Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 011/2000

20.3.2000

Greiðslur til starfsmanna vegna líkamsræktar

20. mars 2000 T-Ákv. 00-011 is 2000-03-0371

Af gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri gera grein fyrir þeim reglum sem gilda um skattalega meðferð greiðslna sem launagreiðendur inna af hendi til starfsmanna vegna líkamsræktar.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, telst til skattskyldra tekna endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Ríkisskattstjóri lítur svo á að þegar vinnuveitandi tekur að sér að greiða tíma í líkamsrækt eða aðrar sambærilegar greiðslur fyrir starfsmenn sína, eða tekur í þátt í að greiða slíkan kostnað fyrir starfsmenn, teljist slíkar greiðslur til starfstengdra greiðslna sem skattskyldar séu samkvæmt framansögðu. Þar sem hér er um að ræða tekjur samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði kemur frádráttur samkvæmt 2. mgr. 30. gr. sömu laga ekki til greina.

Þá telur ríkisskattstjóri að greiðslur af þessu tagi séu staðgreiðsluskyld laun samkvæmt 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og því beri launagreiðendum að halda staðgreiðslu eftir af greiðslum þessum og skila í ríkissjóð. Eigi verður talið að viðhlítandi stoð fyrir undanþágu frá staðgreiðsluskyldu verði fundin í reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með síðari breytingum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum