Ákvarðandi bréf nr. 007/2000
Skattlagning leigutekna af íbúðarhúsnæði þegar fyrningarstofn þess fer yfir viðmiðunarmörk.
24. febrúar 2000 T-Ákv. 00-007 is 1999-12-0066
Með bréfi yðar, dags. 8. desember sl., óskið þér eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort telja beri leigutekjur af íbúðahúsnæði sem fer yfir viðmiðunarmörk fyrningarstofns skv. ákvæðum 3. málsl. 2. mgr. B-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, áfram sem fjármagnstekjur eða sem tekjur af atvinnurekstri.
Samkvæmt 2. mgr. B-liðar 30. gr. telst útleiga manns á íbúðarhúsnæði ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi nema því aðeins að heildarfyrningargrunnur slíks húsnæðis í eigu hans í árslok nemi 22.928.000 kr. eða meira ef um einstakling er að ræða, en 45.856.000 kr. ef hjón, sbr. 63. gr., eiga í hlut við álagningu á árinu 2000, sbr. ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 65/1997.
Það er álit ríkisskattstjóra að þegar endurmetinn fyrningarstofn íbúðarhúsnæðis í eigu manna sem er og hefur verið í útleigu hækkar samkvæmt verðbreytingarstuðli meira en hækkun viðmiðunarmarka skv. 3. málsl. 2. mgr. B-liðar 30. gr. fyrr nefndra laga og fer þar með yfir viðmiðunarmörkin án atbeina viðkomandi einstaklings, s.s. vegna kaupa eða endurbóta o.þ.h. verðmætisaukningar á húsnæðinu, hafi menn heimild til að telja leigutekjur af íbúðarhúsnæðinu fram eftir óbreyttum reglum sem tekjur skv. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, þ.e. sem fjármagnstekjur.
Ríkisskattstjóri.