Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1072/2007

15.6.2007

Virðisaukaskattur - sjónvarpsþjónusta og tónlistarsala í gegnum farsíma

15. júní 2007 G-Ákv. 1072-07

Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar sem móttekin var hjá ríkisskattstjóra þann 8. maí 2007. Fram kemur að fjarskiptafyrirtækið A mun hefja starfsemi á Íslandi í lok þessa árs í kjölfar leyfisveitingar fyrir þriðju kynslóð farsímaþjónustu (..). Mun sú tækni opna m.a. á þá möguleika að hafa áskrift að sjónvarpsþjónustum og tónlistarsölu í gegnum farsímana. Með fyrirspurninni er óskað álits á því í hvaða virðisaukaskattsþrep áskrift að sjónvarpi í gegnum farsíma og sala tónlistar eftir sömu leiðum fellur.

Í tilefni af framangreindri fyrirspurn vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er almennt skatthlutfall virðisaukaskatts 24,5%. Í 2. mgr. sömu greinar eru með tæmandi hætti taldar upp undantekningar frá meginreglunni, en þar kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli virðisaukaskattur á tilteknar vörur og þjónustu sem þar er upp talin vera 7%. Við túlkun á því hvað fellur undir þau frávik sem felast í 2. mgr. 14. gr. hefur verið litið til þess að ákvæðið er undantekning frá meginreglunni um 24,5% virðisaukaskatt. Í skattframkvæmd hefur því verið talið að túlka beri ákvæðið þröngri lögskýringu og ekki rýmri en orðalag þess gefur beinlínis til kynna.

Með c. lið 3. gr. laga nr. 175/2006, um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, var gerð sú breyting á 2. mgr. 14. gr. síðarnefndu laganna að geisladiskar, hljómplötur, segulbönd og aðrir sambærilegir miðlar með tónlist en ekki með mynd skuli bera 7% virðisaukaskatt, sbr. 10. tölul. 2. mgr. 14. gr. Það er mat ríkisskattstjóra að ákvæðið taki eingöngu til sölu á vörum en ekki þjónustu. Til samanburðar hefur verið litið svo á að ákvæði 5. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 taki einungis til sölu á tímaritum og blöðum samkvæmt hefðbundnum skilningi á orðunum; tímaritum og blöðum. Helgast sú túlkun einnig af því að samkvæmt orðalagi ákvæðisins tekur það einungis til sölu á tilteknum vörum en ekki sölu á þjónustu. Um þetta má sjá nánar í bréfi ríkisskattstjóra, dagsettu 13. desember 2004 (tilv. G-ákv. 1054/04). Það er álit ríkisskattstjóra að ekki verður gerður greinarmunur á ákvæðum 10. tölul. og 5. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna að þessu leyti. Sala á tónlist í gegnum síma fellur því undir hið almenna skatthlutfall virðisaukaskatts, þ.e. 24,5%. Þessi túlkun á sér einnig stoð í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 175/2006.

Í 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, kemur fram að virðisaukaskattur af afnotagjaldi útvarpsstöðva skuli vera 7%. Samkvæmt a-lið 1. gr. útvarpslaga nr. 53/2000, er með útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi, átt við hvers konar útsendingu dagskrárefnis innan íslenskrar lögsögu sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum, hvort heldur er í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust, hvort heldur sem útsendingin er læst eða ólæst. Í b-lið sömu lagagreinar segir að útvarpsstöð sé sá aðili, einstaklingur eða lögaðili, sem leyfi hefur til útvarps, annast og ber ábyrgð á samsetningu útvarpsdagskrár í skilningi a- og c-liða, sendir hana út eða lætur annan aðila annast útsendingu hennar. Í 15. gr. útvarpslaga eru tiltekin sem tekjustofnar útvarpsstöðva annars vegar afnotagjöld og hins vegar áskriftargjöld en nánari skilgreiningu þeirra er ekki að finna í lögunum. Þrátt fyrir aðgreiningu áskriftargjalda og afnotagjalda í útvarpslögum, hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að afnotagjald útvarpsstöðva í skilningi 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, taki jafnt til áskriftargjalda sem afnotagjalda í framangreindri merkingu, sbr. framangreinda skilgreiningu á hugtakinu útvarp í a-lið 1. gr. útvarpslaga. (Sjá m.a. bréf ríkisskattstjóra dags. 24. apríl 2006 (tilv. G-ákv. 1065/2006)). Ljóst er að afnotagjald og áskriftargjald í framangreindri merkingu er það gjald sem greitt er til þess aðila sem sér um útsendingu dagskrárefnis. Skatthlutfallið ræðst af eðli þjónustunnar óháð kvöðum eða skyldum sem á seljanda hennar kunna að hvíla. Þannig ber afnotagjald útvarps, í framangreindri merkingu, 7% virðisaukaskatt. Á það jafnt við þótt umboðsmaður hafi milligöngu um að koma á áskriftarsamningi milli útvarpsstöðvar og notanda. Þóknun umboðsmannsins fyrir hans þjónustu við milligönguna ber hins vegar 24,5% virðisaukaskatt.

Af fyrirspurn yðar verður ekki annað ráðið en að um sé að ræða þóknun fyrir miðlun tónlistar og sjónvarpsefnis í farsíma neytenda. Með hliðsjón af eðli þjónustunnar og þeirra sjónarmiða um að túlka beri þröngt þær undanþágur sem tilgreindar eru í 2. mgr. 14. gr., er það mat ríkisskattstjóra að 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga taki ekki til þjónustu yðar. Ber því að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af þjónustu yðar.

Í tilefni af orðalagi í fyrirspurn yðar vill ríkisskattstjóra taka það fram að svar þetta felur ekki í sér bindandi álit af þeim toga sem kveðið er á um í lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum