Beinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 001/1999

5.1.1999

Fyrirspurn vegna söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði

5. janúar 1999 T-Ákv. 99-001

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. desember 1998, þar sem óskað er eftir að embætti ríkisskattstjóra veiti álit sitt um skilyrði fyrir frestun söluhagnaðar samkvæmt 2. málsgrein 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt.

Í fyrirspurn gjaldanda, dags. 16. desember 1998, kom eftirfarandi fram:

“Málavextir eru þeir að gjaldandi selur fasteign sína að […] ,Garðabæ á árinu 1996 með nokkrum söluhagnaði. Á skattframtali 1997 óskaði hann eftir frestun á söluhagnaði um tvenn áramót frá söludegi.

Í 2. málsgrein 16. gr. tekju- og eignarskattslaga nr. 75/1981 segir að maður getur farið fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Kaupi hann annað íbúðarhúsnæði eða hefji byggingu íbúðarhúsnæði í stað þess selda innan þess tíma færist söluhagnaður, framreiknaður skv. 2. mgr. 13. gr., til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar.

Seljandi þarf því að kaupa eða hefja byggingu á íbúðarhúsnæði fyrir árslok 1998. Gjaldandi hyggst gera bindandi kaupsamning við verktakafyrirtæki. Verktakafyrirtæki þetta er að selja íbúðir á lóð sem það á. Framkvæmdir vegna íbúðarhúsnæðisins hefjast á árinu 1999 og eiga að vera lokið sama ár. Óskað er eftir túlkun RSK á því hvort fyrirhuguð ráðstöfun falli ekki undir ofangreinda lagagrein og heimilt sé að lækka stofnverð hinnar keyptu eignar um nefndan söluhagnað.”

Svar:
Fyrir seljanda, sem hefur frestað söluhagnaði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981 og ætlar að láta byggja fyrir sig nýtt íbúðarhúsnæði, er nægjanlegt að hafa gert bindandi verksamning við verktakafyrirtæki innan tveggja ára frestsins. Enda sé gert ráð fyrir eðlilegum byggingartíma. Í fyrirspurn gjaldanda kemur fram að hann hyggst gera bindandi kaupsamning við verktakafyrirtæki fyrir árslok 1998. Auk þess kemur fram að framkvæmdir á íbúðarhúsnæðinu eigi að hefjast á árinu 1999 og skuli vera lokið það sama ár. Undirritun bindandi kaupsamnings um byggingu íbúðarhúsnæðis fyrir gjaldanda uppfyllir skilyrði um kaup á öðru íbúðarhúsnæði innan tveggja ára frestsins þannig að heimilt er fyrir gjaldanda að lækka stofnverð hinnar keyptu eignar um áður reiknaðan söluhagnað.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum