Ákvarðandi bréf 3/2025
Virðisaukaskattur – Sala listamanna á listaverkum, nytjalist o.fl.
Að gefnu tilefni þykir ríkisskattstjóra rétt að árétta þær reglur sem gilda um meðferð virðisaukaskatts vegna sölu listaverka, endurgerða þeirra, nytjalistar o.fl.
Listaverk, svo sem málverk, teikningar, þrykk og höggmyndir, eru skattskyldar vörur, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en þar kemur fram að skattskyldusvið virðisaukaskatts taki til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra.
Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu.
Í 4. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um ákveðnar undanþágur frá skattskyldu, sbr. 3. gr. laganna. Í 2. tölul. kemur fram að undanþegnir skattskyldu séu listamenn, að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000, svo og uppboðshaldarar að því er varðar sölu þessara verka á listmunauppboðum. Undanþágan er því annars vegar háð því skilyrði að um sé að ræða sölu listamannsins sjálfs á verkum sínum, eða eftir atvikum uppboðshaldara, og hins vegar að um frumverk listamanns sé að ræða sem fellur undir framangreind tollskrárnúmer. Í skýringum við framangreint ákvæði í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um virðisaukaskatt kemur fram að undir hugtakið listaverk í þessu sambandi falli ekki endurgerðir listaverka í fjöldaframleiðslu eða handiðnaðarvörur með einkennum verslunarvöru.
Ákvæði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988 felur í sér undantekningu frá meginreglu laganna, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr., og ber því samkvæmt lögskýringarvenju að skýra það þröngri lögskýringu og ekki rýmri en leiðir af orðalagi þess.
Undir tollskrárnúmer í vörulið 9701 falla málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, klippimyndir, mosaík og áþekk veggskreytispjöld. Undir tollskrárnúmer í vörulið 9702 falla frumverk af stungum, þrykki og steinprenti og undir vörulið 9703 falla frumverk af höggmyndum og myndastyttum.
Í athugasemdum við 97. kafla tollskrárinnar segir m.a. að vöruliðir 9701 og 9703 taki ekki til fjöldaframleiddra endurgerða eða venjulegra handiðnaðarvara sem hafa einkenni verslunarvöru, jafnvel þótt vörur þessar séu hannaðar eða búnar til af listamönnum. Þá segir að til frumverka af stungum, þrykki og steinprenti, sbr. vörulið 9702, teljist myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu eða í lit með einni eða fleiri plötum sem listamaðurinn hefur gert að öllu leyti í höndunum, án tillits til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum.
Eins og fram hefur komið falla endurgerðir listaverka í fjöldaframleiðslu o.fl. ekki undir ákvæði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988. Í dæmaskyni má nefna ljósmyndir, prentuð listaverk, fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum og handgerða nytja- eða skrautmuni, sem hafa einkenni verslunarvöru, svo sem skálar, kertastjakar, vasar og annars konar leirlistamunir; hvers konar tréskurð, handverk og textílvörur, t.d. púða, fatnað og dúka. Breytir þá engu hvort varan sé gerð að öllu leyti í höndum eða að hver hlutur sé einstakur. Einnig er skattskyld sala listamanna á afritum listaverka sinna, en í dæmaskyni má nefna ýmis konar veggskreytispjöld. Þess skal getið að skattskylda aðila er óháð því að aðeins sé framleiddur takmarkaður fjöldi veggskreytispjalda eða að hvert þeirra sé einstakt, undirritað af listamanni eða númerað, enda sé ekki um verk að ræða sem alfarið er gert í höndum sem fellur undir framangreind tollskrárnúmer.
Hver sá, sem skattskyldur er samkvæmt 3. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 50/1988 skal ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Hafi listamaður með höndum sölu listaverka sem ekki falla undir framangreind tollskrárnúmer, líkt og greinir hér að framan, ber honum skylda til að skrá sig á virðisaukaskattsskrá samkvæmt almennum reglum laganna og innheimta virðisaukaskatt af sölu þeirra muna sem hér um ræðir og standa skil á þeim skatti í ríkissjóð. Þess skal þó getið að við skráningu á virðisaukaskattsskrá öðlast skattaðili rétt til færslu innskatts af aðföngum sem kemur til frádráttar frá útskatti við uppgjör virðisaukaskatts, sbr. 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988.
Þess skal að lokum getið að í 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um að undanþegnir skattskyldu séu þeir sem selja vörur eða skattskylda þjónustu fyrir 2.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili. Miðað er við samfleytt 12 mánaða tímabil en ekki almanaksár. Framangreint ákvæði hefur verið skýrt svo að það undanþiggi aðila skráningarskyldu á virðisaukaskattsskrá samkvæmt 5. gr. laganna, en ekki svo að þeim verði meinað um skráningu á grundvelli þess að velta nái ekki framangreindum fjárhæðarmörkum. Undanþágan er því valkvæð, ætluð aðilum sem hafa tilfallandi, lágar tekjur og sjá sér ekki hag í skráningu á virðisaukaskattsskrá. Kjósi aðili að skrá sig á virðisaukaskattsskrá þrátt fyrir að selja vörur og skattskylda þjónustu fyrir minna en 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili ber honum að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð af öllum skattskyldum viðskiptum sínum frá og með upphafsdegi skráningar.
Álit þetta setur ríkisskattstjóri fram á grundvelli þess leiðbeiningarhlutverks sem honum er falið í 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988.
Ríkisskattstjóri
