Ákvarðandi bréf nr. 001/2000
Frádráttarbærni iðgjalda sem launagreiðandi greiðir til aðila sem heimilt er að stunda starfsemi skv. II. kafla laga nr. 129/1997.
20. janúar 2000 T-Ákv. 00-001 is 1999-10-0025
Í bréfi yðar, dagsettu 22. október 1999, er óskað eftir afstöðu ríkisskattstjóra til túlkunar á 9. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Í bréfi yðar segir svo:
„Efni: Varðar túlkun á 9. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994 um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
Ofangreind málsgrein er svohljóðandi:
Iðgjöld launagreiðanda vegna starfsmanna sinna til lífeyrissjóðs, sem hlotið hefur staðfestingu fjármálaráðuneytisins, teljast til rekstrarkostnaðar. Sama gildir um almenn launatengd gjöld vegna starfsmanna samkvæmt lögum eða kjarasamningum.
Skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er eftirtöldum aðilum heimilt að stunda starfsemi skv. II. kafla laganna og taka við lífeyrisiðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd skv. lögunum:
1. Viðskiptabankar og sparisjóðir sem hafa starfsstöð hér á landi,sbr. lög um viðskiptabanka og sparisjóði.
2. Líftryggingafélög sem hafa starfsstöð hér á landi, sbr. lög um vátryggingastarfsemi.
3. Verðbréfafyrirtæki sem starfa skv. 8. gr. laga um verðbréfaviðskipti og hafa starfsstöð hér á landi.
4. Lífeyrissjóðir, enda uppfylli þeir skilyrði 4.-5. gr.
Þrátt fyrir orðalag ofangreindrar 9. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994 er ég á þeirri skoðun að ákvæðið eigi einnig við um þá aðila sem taldir eru upp í 1. tl.-4. tl. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 - því þeir eru í raun ígildi lífeyrissjóðs þegar þeir veita lífeyrisiðgjöldum viðtöku skv. heimild í lögum nr. 129/1997.“
Síðar segir:
„Vegna ofangreinds óska ég eftir staðfestingu Ríkisskattstjóra á framangreindum skilningi áðurnefnds reglugerðarákvæðis.“
Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram.
Iðgjald launagreiðenda til lífeyrissjóðs vegna starfsmanns síns er endurgjald fyrir vinnu í skilningi 7. gr. laga nr. 75/1981 og er sem slíkt skattskyldar tekjur hjá launamanninum ef ekki koma til önnur lagaákvæði sem undanskilja slíkar greiðslur skattlagningu hjá honum.
Iðgjald launagreiðanda til lífeyrissjóðs vegna starfsmanns síns er því sem launakostnaður frádráttarbær rekstrarkostnaður með hliðsjón af ákvæðum 1. töluliðar 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem kveðið er á um að draga megi frá tekjum lögaðila, og þeirra manna sem stunda sjálfstæða starfsemi, rekstrarkostnað, þ.e.a.s. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við.
Frádráttur greiddra iðgjalda frá skattskyldum tekjum launagreiðanda skv. framangreindu er takmarkaður af því almenna skilyrði að hann hafi verið talinn til launa hjá viðkomandi launþega eða að til staðar sé sérstök heimild til slíks frádráttar án þess skilyrðis.
Heimild til að draga iðgjald til lífeyrissjóðs vegna starfsmanns síns frá rekstrarkostnaði án þess að það hafi verið talið til skattskyldra tekna launþegans hefur verið leidd af heimildum laga til að draga iðgjöld til lífeyrissjóða frá skattskyldum tekjum manna. Slík skilyrt heimild til frádráttar hjá launagreiðanda var með beinum hætti í skattalögum til 1978 en hefur síðan verið leidd af almennum ákvæðum laganna og framkvæmarhefð.
Heimild manna til að draga frá tekjum sínum iðgjöld til lífeyrissjóða eru bundin ákveðnum skilyrðum sem jafnframt þykja eiga við um iðgjald launagreiðanda sé það ekki talið launþega til skattskyldra tekna. Þau skilyrði eru helst að um sé að ræða iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Samkvæmt 2. gr. þeirra laga skal iðgjaldið ákveðið í lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Iðgjaldið skal greitt til lífeyrissjóðs, sem starfar á grundvelli laganna eða að hluta til aðila sem hafa heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla laganna.
Iðgjald skal greitt reglulega í hverjum mánuði sbr. 7. gr. laga nr.129/1997. Sé iðgjald greitt til aðila sem hefur heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla laganna skal það greitt skv. sérstökum samningi um tryggingavernd svo sem ákveðið er í 9. gr. laga nr. 129/1997.
Með hliðsjón af framangreind lítur ríkisskattstjóri svo á að þegar launagreiðandi greiðir iðgjald vegna starfsmanna síns til aðila sem heimilt er að stunda starfsemi skv. II kafla laga nr. 129/1997, sé honum heimilt að draga frá skattskyldum tekjum sínum þann hluta iðgjalds, sem ákveðið hefur með þeim hætti, sem greinir í 2. gr. laga nr. 129/1997, sem sjóðfélagi ákveður að ráðstafa til annars aðila en lífeyrissjóðs til séreignar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 129/1997 eða viðbótartryggingaverndar enda séu uppfyllt þau skilyrði sem að framan greinir um reglulegar greiðslur og samning um viðbótartryggingavernd. Að öðru leyti eru iðgjöld til séreignasparnaðar og viðbótartryggingaverndar ekki frádráttarbær frá skattskyldum tekjum launagreiðanda.
Ríkisskattstjóri.