Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1027/2003

25.2.2003

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til eigenda íbúðarhúsnæðis - niðurrif á mannvirkjum

25. febrúar 2003
G-Ákv. 03-1027

Bréf þetta er að gefnu tilefni ritað skattstjórum á grundvelli 1. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Embætti ríkisskattstjóra hefur borist fyrirspurn um það hvort virðisaukaskattur af vinnu við niðurrif á mannvirkjum, að hluta eða öllu leyti, sé endurgreiðsluhæfur skv. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 449/1990, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, fá eigendur íbúðarhúsnæðis endurgreiddan 60% virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna við nýbyggingu, endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis. Endurgreiðslurétturinn tekur til vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar. Um önnur skilyrði endurgreiðslu er vísað til ákvæða reglugerðarinnar.

Að mati ríkisskattstjóra getur endurgreiðsla, skv. reglugerð nr. 449/1990, tekið til virðisaukaskatts af vinnu við niðurrif á mannvirkjum ef niðurrifið stendur í beinum, órjúfanlegum tengslum við nýbyggingu, endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði. Vinnan við niðurrif verður að vera óhjákvæmilegur undanfari þeirrar vinnu sem er grundvöllur endurgreiðslu. Skattstjóra er heimilt að synja eiganda íbúðarhúsnæðis um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við niðurrif ef sá síðarnefndi leggur ekki fram gögn til staðfestingar framangreindu, sbr. 14. gr. reglugerðarinnar.

Þess skal getið að rétturinn til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við niðurrif á mannvirkjum er í öllu bundinn við ákvæði reglugerðarinnar. Sem dæmi þá er ekki endurgreiddur virðisaukaskattur vegna vinnu við niðurrif á íbúðarhúsnæði þegar um er að ræða vinnu stjórnenda vinnuvéla, sbr. 2. tölul. 4. gr.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum