Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1012/2002

5.6.2002

Póstþjónusta - virðisaukaskattur

5. júní 2002
G-Ákv. 02-1012

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 14. maí 2002, þar sem óskað er eftir

"heimild til undanþágu frá virðisaukaskatti á veltu á almennum dreifisendingum með blaðinu með vísan til 2. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, 3. mgr. 7. tölulið þar sem fjallað er um undanþágur frá virðisaukaskatti."

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Í tilefni af orðalagi fyrirspurnar yðar skal tekið fram að gjaldaskrifstofa ríkisskattstjóra sinnir því lögboðna hlutverki að gefa út túlkanir á réttarreglum um virðisaukaskatt, en veitir eigi heimild til að telja tiltekin viðskipti undanþegin virðisaukaskatti.

7. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 46/1995, mælir fyrir um að tiltekin þjónusta sé undanþegin virðisaukaskatti. Í fyrsta málslið segir að póstþjónusta sem opinber aðili hefur einkaleyfi á, samkvæmt póstlögum nr. 33/1986 (núg. lög nr. 142/1996), sé undanþegin virðisaukaskatti. Í öðrum málslið segir að undanþágan nái einnig til viðtöku og dreifingar á öðrum árituðum bréfapóstsendingum, þar með talin póstkort, blöð og tímarit, og til almennra dreifisendinga og opinna bréfa. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 46/1995 kemur fram, að með þessari breytingu á ákvæðinu er lagt til að

"undanþegin verði frá skattskyldu viss póstþjónusta sem að mestu er sinnt af Póst- og símamálastofnun en ekki fellur undir einkaleyfi stofnunarinnar samkvæmt póstlögum. Af því leiðir að sams konar þjónusta í höndum annarra aðila verður einnig undanþegin skattskyldu."

Í samræmi við orðalag ákvæðis 7. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 og í ljósi þess að skýra ber undanþáguákvæði laga nr. 50/1988 þröngri lögskýringu er það álit ríkisskattstjóra að sú starfsemi að taka við og dreifa þeim póstsendingum sem taldar eru upp í öðrum málslið umrædds ákvæðis sé undanþegin virðisaukaskatti.

Rétt er að geta þess að þegar aðili hefur með höndum starfsemi sem að hluta er virðisaukaskattskyld en að hluta undanþegin skattskyldu, sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988, gildir sú almenna regla að telja má virðisaukaskatt af innkaupum til blandaðra nota til innskatts í sama hlutfalli og sala skattskyldrar vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) viðkomandi reikningsárs er af heildarveltu ársins, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Sérreglur gilda þó um færslu innskatts af ökutækjum og fasteignum sbr. 7.-9. gr. A sömu reglugerðar. Vert er að vekja athygli yðar á því að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar, þ.m.t. leigu sendi- og vörubifreiða með leyfða heildarþyngd undir 5000 kg eða minna, sem uppfylla tiltekin skilyrði sbr. 1. tl. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, nema þau séu eingöngu notuð í virðisaukaskattskyldri starfsemi, þ.e. vegna sölu á vörum og skattskyldri þjónustu. Öll önnur notkun þeirra, s.s. notkun í þágu starfsemi sem fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts, veldur því að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun ökutækjanna.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum