Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 023/1999

26.11.1999

Söluhagnaður af kvóta í mjólkurframleiðslu. Áunnið og keypt greiðslumark.

26. nóvember 1999 T-Ákv. 99-023 is

Í bréfi yðar dagsettu 23.11.1998, óskið þér eftir upplýsingum um skattaleg atriði varðandi sölu á greiðslumarki.

1. Spurt er um hvort einhver ákvæði séu varðandi það hvort bóndi sem hefur yfir að ráða áunnu greiðslumarki og keyptu greiðslumarki þurfi að selja keypt greiðslumark á undan áunnu greiðslumarki og beita því ákvæðum 2. mgr. 14. gr. skattalaga við útreikning á söluhagnaði, í stað þess að telja að um sölu á áunnu greiðslumarki sé að ræða og beita 3. málsgrein 14. greinar.

Svar: Ríkisskattstjóri lítur svo á að fyrst beri að selja áunnið greiðslumark og síðan keypt greiðslumark. Eins og fram kemur í lið 2.7 á bls. 8, og tölulið 6 á bls. 15 í leiðbeiningum um útfyllingu landbúnaðarskýrslu, ber að færa keyptan framleiðslurétt til eignar á kaupverði og tekur verðið ekki verðlagsbreytingum eins og fyrnanlegar eignir. Þannig er keyptur framleiðsluréttur sýnilegur sem skattstofn á meðan áunnin framleiðsluréttur verður ekki sýnilegur sem skattstofn fyrr en við framsal (sölu). Við útreikning söluhagnaðar við sölu á áunnu og keyptu greiðslumarki er heimilt að velja á milli ákvæða 2. mgr. og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eftir því hvort hagfelldara er.

2. Spurt er um hvort við sölu á keyptu greiðslumarki sé heimilt að velja á milli 2. og 3. málsgreinar við útreikning á söluhagnaði.

Svar: Með vísan til svars við spurningu 1 hér að framan, er heimilt að velja á milli 2. mgr. og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt þegar um er að ræða sölu á keyptu greiðslumarki.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á afgreiðslu fyrirspurnar yðar.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum