Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1056/2005

3.2.2005

Breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum

3. febrúar 2005
G-Ákv. 05-1056

Í bréfi þessu eru raktar þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum á sviði virðisaukaskatts, vörugjalds, úrvinnslugjalds og skilagjalds frá 7. janúar 2004, þ.e. frá síðasta yfirlitsbréfi ríkisskattstjóra, G-ákv 1046/04. Einnig eru kynntar í bréfi þessu breytingar á nokkrum eyðublöðum.

1. Virðisaukaskattur
Reglugerðarbreytingar

Nr. 69/2004 Breyting á reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Breytingin felst í því að ekki er lengur hægt að greiða virðisaukaskatt í pósthúsi.
Nr. 85/2004 Breyting á reglugerð nr. 63/1994, um frjálsa skráningu vegna fólksflutninga á milli landa. Gerðar voru breytingar á gildissviði reglugerðar nr. 63/1994, þ.e. hverjir geti sótt um frjálsa skráningu á grundvelli reglugerðarinnar.
Nr. 243/2004 Breyting á reglugerð nr. 470/1991, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja. Með reglugerðinni voru gerðar smávægilegar breytingar varðandi fjárhæðamörk. Einnig er gerð sú breyting að það er nú gert að skilyrði að sýna þurfi fram á að þeir reikningar sem að endurgreiðslubeiðni byggist á skuli vera greiddir. Það skal tekið fram að nefndar breytingar gilda afturvirkt frá og með 1. janúar 2004 enda þótt reglugerðin hafi ekki verið birt fyrr en í mars á sama ári.

Grunnfjárhæðir
Sjá ákvarðandi bréf nr. 1055/05 vegna ársins 2005.

2. Vörugjald
Eyðublöð
Tvö eyðublöð á sviði vörugjalds fengu nýtt númer. Eyðublaðið RSK 11.01 var áður RSK 10.41 og eyðublaðið RSK 11.02 var áður RSK 10.42.

3. Úrvinnslugjald
Lagabreytingar

Nr. 128/2004 Með lögunum voru m.a. gerðar þær breytingar að innlend framleiðsla umbúða úr pappa og plasti verður gjaldskyld svo og framleiðsla veiðarfæra úr gerviefnum. Þessi gjaldskylda kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. september 2005. Heimild er til þess í lögunum að útgerðarmenn taki sjálfir að sér úrvinnslu veiðarfæraúrgangs samkvæmt samningi við Úrvinnslusjóð. Ef þeir samningar takast fellur gjaldskylda vegna veiðarfæra niður.  

 4. Skilagjald
Lagabreytingar

Nr. 82/2004 Með breytingalögunum voru gerðar smávægilegar fjárhæðabreytingar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum