Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1018/2002

13.9.2002

Sala á þýðingarþjónustu innanlands og til útlanda - innskattsréttur

13. september 2002
G-Ákv. 02-1018

Vísað er til bréfs yðar, dags. 7. nóvember 2000, sem framsent var frá skattstjóranum í Reykjavík 9. nóvember 2000, þar sem þér óskið eftir upplýsingum um skattskyldu og innskattsrétt vegna sölu á þýðingarþjónustu innanlands og til útlanda.

Í fyrsta lagi óskið þér eftir upplýsingum um það hvort þýðingarþjónusta, sem seld er innanlands, sé virðisaukaskattsskyld og hver sé réttur seljanda til innskattsfrádráttar í því sambandi. Í öðru lagi óskið þér eftir upplýsingum um það hvort þýðingarþjónusta, sem seld er til útlanda, sé virðisaukaskattsskyld og hver sé réttur seljanda til innskattsfrádráttar í því sambandi.

Í fyrirspurn yðar er ekki að finna neina lýsingu á þeirri þýðingarþjónustu sem þér seljið og tekur svar ríkisskattstjóra mið af því.

I.
Sala á þýðingarþjónustu innanlands.

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Skattskyldusviðið tekur til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er í lögunum sérstaklega lýst undanþegin. Slíkar undantekningar ber, sem frávik frá meginreglu, að túlka þröngt.

Í 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna er mælt fyrir um að starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi sé undanþegin virðisaukaskatti. Þýðing á verkum erlendra rithöfunda er undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli umrædds 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða fagurbókmenntir eða einhvern annan flokk bókmennta. Þýðing bókmenntaverks er talin hugverk (eigið framlag) þýðanda sem sambærilegt er verkum rithöfunda og tónskálda enda verður að telja að þýðandi geti leyft sér visst listrænt frelsi gagnvart hinum upphaflega texta. Þýðing kvikmynda, m.a. fyrir sjónvarp, er undanþegin og gildir það bæði um þýðingu á listrænu efni, fræðsluefni og léttmeti.

Önnur þýðingarstarfsemi en þýðing bókmenntaverka og kvikmynda er hins vegar virðisaukaskattsskyld. Hér má t.d. nefna þýðingu leiðbeiningarrita um meðferð söluvöru, auglýsingatexta, fagrita, tæknilegs og vísindalegs texta þar sem fyrst og fremst er krafist nákvæmni í þýðingu (og þekkingar á efninu) á kostnað hins listræna frelsis. Starfsemi löggiltra skjalaþýðenda er að sama skapi virðisaukaskattsskyld, sbr. bréf ríkisskattstjóra frá 17. ágúst 1990 (tilv. 126/90). Löggiltum skjalaþýðanda ber því að innheimta virðisaukaskatt af þýðingum sem hann vinnur í skjóli löggildingar sinnar nema þegar um er að ræða þýðingar á verkum erlendra rithöfunda og þýðingar á kvikmyndum eins og áður segir.

Undanþágan í 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 nær ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi. M.ö.o. þá er ekki heimilt að færa til innskatts virðisaukaskatt vegna kaupa á aðföngum til þýðingarþjónustu sem fellur undir 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Um innskattsrétt þeirra sem hafa með höndum blandaða starfsemi þ.e. starfsemi sem er að hluta til virðisaukaskattsskyld og að hluta til undanþegin skattskyldu fer eftir II. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

II.
Sala á þýðingarþjónustu til útlanda.

Þýðingarþjónusta sem fellur undir 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 (þýðing á verkum erlendra rithöfunda og kvikmyndum) er undanþegin virðisaukaskatti hvort sem hún er seld innanlands eða til útlanda. Önnur þýðingarþjónusta, sem er virðisaukaskattsskyld við sölu innanlands, kann að vera undanþegin virðisaukaskatti þegar hún er seld til útlanda.

Í 12. gr. virðisaukaskattslaga er fjallað um útflutning á vöru og þjónustu. Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. er mælt fyrir um að þjónusta, sem veitt er erlendis, sé undanþegin skattskyldri veltu. Með þessu undanþáguákvæði er aðeins verið að undanþiggja þjónustu sem innt er af hendi utan íslenskrar lögsögu.

Í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. er hins vegar kveðið á um undanþágu frá skattskyldri veltu þegar þjónusta er innt af hendi hér á landi en að öllu leyti, eða að hluta til, nýtt erlendis af aðila sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi. Þar segir að sala á þjónustu til aðila sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi sé undanþegin skattskyldri veltu, enda sé þjónustan nýtt að öllu leyti erlendis. Jafnframt segir að sala á þjónustu til aðila sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi sé undanþegin skattskyldri veltu þó að þjónustan sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa á þjónustunni til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laganna.

Ákvæði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 tekur aðeins til þeirrar þjónustu sem talin er upp í ákvæðinu. Í c-lið 10. tölul. segir að ráðgjafaþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærileg sérfræðiþjónusta, þó ekki vinna við eða þjónusta sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi, sé undanþegin skattskyldri veltu. 

Með hliðsjón af samræmingarsjónarmiðum er það álit ríkisskattstjóra að við túlkun á orðalaginu "önnur sambærileg sérfræðiþjónusta" í c-lið beri að líta til 18. gr. áðurgildandi laga nr. 10/1960, um söluskatt. Samkvæmt 18. gr. söluskattslaga bar að greiða sérstakan söluskatt af lögfræðiþjónustu, verkfræðiþjónustu, tæknifræðiþjónustu, hagfræðiþjónustu, viðskiptafræðiþjónustu, arkitektaþjónustu, náttúrufræðiþjónustu, landafræðiþjónustu, endurskoðendaþjónustu og hliðstæðri þjónustu svo sem þjónustu skjalaþýðenda, dómtúlka og hliðstæðra aðila.

Með hliðsjón af framansögðu er það álit ríkisskattstjóra að einungis skjalaþýðendur sem hafa löggildingu sem slíkir falli undir c-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Auk þess falla þar einungis undir þau verk löggiltra skjalaþýðenda sem þeir vinna í skjóli löggildingar sinnar. Öll önnur þýðingarvinna er því virðisaukaskattsskyld þegar hún er seld til útlanda, sbr. þó umfjöllun um 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna

Ef þýðingarþjónusta fellur undir c-lið, 10 tölul. 1. mgr. 12. gr. þá innheimtir seljandi ekki virðisaukaskatt við sölu. Það hefur þó ekki áhrif á innskattsrétt seljanda. Hann hefur rétt til innskattsfrádráttar skv. almennum reglum, með þeim takmörkunum sem leiða af 16. gr. virðisaukaskattslaga.

Þess ber að geta að kaupandi þýðingarþjónustu, sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi, gæti sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli reglugerðar nr. 288/1995. Skilyrði endurgreiðslu eru að virðisaukaskatturinn af kaupunum varði atvinnustarfsemi sem aðili rekur erlendis, að starfsemi hins erlenda fyrirtækis væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef hún væri rekin hér á landi og að um sé að ræða virðisaukaskatt sem skráður aðili hér á landi gæti talið til innskatts eftir ákvæðum 15. og 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Ríkisskattstjóri biðst velvirðingar á þeim óhæfilega drætti sem orðið hefur á því að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum