Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 018/2000

29.5.2000

Túlkun á reglum um meðferð söluhagnaðar af

29. maí 2000 T-Ákv. 00-018 is 2000-05-0461

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar sem dagsett er 22. maí 2000.Bréfið er svohljóðandi:

„Umbj. okkar eru hjón sem hafa stundað landbúnað í x [hérað á Íslandi] á undanförnum árum. Nú hafa þau í hyggju að bregða búi og flytja til Danmerkur enda er eiginmaðurinn danskur ríkisborgari.

Við sölu á eignum búsins myndast söluhagnaður á framleiðslurétti,sem samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er hægt að færa til lækkunar á keyptu íbúðarhúsnæði.

Nú er spurt hvort þessi ákvæði séu ekki jafnt í gildi í þessu tilfelli ef keypt er íbúðarhúsnæði í Danmörku. Er þar m.a. horft til viðhorfa varðandi kaup á erlendum hlutabréfum til frestunar á söluhagnaði þeirra og annarra atriða tengd EES samningnum.

Þar sem umbj. okkar þurfa að taka ákvörðun í þessu máli innan fárra daga er það mjög mikilvægt fyrir þau að svar gæti legið fyrir sem allra fyrst.“

Í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur eftirfarandi fram:

„Maður getur farið fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Kaupi hann annað íbúðarhúsnæði eða hefji byggingu íbúðarhúsnæðis í stað þess selda innan þess tíma færist söluhagnaðurinn, framreiknaður skv. 2. mgr. 13. gr., til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar.

Ríkisskattstjóri hefur túlkað þessi ákvæði þannig að niðurfærsla stofnverðs íbúðarhúsnæðis ná eingöngu til íbúðarhúsnæðis hér á landi. Úrskurður ríkisskattanefndar nr. 1067 frá árinu 1991 staðfestir þessa túlkun ríkisskattstjóra. (Úrskurður þessi er birtur í úrtaki úrskurða ríkisskattanefndar árin 1990, 1991 og 1992 útg. 1995 á bls. 485.)

Ríkisskattstjóri lítur svo á að sama gildi varðandi ákvæði 4. mgr.14. gr. fyrrgreindra laga. Með íbúðarhúsnæði samkvæmt þessari grein er einungis átt við íbúðarhúsnæði sem staðsett er hér á landi.. Bæði þau lagaákvæði sem hér er vísað til eru reist á þeirri forsendu að verið sé að fresta skattlagningu söluhagnaðarins. Þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði erlendis og þar með utan íslenskrar skattalögsögu eiga reglur þessar því ekki við.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum