Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1011/2002

5.6.2002

Fjölskylduþjónusta Þjóðkirkjunnar - virðisaukaskattur

5. júní 2002
G-Ákv. 02-1011

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 21. mars 2002, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort Fjölskylduþjónusta kirkjunnar sé virðisaukaskattsskyld.

Í bréfi yðar er tiltekið að starf Fjölskylduþjónustu kirkjunnar sé einkum fólgið í viðtalsmeðferð fyrir hjón, sambýlisfólk og fjölskyldur sem prestar vísa til hennar ef þeir telja sérstakrar fagþekkingar þörf. Þá geti fólk einnig leitað beint til Fjölskylduþjónustunnar. Fólk komi til Fjölskylduþjónustunnar vegna vandamála í einkalífi. Fjölskylduþjónustan veiti einnig prestum, djáknum og öðru starfsfólki kirkjunnar handleiðslu varðandi starfshlutverk þeirra. Við Fjölskylduþjónustuna eru starfandi félagsráðgjafar og sálfræðingar, auk þess sem Fjölskylduþjónustan hefur á að skipa utanaðkomandi handleiðara sem er starfsfólki til ráðgjafar um erfið mál. Í bréfi yðar segir að litið sé á starf stofnunarinnar sem þátt kirkjulegrar sálgæsluþjónustu á sviði kærleiksþjónustu (díakoníu).

Fram kemur að tekjur Fjölskylduþjónustunnar eru tryggðar með tvennum hætti. Annars vegar leggur Þjóðkirkjan henni til fé til að standa undir rekstrarkostnaði, og hins vegar greiða þeir sem þiggja þjónustuna gjald fyrir viðtölin samkvæmt gjaldskrá hennar. Í bréfi yðar segir að gjaldtakan sé nú krónur 2000 fyrir hvert viðtal, en í um 30-40% tilvika sé gjaldið fellt niður vegna bágrar fjárhagsstöðu fjölskyldna sé þess sérstaklega óskað.

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Í 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um að undanþegin virðisaukaskatti sé félagsleg þjónusta, svo sem rekstur leikskóla, barnaheimila, skóladagheimila og upptökuheimila og önnur hliðstæð þjónusta. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að með félagslegri þjónustu í skilningi ákvæðisins sé átt við aðstoð er stuðlar að velferð einstaklinga og veitt er á grundvelli samhjálpar af hálfu hins opinbera eða samtökum er hafa slíka aðstoð að markmiði sínu.

Fyrir liggur að umspurð þjónusta grundvallast á starfsreglum kirkjuþings um sérhæfða þjónustu kirkjunnar við fjölskylduna sem birtar voru með auglýsingu nr. 824 frá 8. nóvember 2000 og settar eru samkvæmt heimild í 59. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð skal sjóðurinn standa straum af kostnaði, af þeim toga sem um er spurt, eftir ákvörðun kirkjuráðs.

Á grundvelli framanritaðs og að því virtu með hvaða hætti stöðu og starfsháttum Fjölskylduþjónustu kirkjunnar er skipað, telur ríkisskattstjóri að umspurð þjónusta falli undir undanþáguákvæði 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Í erindi yðar er einnig tiltekið að Fjölskylduþjónustan hafi á að skipa utanaðkomandi handleiðara sem er starfsfólki til ráðgjafar um erfið mál. Ekki kemur fram hvort sá aðili hefur virðisaukaskattsskylda starfsemi með höndum. Af því tilefni skal tekið fram að undanþágur skv. 3. mgr. ná aðeins til sölu eða afhendingar þeirrar vinnu og þjónustu sem þar er tiltekin en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum