Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1021/2002

25.10.2002

Kaup á þjónustu erlendis frá - virðisaukaskattur

25. október 2002
G-Ákv. 02-1021

Ríkisskattstjóri sér ástæðu til að vekja athygli á því að frá og með 1. júlí 2002 annast skattyfirvöld, í stað tollayfirvalda áður, framkvæmd skattákvörðunar og eftirlit með skýrslugjöf vegna kaupa á þjónustu frá útlöndum. Breyting þessi var gerð með lögum nr. 64/2002, um breyting á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Ákvæði um skattskyldu vegna kaupa á þjónustu erlendis frá er að finna í 35. gr. laga nr. 50/1988.  Eftir breytinguna, með lögum nr. 64/2002, er tekið fram í 3. mgr. 35. gr. laga nr. 50/1988 að um skattverð, uppgjör, álagningu, áætlun, endurákvörðun, álag, dráttarvexti og kærur skuli fara eins og í viðskiptum innanlands. Um aðrar breytingar var ekki að ræða á ákvæði 35. gr. þ.e. óbreytt er hverjir eru skattskyldir og hvaða þjónustukaup frá útlöndum eru skattskyld.

35. gr. laga nr. 50/1988 er svohljóðandi eftir breytingu með lögum nr. 64/2002:

Aðili, sem kaupir þjónustu sem talin er upp í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. erlendis frá til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi, skal greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar. Sama gildir um þjónustu erlends aðila sem veitt er hér á landi, enda hafi hinn erlendi aðili hvorki starfsstöð né umboðsmann hér á landi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðili sem skráður er skv. 5. gr. undanþeginn skyldu til greiðslu virðisaukaskatts skv. 1. mgr. ef hann gæti að fullu talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. Þetta gildir þó ekki þegar þjónusta er veitt eða hennar notið í tengslum við innflutning á vöru.
Kaupandi, sem skyldugur er til að greiða virðisaukaskatt skv. 1. mgr., skal ótilkvaddur gera skattstjóra grein fyrir kaupum á þjónustu í sérstakri skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Greiðslu ásamt skýrslu skal skila til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en á gjalddaga. Um skattverð, uppgjör, álagningu, áætlun, endurákvörðun, álag, dráttarvexti og kærur skal, eftir því sem við getur átt, fara með eins og í viðskiptum innan lands. Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

Samkvæmt nefndri 35. gr. skal hver sá sem kaupir frá útlöndum þjónustu, af þeim toga sem talinn er upp í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. sömu laga, til nota að hluta eða að öllu leyti hér á landi, greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar. Sama gildir um kaup á þjónustu af erlendum aðila enda þótt hún sé innt af hendi hér á landi ef hinn erlendi aðili er ekki skráður á grunnskrá virðisaukaskatts vegna þess að hann hefur hvorki fasta starfsstöð hér á landi né sérstakan umboðsmann til að annast fyrir sig virðisaukaskattsskil. Undanþegnir greiðsluskyldunni eru þeir sem skráðir eru á grunnskrá virðisaukaskatts og gætu talið til innskatts virðisaukaskatt vegna kaupanna væri þjónustan keypt hér á landi. Ef þjónusta er veitt í tengslum við innflutning á vöru skal innflytjandi við tollmeðferð greiða í einu lagi virðisaukaskatt vegna vörunnar og þjónustunnar og gera grein fyrir kaupunum á aðflutningsskýrslu er tollayfirvöld láta í té, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá.

Greiðsluskyldan tekur til þeirrar þjónustu sem talin er upp í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Um er að ræða eftirtalda þjónustu:

  1. Virðisaukaskattsskylda þjónustu, sem veitt er í tengslum við menningarstarfsemi, listastarfsemi, íþróttastarfsemi, kennslustarfsemi og aðra hliðstæða starfsemi sem fer fram hér á landi.
  2. Framsal á höfundarrétti, rétti til einkaleyfis, vörumerkis og hönnunar, svo og framsals annarra sambærilegra réttinda.
  3. Auglýsingaþjónustu.
  4. Ráðgjafarþjónustu, verkfræðiþjónustu, lögfræðiþjónustu, þjónustu endurskoðenda og aðra sambærilegra þjónustu, þ.m.t. vinnu við eða þjónustu sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi.
  5. Tölvuþjónustu, aðra gagnavinnslu og upplýsingamiðlun.
  6. Kvaðir og skyldur varðandi atvinnu- og framleiðslustarfsemi eða hagnýtingu réttinda sem tiltekin eru í upptalningu þessari.
  7. Atvinnumiðlun.
  8. Leigu lausafjármuna annarra en flutningatækja.
  9. Þjónustu milligöngumanna sem fram koma í nafni annars og fyrir reikning annars að því er varðar sölu eða afhendingu þjónustu sem upptalning þessi nær til.
  10. Fjarskiptaþjónustu.

Um skattverð, þ.e. það verð sem virðisaukaskattur er reiknaður af vegna kaupa á þjónustu erlendis frá, gilda ákvæði 7. gr. laga nr. 50/1988. Gjalddagi vegna kaupanna er fimmti dagur annars mánaðar  frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Þannig er t.d. gjalddagi vegna kaupa í janúar og febrúar, 5. apríl. sama ár. Sá er greiðsluskylda hvílir á skal ótilkvaddur gera grein fyrir kaupunum á skýrslu sem ríkisskattstjóri hefur látið gera (RSK 10.24). Skýrslurnar er hægt að fá á skattstofum um land allt og hjá ríkisskattstjóra. Einnig er hægt að nálgast skýrslurnar á heimasíðu ríkisskattstjóra (www.rsk.is). Greiðslu ásamt skýrslu ber að skila til innheimtumanns ríkissjóðs. Ef ekki er greitt á tilskyldum tíma skal auk hins vangoldna skatts greiða álag sem nemur 1% af vangoldnum skatti fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó að hámarki 10%.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum