Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 004/2002

30.4.2002

Upplýsingar úr staðgreiðsluskrá

30. apríl 2002 T-Ákv. 02-004 2001-10-0860

Ríkisskattstjóri hefur hinn 31. október 2001 móttekið beiðni yðar um yfirlit úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra yfir greiðslur til nafngreinda launþega. Farið er fram á þessar upplýsingar vegna greiðslu á forgangskröfum launþega þessara í þrotabú A hf., kt. […].

Með bréfi dags. 7. nóvember 2001 var yður sent yfirlit yfir launagreiðslur frá A hf. til launþeganna.

Hinn 19. apríl 2002 höfðu þér samband við embætti ríkisskattstjóra þar sem farið var fram á að upplýsingar yrðu veittar um allar greiðslur sem viðkomandi launþegar hefðu þegið á tilteknum tímabilum á árunum 2000 og 2001, þ.e. einnig greiðslur frá öðrum en A hf.

Ríkisskattstjóri er bundinn ströngum ákvæðum um þagnarskyldu samkvæmt 115. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

Umrædd þagnarskylda er þó upphafin í þeim tilvikum þar sem sérákvæði víkja þagnarskyldu ríkisskattstjóra til hliðar. Í 2. málsl. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er m.a. sérákvæði um upplýsingaskyldu opinberra stofnana til þrotabús vegna málefna er varða búið.

Að áliti ríkisskattstjóra takmarkast upplýsingaskylda embættisins við upplýsingar sem varða málefni skattaðila og um viðskipti einstakra aðila við hann. Með vísan til þess er ekki unnt veita umbeðnar upplýsingar úr staðgreiðsluskrá um greiðslur til launþega sem ekki eru upprunnar frá búinu sjálfu, nema að fyrir liggi umboð frá launþegunum þess efnis að slík upplýsingagjöf sé heimil. Slíkt umboð liggur ekki og verður því að synja erindi þessu að svo stöddu.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum