Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/2001

12.1.2001

Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra - Túlkun gildistökuákvæðis

12. janúar 2001 T-Ákv. 01-002 2000-12-0590

Þann 14. desember sl. voru samþykkt á Alþingi lög nr. 172/2000, umbreytingu á lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999. Lagabreytingin felur í sér hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra úr kr. 4.065 í kr. 4.578. Í gildistökuákvæði laganna segir að lögin öðlist gildi þann 1. janúar 2001. Ekki verður hins vegar ráðið af lagatextanum hvenær lögin eigi að koma til framkvæmda. Af greinargerð þeirri sem fylgdi frumvarpinu má hins vegar ráða að lögin eigi að koma til framkvæmda við álagningu gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra á árinu 2001. Með vísan til þessa og 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar sem bannar afturvirkni skattalaga, óskaði ríkisskattstjóri eftir áliti fjármálaráðuneytisins um túlkun á umræddu gildistökuákvæði.

Þann 9. janúar sl. svaraði fjármálaráðuneytið álitsbeiðni ríkisskattstjóra. Í bréfi ráðuneytisins segir:

Ráðuneytið tekur undir það með yður að ofangreind framkvæmd sem gert er ráð fyrir í greinargerð með lögum nr. 172/2000, fer í bága við 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 15. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sem kveður á um bann við afturvirkni skattalaga. Sú fjárhæð sem fram kemur í lögum nr. 172/2000 getur því ekki orðið grundvöllur álagningar fyrr en við álagningu opinberra gjalda á árinu 2002.

Með vísan til framangreinds verður fjárhæð gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra við álagningu opinberra gjalda 2001 kr. 4.065, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum