Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 007/2010

26.8.2010

Frádráttarbærni útvarpsgjalds

26. ágúst 2010
T-Ákv. 10-007

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri benda á að útvarpsgjald sem einstaklingum og lögaðilum er gert að greiða samkvæmt 11. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., telst ekki vera frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, enda ekki ætlað til að afla rekstrartekna, tryggja þær eða halda þeim við. Almennt gildir að álagðir skattar samkvæmt lögum nr. 90/2003 og gjöld álögð samkvæmt sérstökum lögum þar um teljast ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður. Er gjaldfærsla því óheimil nema sérstaklega sé kveðið svo á um í viðkomandi lögum. Þannig er t.d. sérstaklega tekið fram í lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, og í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, að álagt gjald samkvæmt lögunum teljist til rekstrarkostnaðar. Ekkert sambærilegt ákvæði er í lögum nr. 6/2007 sem álagning útvarpsgjalds er byggð á né er þess getið í lögum nr. 90/2003 að útvarpsgjald sé frádráttarbært frá tekjum. Útvarpsgjald er skattur sem lagður er á óháð notkun útvarps og sjónvarps og er því ekki afnotagjald. Gjaldið rennur í ríkissjóð og er því t.d. ekki með öllu sambærilegt við sum önnur gjöld sem álögð eru og renna t.d. til félagasamtaka sem starfa í þágu viðkomandi starfsgreina. Samkvæmt þessu telur ríkisskattstjóri að ekki sé heimilt að færa útvarpsgjald til frádráttar á móti rekstrartekjum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum