Ákvarðandi bréf nr. 006/2000
Skuldfærsla á arði ársins. Breyting á skattframkvæmd.
9. febrúar 2000 T-Ákv. 00-006 is 2000-02-0092
Á síðustu árum hefur hlutafélögum verið heimilt að færa ógreiddan arð ársins til skuldar, enda þótt ekki hefði verið tekin formleg ákvörðun um arðsúthlutun. Þessi framkvæmd byggði á úrskurði yfirskattanefndar nr. 982/1994 þar sem fallist var á skuldfærslu á ósamþykktum og ógreiddum arði ársins. Í rökstuðningi yfirskattanefndar fyrir því að heimila skuldfærslu ógreidds og ósamþykkts arðs sagði að ekki væru efni til annars en að telja að gjaldfærður arður skuli jafnframt talin til skuldar. Þetta hafði einnig stoð í B-lið 1.7 í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, en þar var ógreiddur arður talinn meðal þeirra skuldaliða sem sérgreindir skyldu í efnahagsreikningi hlutafélags.
Með lögum nr. 95/1998 var gerð breyting á 8. tölul. 31. gr. laga nr.75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Breytingin fólst í því að heimild til að draga úthlutaðan arð frá tekjum var afnuminn, en í stað þess var hlutafélögum sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., og félögum og samlögum sem falla undir 2. og 4. tölul.1. mgr. 2. gr. heimilað að draga frá tekjum þá fjárhæð sem þau höfðu fengið greidda í arð.
Ríkisskattstjóri lítur svo á að við þær breytingar sem gerðar voru á 8. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með tilvitnuðum lögum nr. 95/1998, hafi lagalegar forsendur fyrir skuldfærslu ógreidds arðs við skattalegt uppgjör breyst. Engin lagaleg rök skjóta lengur viðhlítandi stoðum undir óbreytta framkvæmd í ljósi þessara breytinga sem orðið hafa á lögum.
Með vísan til ofangreindra atriða vill ríkisskattstjóri vekja athygli skattstjóra á þessum breyttu forsendum. Ógreiddur arður ársins telst samkvæmt framansögðu ekki skuld um áramót og er ekki heimilað að draga hann frá við ákvörðun eignarskattsstofns. Skattframtali rekstraraðila, RSK 1.04, vegna framtals á árinu 2000, hefur því verið breytt og skal á framtalinu leiðrétta eignarskattsstofn í þeim tilvikum sem ógreiddur arður ársins hefur verið skuldfærður í ársreikningi. Þessa er og getið í leiðbeiningum með skattframtali rekstraraðila.
Samkvæmt framansögðu er það álit ríkisskattstjóra að óheimilt sé að færa ógreiddan arð hlutafélaga til skuldar við álagningu eignarskatts nema þá fjárhæð sem enn er ógreidd við áramót eftir að aðalfundur félags hefur samþykkt greiðslu hans. Þessi niðurstaða ríkisskattstjóra sækir og stuðning til álits sem reikningsskilanefnd FLE sendi frá sér þann 5. janúar sl. sem fylgir bréfi þessu.
Ríkisskattstjóri.