Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1070/2007

9.2.2007

Breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.

9. febrúar 2007
G-Ákv. 1070-07

Í bréfi þessu eru raktar þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum á sviði virðisaukaskatts, vörugjalds, úrvinnslugjalds og skilagjalds frá 30. janúar 2006, þ.e. frá síðasta yfirlitsbréfi ríkisskattstjóra, G-ákv 1064/06. Engar breytingar voru gerðar á eyðublöðum.

Virðisaukaskattur - Lagabreytingar.

Nr. 45/2006 Breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gerðar eru þrenns konar breytingar á lögunum. Í fyrsta lagi er fjárhæð lágmarksveltu hækkuð úr 220.000 kr. í 500.000 kr. Í öðru lagi er leiðréttingartímabil innskatts vegna fasteigna lengt úr tíu árum í tuttugu. Þess ber þó að geta að ákvæðið varð ekki virkt fyrr en með breytingu á reglugerð nr. 192/1993, sbr. nánar hér að neðan. Í þriðja lagi eru smávægilegar breytingar gerðar á nokkrum ákvæðum laganna er varða byggingastarfsemi. Felld er úr gildi skylda til þess að útskatta efnisnot í byggingarstarfsemi á eigin kostnað. Lögin öðluðust gildi 1. júlí 2006.
Nr. 175/2006 Breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Lögin taka gildi 1. mars 2007 að undanskildum ákvæðum 2. gr. og 6. gr. sem tóku gildi 30. desember 2006. Breytingarnar felast annars vegar í því að lögfest hefur verið heimild sparisjóða og dótturfélaga þeirra til samskráningar á virðisaukaskattsskrá og hins vegar að heimild til endurgreiðslu 2/3 hluta virðisaukaskatts til kaupa á nýjum hópbifreiðum hefur verið framlengd til 31. desember 2008.

Reglugerðabreytingar.

Nr. 1149/2006 Breytingar á reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Með breytingunum eru veltumörk ársskila hækkuð úr kr. 800.000 í kr. 1.400.000. Reglugerðin tók ekki gildi fyrr en 1. janúar 2007 en í gildistökuákvæði er kveðið á um að þeir aðilar sem höfðu veltu af virðisaukaskattsskyldri starfsemi á árinu 2006 á bilinu 800.000 kr. til 1.399.999 kr. eigi val um það hvort þeir nota almanaksárið 2007 sem uppgjörstímabil eða almenn uppgjörstímabil. Jafnframt eru breytingar gerðar á reglum um nýskráningu o.fl.
Nr. 1044/2006 Breytingar á reglugerð nr. 192/1993, um innskatt. Breytingar varða lengingu á leiðréttingartímabili innskatts vegna fasteigna.
Nr. 215/2006 Breytingar á reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Breytingar snúa að fyrirfram skráningu.

Grunnfjárhæðir.

Sjá ákvarðandi bréf nr. 1069/07 vegna ársins 2006.

2. Vörugjald - Reglugerðabreytingar

Nr. 524/2006 Breytingar á reglugerð nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur. Breytingar á andlagi skilagjalds og fjárhæðum umsýslugjalds.
Nr. 49/2006 Breytingar á reglugerð nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur. Með reglugerð eru breytingar gerðar á andlagi skilagjalds, gjaldskyldu og álagningu skilagjalds.

2. Úrvinnslugjald - Lagabreytingar

Nr. 106/2006 Breytingar á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Í lögunum er kveðið á um að það verði hlutverk Úrvinnslusjóðs en ekki sveitarfélaga að ná tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem fara skal í endurnýtingu og endurvinnslu. Einnig eru gerðar breytingar er varða margnota flutnings- og safnumbúðir, heimild til yfirfærslu ábyrgðar á greiðslu úrvinnslugjaldi frá framleiðanda og innflytjanda til kaupanda, ákvæði um sérstakt úrvinnslugjaldsskírteini auk annarra breytinga er varða m.a. tengsl við ný tollalög.

Virðingarfyllst
Ríkisskattstjóri.

Til baka Prenta