Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf 2/2025

Virðisaukaskattur – skemmtiferðaskip í innanlandssiglingum

29.8.2025

Að gefnu tilefni vekur ríkisskattstjóri athygli á ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er varða virðisaukaskattsskyldu rekstraraðila skemmtiferðaskipa vegna starfsemi þeirra við innanlandssiglingar við Ísland.

i. Skemmtiferðaskip í innanlandssiglingum

Með skemmtiferðaskipi í innanlandssiglingum er átt við skemmtiferðaskip sem tekur farþega um borð hér á landi, siglir með þá á milli hafna hér á landi (venjulega í kringum landið) og skilar þeim síðan aftur í land hér á landi, án viðkomu erlendis.

Þess skal getið að ef skemmtiferðaskip í millilandasiglingum hefur með sér farþega að utan sem fara frá borði hér á landi og aðrir farþegar eru teknir um borð í farið sem aðeins sigla með því innan íslenskrar lögsögu telst það far í innanlandssiglingum í þeirri ferð.

Far telst því í millilandasiglingum ef farþegar koma með farinu erlendis frá og fara með sama skipi, í sömu ferð, aftur erlendis sem og ef farþegar koma til landsins með skemmtiferðaskipi en aðrir farþegar fara með því aftur erlendis. Athugið að í áliti þessu er ekki fjallað um rekstraraðila skemmtiferðaskipa í slíkum ferðum.

ii. Skattskyldusvið virðisaukaskatts, skatthlutfall, skattskyldir aðilar og tilkynningarskylda

Greiða skal í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar er ákveðið í lögum nr. 50/1988, sbr. 1. gr. þeirra laga. Skattskyldusvið virðisaukaskatts er markað með víðtækum hætti í 2. gr. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. tekur skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra. Þá segir í 2. mgr. að skattskyldan nái til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sbr. þó 3. mgr. þar sem talin er upp með tæmandi hætti sú vinna og þjónusta sem undanþegin er virðisaukaskatti.

Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988.

Skattskylda virðisaukaskatts einskorðast ekki við aðila sem heimilisfastir eru hér á landi eða hafa hér fasta starfsstöð. Í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 segir þannig að skattskylda hvíli á umboðsmönnum og öðrum sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem reka hér á landi skattskyld viðskipti.

Hver sá sem skattskyldur er samkvæmt 3. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 50/1988 skal ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá Skattinum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, sbr. I. kafli reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

Hafi rekstraraðili ekki fasta starfsstöð hérlendis ber honum að fela umboðsmanni með heimilisfesti hér á landi að vera í fyrirsvari fyrir sig vegna virðisaukaskatts, þ.m.t. að tilkynna um starfsemina til Skattsins, innheimta virðisaukaskatt af skattskyldri þjónustu og skila í ríkissjóð. Umboðsaðili getur hvort heldur verið einstaklingur eða lögaðili og er skráning hans sem slíks, á virðisaukaskattsskrá, óháð og aðskilin skráningu hans vegna eigin starfsemi sem hann kann að stunda. Umboðsmaður og hinn erlendi aðili bera óskipta ábyrgð (solidaríska) á greiðslu virðisaukaskatts hins erlendra aðila.

Til skattskyldrar veltu skráðs aðila telst samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu, svo og seld vinna og þjónusta. Skattskyld velta á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr. laganna, telst heildarskattverð allra vara sem afhentar hafa verið, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu sem innt hefur verið af hendi á tímabilinu, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Almennt skatthlutfall virðisaukaskatts er 24%, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988. Þrátt fyrir framangreint eru í 2. mgr. 14. gr. laganna taldar þær vörur og sú þjónusta sem fellur undir lægra skatthlutfall virðisaukaskatts, 11%. Má meðal annars nefna fólksflutninga, gistiþjónustu og sölu á matvörum og öðrum vörum til manneldis, sbr. 1., 2. og 8. tölul. 2. mgr.

Við skráningu öðlast skattskyldir aðilar rétt til að færa til innskatts virðisaukaskatt þann sem fellur til við kaup þeirra á skattskyldum vörum og þjónustu til nota í rekstrinum, svo og virðisaukaskatt af innflutningi þeirra, sbr. 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988.

iii. Starfsemi rekstraraðila skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum

Starfsemi rekstraraðila skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum er skattskyld samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1988. Starfsemi þeirra er fólgin í meðal annars fólksflutningum, gistiþjónustu og sölu á veitingum. Auk framangreinds er algengt í slíkum förum að boðið sé upp á ýmsa aðra skattskylda þjónustu um borð en í dæmaskyni má nefna þjónustu heilsulinda, snyrtiþjónustu og ferðatengda afþreyingarþjónustu af ýmsu tagi sem skattskyld er samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Þá er sala á hvers kyns vörum um borð í slíkum förum innan íslenskrar lögsögu skattskyld samkvæmt 1. mgr. sömu greinar.

Skattskyldan tekur einnig til þeirra tilvika þegar rekstraraðilar skemmtiferðaskipa endurselja ferðatengda þjónustu, svo sem dagsferðir eða aðra skattskylda þjónustu til farþega sinna þegar skip taka höfn.

iv. Niðurlag

Rekstraraðilum skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum ber samkvæmt öllu framansögðu að tilkynna starfsemi sína til skráningar á virðisaukaskattsskrá, enda uppfylli þeir skilyrði skráningar, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Þeim ber þá að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu sinni á vöru og þjónustu til afhendingar hér á landi. Á móti kemur að við skráningu öðlast rekstraraðili rétt til færslu innskatts af aðföngum til nota við skattskylda starfsemi sína, sbr. 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988.

Sé rekstraraðili skemmtiferðaskips í innanlandssiglingum erlendur aðili, sem ekki hefur hér fasta starfsstöð, ber honum að tilkynna starfsemi sína til skráningar með atbeina umboðsmanns. Skráning á virðisaukaskattsskrá er þá gerð í nafni umboðsmannsins fyrir hönd hins erlenda aðila og bera þeir sameiginlega ábyrgð á skilum og greiðslu skattsins.

Skráningu á virðisaukaskattsskrá er aflað með skilum á rafrænni umsókn á þjónustuvef Skattsins. Þegar um skráningu erlends aðila fyrir atbeina umboðsmanns er að ræða þarf þó að notast við eyðublaðið RSK 5.02. Nægilegt er að senda afrit af útfylltu eyðublaði á netfangið skatturinn@skatturinn.is en láta skal samning um veitingu þeirrar þjónustu fylgja með eyðublaðinu. Sé um afturvirka skráningu á virðisaukaskattsskrá að ræða ber einnig að láta fylgja með virðisaukaskattsskýrslur, á eyðublaði RSK 10.01, vegna allra gjaldfallinna uppgjörstímabila virðisaukaskatts frá upphafsdegi skráningar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum