Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 005/2002

13.8.2002

Eftirágreidd iðgjöld launamanna og sjálfstætt starfandi

13. ágúst 2002
T-Ákv. 02-005
2002-08-0389

Nokkuð hefur borið á því að skattþegnar hafi á ýmsan hátt vanrækt greiðslu á iðgjöldum til lífeyrissjóða . Eru þeir þó að lögum skyldir til að inna þau af hendi og er haft eftirlit með því að svo sé gert.

Heimild til að draga iðgjöld til lífeyrissjóða frá tekjum á skattframtali er að finna í 6. tl. A-lið 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kemur þar fram að skilyrði fyrir frádrætti sé að iðgjöld séu greidd reglulega.

Nánari útlistun á frádráttarskilyrðum kemur fram í úrskurði yfirskattanefndar nr. 73/2002, sem kveðinn var upp 13. mars sl.. Þar segir að til þess að iðgjöld teljist greidd reglulega þurfi að greiða þau í síðasta lagi fyrir lok framtalsfrests vegna viðkomandi árs, eins og ríkisskattstjóri ákveður hann hverju sinni. Að öðrum kosti séu þau ekki frádráttarbær.

Úrskurður þessi sendist yður hér með til upplýsinga og eftirbreytni, sbr. 1.mgr 101.gr laga nr 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum