Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 009/2000

14.3.2000

Fyrirspurn varðandi fyrningu fólksbifreiðar/jeppa í einstaklingsrekstri, dagsett 20. september 1999.

14. mars 2000 T-Ákv. 00-009 is 1999-09-0209

Þeim spurningum sem þér varpið fram í bréfi yðar, dags. 20. september sl. verður best svarað með vísan til laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og þeirra skýringa sem fram koma aftan á meðfylgjandi fylgiskjali með skattframtali 2000, eyðublaði RSK 4.03,

rekstraryfirlit fólksbifreiðar sem eigi er heimilt að fyrna og notuð er bæði til einkanota og við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi manns.

Með vísan til þess sem fram kemur í skýringum aftan á eyðublaðinu RSK4.03

Rekstraryfirlit fólksbifreiðar

koma fram skilyrðin fyrir því að fallast mætti á að fyrna fólksbifreið sem notuð er í rekstri, en þau eru að bifreiðin sé eingöngu og alfarið notuð í atvinnurekstrinum og að bifreiðin sé nauðsynleg t.d. til flutnings á starfsmönnum og vinnuáhöldum milli vinnustaða, þ.e. að ekki sé um nein einkanot að ræða. Með einkanotum er m.a. átt við akstur milli heimilis og vinnustaðar. Verður því að gera þá kröfu að bifreiðin sé geymd á vinnustað eiganda til þess að uppfylla skilyrðið um að bifreiðin sé eingöngu notuð í atvinnurekstrinum.

Þegar um er að ræða sjálfstætt starfandi mann sem nýtir fólksbifreið sína bæði í rekstri sínum og til einkanota, er slík bifreið ekki fyrnanleg eign í skv. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í þeim tilvikum þegar fólksbifreið í eigu sjálfstætt starfandi manns er að einhverju leyti notuð til einkaþarfa eigandans er meginreglan sú að bifreiðina skuli færa til eignar á persónuframtali eiganda og til gjalda í rekstri hans færist sá hluti kostnaðar sem fellur á reksturinn skv. notkun bifreiðarinnar í þágu rekstrarins, sbr. eyðublaðið RSK 4.03, rekstraryfirlit fólksbifreiðar. Eins og sjá má á eyðublaðinu RSK 4.03 er heimilt að færa sem kostnað fólksbifreiðar fasta afskrift, og er hún þannig talin með rekstrarkostnaði bifreiðarinnar. Til gjalda í rekstri eigandans færist þá sá hluti föstu afskriftarinnar sem fellur á reksturinn skv. notkun bifreiðarinnar í þágu rekstrarins.

Varðandi spurningar yðar merktar a, b, og c, þá verður yður gert að meta það sjálfur hvort þér kaupið yður aðra bifreið, og með hvaða hætti þau kaup yrðu gerð.

Þess er vænst að svar þetta sé fullnægjandi, og er beðist velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum