Ákvarðandi bréf nr. 004/2000
Sjálfstæð skattaðild sameignarfélags.
24. janúar 2000 T-Ákv. 00-004 is 1999-12-0086
(Nöfnum og öðrum persónuauðkennum hefur verið breytt)
Vísað er til bréfs yðar, dags. 1. júní 1999, þar sem óskað er eftir afstöðu ríkisskattstjóra varðandi ákveðin tilvik sem þér reifið og snúast um það hvort sameignarfélag teljist hafa sjálfstæða skattaðild hér á landi.
Þau tilvik sem þér vitnið til er svo lýst í bréfi yðar:
„1. Móttekin var hjá firmaskrá tilkynning, dags. 25.08.1998, þar sem tilkynnt er um stofnun sameignarfélagsins X-Design sf., Agötu 100, Reykjavík. Aðilar að stofnun félagsins skv. tilkynningu og meðfylgjandi sameignarfélagssamningi eru: X-Design í Svíþjóð og Staffan Svensson. Síðast greindur aðili er með skráða heimilisfesti og ríkisfang í Svíþjóð og undirritar sameignarfélagssamninginn fyrir hönd beggja.
2. Með tilkynningu til firmaskrár Reykjavíkur er tilkynnt um að Sven Johanson, Álandseyjum, Finnlandi og Christian Johansson, , Bgötu Reykjavík, reki í sameiningu sameignarfélag með ótakmarkaðri ábyrgð undir nafninu Fyrirtæki sf.“
Í bréfi yðar vísið þér til úrskurða yfirskattanefndar nr. 734 og735/1996 og dóms héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-2403/1997: Boðeind sf gegn Íslenska ríkinu, og að af þeim kunni að mega draga þá ályktun að eignaraðild erlendra aðila hafi enga úrslita þýðingu, hvað varðar sjálfstæða skattaðild sameignarfélaga. Í bréfi yðar bendið þér á að ekki verði séð að á hina ótakmörkuðu ábyrgð félagsaðila í sameignarfélagi reyni þegar enginn sameiganda í félaginu sé með lögheimili hér. Í niðurlagi bréfs yðar kemur fram að yður virðist sem ekki sé annað unnt en að fallast á sjálfstæða skattaðild þeirra félaga sem nefnd voru til sögunnar hér að framan. Er óskað eftir afstöðu ríkisskattstjóra til þessa álitaefnis.
Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hafa sameignarfélög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila, sjálfstæða skattaðild, enda sé félag skráð í firmaskrá hér á landi, þess óskað við skráningu að félagið sé sjálfstæður skattaðili og við skráningu afhentur félagssamningur þar sem getið sé eignarhlutfalla eigenda, innborgaðs stofnfjár svo og hvernig félagsslitum skuli háttað. Í ákvæðinu eru þannig sett ákveðin skilyrði skattaðildar sameignarfélags. Séu þau skilyrði sem lagaákvæðið tilgreinir til staðar verður ekki annað séð en sameignarfélag teljist vera sjálfstæður skattaðili hér á landi. Þannig verður ekki séð að skattstjóri geti borið fyrir sig þjóðerni eða lögheimili félagsaðila í því skyni að hafna sjálfstæðri skattaðild. Slík skilyrði eiga sér ekki stoð í lögum.
Hvað varðar þau tilvik sem þér nefnið í bréfi yðar og reifuð eru undir töluliðum eitt og tvö hér að framan verður ekki séð annað en sameignarfélög þessi eigi rétt á sjálfstæðri skattaðild, enda séu skilyrðum laganna fullnægt. Ríkisskattstjóri verður því að taka undir álit yðar þess efnis að eigi verði hjá því komist að fallast á sjálfstæða skattaaðild þessara félaga.
Ríkisskattstjóri.