Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1066/2006

24.5.2006

Upplýsingamiðlun á veraldarvefnum um erlendar fasteignir.

24. maí 2006 G-Ákv. 1066-06

Í bréfi dagsettu 2. febrúar2006 beinið þér til ríkisskattstjóra fyrirspurn um skyldu félags til innheimtu virðisaukaskatts við sölu tiltekinnar þjónustu sem það hyggst veita á veraldarvefnum. Þjónusta félagsins muni felast í því að í gefa eigendum fasteigna, hvar sem er í heiminum, kost á að skrá í sérstakt forrit á vefsíðu félagsins upplýsingar um fasteignir til leigu.  Upplýsingarnar, um staðsetningu og stærð eignar, fjárhæð leigugjalds og hver veitt geti frekari upplýsingar, birtast sem sérstök auglýsing á vefsíðu félagsins. Tiltekið er að viðskipti varðandi útleigu eignarinnar fari ekki fram um vefsíðuna. Fram kemur að þjónustusalinn verði íslenskt félag með starfsemi og skrifstofu hér á landi. Enginn starfsmaður þess verði staðsettur erlendis, heldur fari starfsemi félagsins að öllu leyti fram hér á landi.

Í fyrirspurnarbréfi gerið þér grein fyrir því áliti yðar að umrædd þjónusta sem veitt er erlendum kaupanda hennar, þ.e. kaupanda sem hvorki er búsettur né hefur starfsstöð hér á landi, falli undir d.-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og því beri ekki að innheimta virðisaukaskatt af þóknun fyrir þjónustuna. Tiltakið þér að úr ákvæðum laga um virðisaukaskatt verði lesin sú meginregla að þjónusta varðandi fasteignir teljist nýtt þar sem fasteign er staðsett. Bendið þér í því sambandi á ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 12. gr. og c.-liðs 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Þá kemur fram að þér álítið að umrædd þjónusta teljist upplýsingamiðlun af þeim toga sem nefnt ákvæði d.-liðs 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. tekur til.

Til svars fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri fram eftirfarandi:

Í d.-lið 10. tölul. 1. mgr.12. gr. laga nr. 50/1988 er m.a. kveðið á um að ekki teljist til virðisaukaskattsskyldrar veltu upplýsingamiðlun sem seld er aðila sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi, enda sé þjónustan að öllu leyti nýtt erlendis.

Ríkisskattstjóri tekur undir það álit yðar að umrædd þjónusta, eins og henni er lýst í fyrirspurnarbréfi, teljist til upplýsingamiðlunar af þeim toga sem fellur undir framangreint ákvæði. Jafnframt er ríkisskattstjóri sammála því áliti yðar að almennt teljist þjónusta, sem beinlínis varðar fasteignir,nýtt þar sem fasteign er staðsett.

Á framangreindum grundvelli telur ríkisskattstjóri að umrædd þjónustu, er varðar fasteignir erlendis, teljist ekki til virðisaukaskattsskyldrar veltu, þegar hún er veitt kaupanda sem hvorki er búsettur hér á landi né hefur hér starfsstöð.

Virðingarfyllst,
Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum