Sérstakur vaxtastuðningur

Við álagningu opinberra gjalda 2024 er framteljendum ákvarðaður sérstakur vaxtastuðningur. Lög um hann voru sett í tengslum við kjarasamninga sem undirritaðir voru í mars 2024.

Sérstakur vaxtastuðningur er reiknaður samkvæmt forsendum sem fyrir liggja í skattframtali. Skilyrði fyrir stuðningi er að framteljandi hafi átt fasteign á árinu 2023 og talið fram vaxtagjöld á framtali af lánum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. 

Ekki þarf að sækja um sérstakan vaxtastuðning.

Niðurstaða - birting

Á álagningarseðli er ábending birt hjá þeim sem eiga möguleika á sérstökum vaxtastuðningi, en niðurstaðan (fjárhæðin) er birt á þjónustusíðu framteljanda, á skattur.is.

Ráðstöfun

Ólíkt vaxtabótum er sérstakur vaxtastuðningur ekki greiddur út, heldur er fjárhæðinni ráðstafað inn á lán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Veldu lán

Á þjónustusíðunni skattur.is þarf framteljandi að tilgreina inn á hvaða lán skuli greiða. Það skal gert á tímabilinu 1.-30. júní 2024. Ef ekkert er valið verður fjárhæðin greidd inn á það lán sem er með hæstu eftirstöðvarnar, samkvæmt skattframtali.

Tímalínan

  • Júní - einstaklingar tilgreina lán
  • Júlí - ríkisskattstjóri afhendir Fjársýslunni upplýsingar um lán 
  • Ágúst - Fjársýslan miðlar upplýsingum til lánveitenda

Sjá nánar um miðlun upplýsinga, ráðstöfun, kærurétt og fleira í lögum 36/2024.

Spurt og svarað

Hvar finn ég útreikninginn og vel lán?

Ég er með nýtt lán

Ég seldi íbúðina mína og skulda ekkert í dag

Eftirstöðvar lánsins eru lægri en fjárhæð vaxtastuðningsins

Við erum skilin

Ég er með búseturétt hvernig ráðstafa ég?

Framtal mitt verður leiðrétt sem hefur áhrif á útreikning vaxtastuðnings

Er niðurstaðan kæranleg?

Útreikningur

Stofn til útreiknings er 23% af vaxtagjöldum af lánum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Það eru vaxtagjöld í reitum 166 og/eða 87 í kafla 5.1 og 5.2 á skattframtali.

Frá stofninum dragast 0,5% af nettó eign sem er umfram 18.000.000 kr. hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum, en umfram 28.000.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.

Einnig dragast frá 4% af tekjustofni sem er umfram 6.000.000 kr. hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum, en umfram 9.600.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.

Sérstakur vaxtastuðningur getur að hámarki orðið 150.000 kr. hjá einhleypingi, 200.000 kr. hjá einstæðu foreldri og 250.000 kr. hjá hjónum og sambýlisfólki.

Lágmarksfjárhæð er 5.000 kr. Ef reiknaður vaxtastuðningur er lægri, fellur hann niður.

Ýmis ákvæði

Ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings er bundin við árið 2024.

Hjá þeim sem skattskyldir eru á Íslandi hluta úr ári ákvarðast fjárhæðin í hlutfalli við dvalartíma á Íslandi á árinu 2023.

Sérstakur vaxtastuðningur telst ekki til skattskyldra tekna og honum verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?