygging er hafin er hægt að sækja um fyrirframgreiðslu vegna þeirra lána sem stofnað hefur verið til vegna kaupanna. Sótt er um í eitt skipti og eftir það ákvarðast fyrirframgreiðslan sjálfkrafa á grundvelli þeirrar umsóknar. Einungis þarf að senda nýja umsókn ef stofnað er til nýrra lána.
Frestur til að sækja um fyrirframgreiðslu vaxtabóta er í einn mánuð eftir að ársfjórðungi lýkur.
- Vegna 1. ársfjórðungs er umsóknarfrestur til 30. apríl
- Vegna 2. ársfjórðungs er umsóknarfrestur til 31. júlí
- Vegna 3. ársfjórðungs er umsóknarfrestur til 31. október
- Vegna 4. ársfjórðungs er umsóknarfrestur til 31. janúar
Umsóknum er skilað til ríkisskattstjóra. Berist umsókn síðar er hún afgreidd með umsóknum næsta ársfjórðungs.
Nauðsynleg gögn og upplýsingar
Gögn sem fylgja skulu umsókn
Lán sem veita rétt til fyrirframgreiðslu
Þau lán sem veita rétt til fyrirframgreiðslu eru fasteignaveðlán sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Það á jafnt við um ný lán og yfirtekin lán.
Fyrirframgreiðsla reiknast frá þeim mánuði þegar greitt er af láni í fyrsta skipti. Þegar stofnað er til nýrra lána kemur strax til greiðslu lántökukostnaðar og reiknast fyrirframgreiðslan þá frá því að lánið er afgreitt. Fyrirframgreiðsla vegna yfirtekinna lána reiknast frá þeim tíma sem greitt er af láninu eftir að viðkomandi lánastofnun hefur verið tilkynnt um yfirtökuna. Því er nauðsynlegt að tilkynna yfirtöku láns strax til að koma í veg fyrir tafir á greiðslu.
Upplýsingar sóttar til lánastofnana
Uppgjör og álagning
Fyrirframgreiðsla vaxtabóta er bráðabirgðagreiðsla. Í fyrirframgreiðslu er einungis tekið tillit til vaxtagjalda af fasteignaveðlánum og einungis tekið mið af greiddum vaxtagjöldum sem gjaldféllu á viðeigandi ársfjórðungi. Sama á við um önnur lán sem tekin hafa verið til öflunar íbúðarhúsnæðis en þau sem veittu rétt til fyrirframgreiðslu, þau koma til útreiknings vaxtabóta í uppgjöri samkvæmt framtali. Við álagningu samkvæmt skattframtali eru vaxtabætur reiknaðar og gerðar upp ef um of- eða vangreiðslu hefur verið að ræða.