Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1017/2002

30.7.2002

Viðskipti með sjávarafla og aflamark

30. júlí 2002
G-Ákv. 02-1017

Bréf þetta er ritað skattstjórum á grundvelli 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Athygli ríkisskattstjóra hefur verið vakin á viðskiptum af tilteknum toga með sjávarafla og aflaheimildir milli útgerða og fiskvinnslufyrirtækja. Samkvæmt frásögnum eru viðskiptin með eftirgreindum hætti:

Samið er um kauprétt fiskvinnslu á tilteknum afla. Fyrir aflann skal fiskvinnslan greiða tiltekna fjárhæð í peningum, en jafnframt skal hún leggja útgerðinni til tiltekið aflamark (leigukvóta). Aflamarkið getur verið almennt aflamark, krókaaflamark, þorskaflahámark eða sóknardagar eftir því sem veiðileyfi viðkomandi skips eða báts stendur til. Algengt er að fyrir hvert tonn af óslægðum þorski leggi fiskvinnslan til aflamark fyrir tonn af þorski (tonn á móti tonni).

Af framangreindu tilefni vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Við færslu viðskiptanna til bókar og í skattskilum verður að líta á viðskiptin í heild. Ljóst er að útgerðin fær fyrir afla, ekki aðeins þá greiðslu sem reidd er fram í peningum, heldur einnig aflamark. Heildarverð aflans er því samtala þeirrar fjárhæðar sem greidd er í peningum og verðmætis þess aflamarks sem lagt er til. Til tekna hjá útgerðinni, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, ber að færa heildarverðið og telst það til virðisaukaskattsskyldrar veltu hennar, sbr. 11. gr. laga nr. 50/1988. Útgerðinni ber að tilgreina á sölureikningi heildarverð afla og virðisaukaskatt af því verði, sbr. 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988. Fiskvinnslan byggir síðan gjaldfærslu og innskattsfærslu vegna kaupa á afla á sölureikningi útgerðar.

Aflamark eru bundið við tiltekið skip eða bát, sem veiðileyfi hefur. Fiskvinnsla getur ekki haft yfirráð aflamarks nema að eiga slíkt fley til að vista aflamark á. Dæmi eru um slíkt og er þá aflamark flutt af skipi fiskvinnslunnar til skips útgerðar. Algengara er þó í umræddum viðskiptum að fiskvinnslan eigi ekki skip og þar af leiðandi ekki aflamark. Gerast kaupin þá þannig að fiskvinnsla greiðir fyrir aflamark sem flutt eru af skipi seljanda þeirra yfir á skip útgerðar. Fiskvinnslan eignast þannig að formi til aldrei heimildina heldur leggur út fyrir henni.

Í síðarnefnda tilvikinu má ljóst vera að fé það sem fiskvinnslan reiðir fram við kaup aflamarks myndar, ásamt beinu fjárgreiðslunni fyrir aflann, heildarverð hans. Í fyrrnefnda tilvikinu, þ.e. þegar fiskvinnslan hefur yfir að ráða úthlutuðu aflamarki, kann hins vegar að vera að verðmæti aflamarks liggi ekki fyrir með jafn óyggjandi hætti. Í slíkum tilvikum er rétt að miða verðmæti við almennt gangverð, sbr. skattverðsreglu 2. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1988. Þar er kveðið á um að við skipti á vörum og þjónustu beri að miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Við að leiða fram almennt gangverð aflamarks má leita fanga hjá Fiskistofu þar sem skylt er að tilkynna henni hennar flutning aflamarks og verð þess. Einnig er rétt að kanna gangverð aflamarks hjá kvótasölum, t.d. kvótamiðlun LÍÚ. Um gangverð á afla er hægt að afla upplýsinga hjá fiskmörkuðum og Verðlagsstofu skiptaverðs.

Í þeim tilvikum að fiskvinnsla framselur til útgerðar eigið aflamark er um sölu að ræða. Tekjur af slíkri sölu ber fiskvinnslunni að sjálfsögðu að færa sér til tekna í bókhaldi sínu og skattskilum. Í þessu sambandi skal ítrekað að um er að ræða sölu aflamarks (kvótaleigu), en ekki sölu aflahlutdeildar (kvótasölu), sem kaupanda bæri að eignfæra. Söluverð aflamarks telst til veltu undanþeginnar virðisaukaskatti, skv. 6. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, eins og ákvæðið hefur verið túlkað í skattframkvæmd.

Aflamark, sem útgerðin kaupir með framangreindum hætti, hvort heldur er af fiskvinnslunni eða þriðja aðila fyrir milligöngu fiskvinnslunar, er henni heimilt að gjaldfæra. Sem tekjur af viðskiptunum ber að færa eins og að framan greinir heildarverðið sem fæst fyrir aflann í formi peningagreiðslu og aflaheimildar. Ekki er útgerðinni heimilt að færa aðeins þann hluta sem greiddur er í peningum til tekna. Slíkt samræmist hvorki ákvæðum laga nr. 50/1988 varðandi skattskylda veltu og skattverð, eins og að framan er rakið, né samræmist það ákvæði 6. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994 um að bókhaldi skuli haga þannig að á skýran og aðgengilegan hátt megi rekja viðskipti og notkun fjármuna.

Sé aflamark flutt á skip útgerðar áður en gagngjaldið (aflinn) er afhent, þá verður að líta á flutninginn sem fyrirframgreiðslu sem útgerðinni ber að standa skil á virðisaukaskatti af, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum