Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1071/2007

15.6.2007

Virðisaukaskattur - sjónmælingar sjóntækjafræðinga

15. júní 2007
G-Ákv. 1071-07

Í bréfi til fjármálaráðuneytisins dagsettu 16. mars 2007 farið þér þess á leit, fyrir hönd A, að felld verði niður álagning virðisaukaskatts á sjónlagsmælingar sjóntækjafræðinga. Jafnframt er þeim tilmælum beint til ráðuneytisins að virðisaukaskattur af sjóntækjum (gleraugum og linsum) verði felldur niður. Með bréfi dagsettu 15. maí 2007 var erindi yðar framsent til ríkisskattstjóra með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Að því er þjónustu varðar tekur skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin í 3. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna, er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti. Við afmörkun á því hvað felst í önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta í framangreindu sambandi er í skattframkvæmd miðað við að starfsemi þurfi að uppfylla tvö skilyrði. Annars vegar að um sé að ræða þjónustu sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál og hins vegar að þjónustan felist í meðferð á líkama sjúklings til lækningar, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar. Í vafatilvikum hefur ríkisskattstjóri leitað álits heilbrigðisyfirvalda á því hvort viðkomandi starfsemi falli undir viðurkennda heilbrigðisþjónustu að mati heilbrigðisyfirvalda.

Um starfsemi sjóntækjafræðinga gilda lög nr. 17/1984, um sjóntækjafræðinga. Kemur fram í lögunum að þeir einir hafa rétt til þess að bera starfsheitið sjóntækjafræðingur sem hafa til þess leyfi heilbrigðismálaráðherra. Leita skuli umsagnar prófessorsins í augnlækningum við Háskóla Íslands, félags sjóntækjafræðinga og landlæknis áður en leyfið sé veitt. Jafnframt kemur fram að þar sem ákvæðum laganna sleppir gildi reglur læknalaga, nr. 80/1969, sbr. nú lög nr. 53/1988. Eins og bent er á í erindi yðar var, með lögum nr. 11/2004, sú breyting gerð á lögum um sjóntækjafræðinga að þeim var veitt heimild til að mæla sjón. Jafnframt er mælt fyrir um skyldu ráðherra til að setja ákvæði um menntunarskilyrði sem sjóntækjafræðingar skuli uppfylla til að mega mæla sjón, sbr. reglugerð nr. 1043/2004, um menntun sjóntækjafræðinga og takmarkanir á heimild þeirra til sjónmælinga.

Að framangreindu virtu er það mat ríkisskattstjóra að sú þjónusta sjóntækjafræðinga sem innt er af hendi á grundvelli starfsleyfis frá heilbrigðisráðherra og í samræmi við ákvæði 1. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1043/2004 telst vera heilbrigðisþjónusta sem undanþegin er virðisaukaskatti samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af því leiðir að ekki ber að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti vegna þeirrar þjónustu sjóntækjafræðinga sem felst í sjónmælingum.

Tekið skal fram að ríkisskattstjóri tekur ekki afstöðu til beiðni um niðurfellingu virðisaukaskatts af sjóntækjum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum