Ákvarðandi bréf nr. 014/2000
Staðaruppbót presta vegna starfa erlendis.
31. mars 2000 T-Ákv. 00-014 is 2000-03-0703
Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. mars sl., þar sem spurst er fyrir um það hvort unnt sé á með lögjöfnun að heimila prestum er starfa erlendis á vegum íslenska ríkisins að draga færa til frádráttar fjárhæð jafn háa og tekjufærða staðaruppbót, með sama hætti og gildir um fastráðna, setta eða skipaða starfsmenn við sendiráð Íslands.
Af þessu tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram að skattamálum er skipað með lögum. Í því felst að ítarlega er skilgreint hvað teljist vera skattskyldar tekjur og hvað ekki og hvaða frádrættir eru heimilaðir á móti skattskyldum tekjum. Þær reglur sem gilda um frádrátt á móti staðaruppbót verða ekki skýrðar rúmri skýringu, enda fela frádráttarliðir 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í sér frávik frá hinni almennu reglu laganna um skattlagningu heildartekna. Með sama hætti verður ekki séð að neinar forsendur séu til lögjöfnunar. Regla 2. málsl. 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna er afdráttarlaus og skýr. Ef prestar, eða aðrir sem starfa á vegum ríkisins erlendis, eru ekki skipaðir, fastráðnir eða settir sem starfsmenn við sendiráð Íslands erlendis, eða eru ekki sendiræðismenn eða fastafulltrúar Íslands við alþjóðastofnanir sem Ísland er aðili að, þá er staðaruppbót sem þeir kunna að fá greidda skattlögð eins og aðrar launatekjur. Ríkisskattstjóri eða önnur stjórnvöld hafa engar heimildir samkvæmt lögum til að gera undantekningar hér á.
Ríkisskattstjóri.