Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 002/2000

24.1.2000

Skilyrði sem félag þarf að uppfylla til þess að félagsgjöld þess séu frádráttarbær frá tekjum.

24. janúar 2000 T-Ákv. 00-002 is 2000-01-0677

Með bréfi dagsettu 29. júní 1999 óskið þér eftir upplýsingum um skilyrði sem þarf að uppfylla svo og hvernig best væri að snúa sér í því að fá félagsgjöld RSÍ samþykkt af ríkisskattstjóra sem frádráttarbær frá tekjum.

Skilyrðin fyrir því að félagsgjöld sem atvinnurekendur (rithöfundar)greiða geti verið frádráttarbær kostnaður eru sett fram í b-lið 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi. Skilyrðin eru þau að félagsgjöldin gangi til greiðslu kostnaðar vegna öflunar, viðhalds og tryggingar atvinnurekstrartekna þeirra, og að þau séu ekki til eignamyndunar hjá viðkomandi félagi. Frádráttarheimild er því takmörkuð við greiðslu félagsgjalda til þeirra félaga sem hafa þann tilgang og eðli að þjóna rekstrarhagsmunum viðkomandi greiðanda. Með eignamyndun í þessu sambandi er ekki átt við kaup félags á húsnæði til eigin starfsemi, og heldur ekki óverulegan rekstrarafgang viðkomandi félags ef honum er varið til rekstrarkostnaðar á næstu árum.

Til þess að félagsgjald sé frádráttarbært frá tekjum í skilningi 31.gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. reglugerð nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má félagið því ekki vera stéttarfélag, skv. lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, heldur verður félagið að vera hagsmuna- eða fagfélag atvinnurekenda.

Samkvæmt 1. gr. laga Rithöfundasambands Íslands 1997, er Rithöfundasamband Íslands „stéttarfélag rithöfunda“. Í 5. gr. laga nr. 80/1938, segir:

„Stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna.“

Í ljósi þess að Rithöfundasamband Íslands (RSÍ) skilgreinir sig sem stéttarfélag rithöfunda skv. 1. gr. laga Rithöfundasambands Íslands 1997, geta félagsgjöld til RSÍ því ekki orðið frádráttarbær frá tekjum á grundvelli b-liðar 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum