Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1004/2002

20.3.2002

Sala eignarleigufyrirtækja á notuðum bifreiðum.

20. mars 2002
G-Ákv. 02-1004

Vísað er til bréfa yðar, dags. 7. nóvember 2000 og 27. febrúar 2001, þar sem þér óskið eftir áliti ríkisskattstjóra á nokkrum atriðum er varða meðferð virðisaukaskatts við sölu á notuðum bifreiðum. Þar sem fyrirspurnin var nokkuð víðtæk og almennt orðuð var haft samband við yður símleiðis til að reyna að afmarka hina raunverulegu fyrirspurn. Eftir það símtal lá fyrir að óskað var svars við því hvort eignarleigufyrirtæki megi nota skattverðsreglu 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1988 og frádráttarreglu 8. mgr. 16. gr. sömu laga við útreikning á virðisaukaskatti.

Til svars við fyrirspurn yðar skal tekið fram að með 17. gr. laga nr. 122/1993 um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, var ákvæði 10. gr. laga nr. 50/1988 breytt þannig að það næði ekki aðeins til notaðra bifreiða heldur einnig til annarra notaðra vélknúinna ökutækja. Þá var einnig gerð sú breyting að tekið var fram í 2. mgr. 10. gr. að bílaleigum væri heimilt að ákvarða skattverð skv. 1. mgr. 10. gr. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarps til laga nr. 122/1993 kemur fram að

"Ákvæði 1. mgr. 10. gr. er ekki aðeins talið ná til hefðbundinnar sölu á bifreiðum og öðrum ökutækjum,.....".

 Í ljósi þessa hefur ríkisskattstjóri litið svo á að skattverðsregla 10. gr. laga nr. 50/1988 taki til viðskipta fjármögnunarfyrirtækja með notuð ökutæki (sjá bréf ríkisskattstjóra, dags. 8. febrúar 1994, tilv. 615/94).

Með 3. gr. laga nr. 40/1995 um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, var nýrri málsgrein bætt við 16. gr. laga nr. 50/1988. Hún inniheldur sérstaka frádráttarreglu til handa þeim sem kaupa og selja notuð ökutæki í atvinnuskyni og haga virðisaukaskattsskilum skv. 1. mgr. 10. gr. sömu laga. Sú breyting var einnig gerð á 2. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1988 að tryggingafélögum, var bætt í 2. mgr. 10. gr. Af athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 50/1988 er ljóst að ákvæði 10. gr. laganna var sett með það í huga að tryggja samkeppnisstöðu þeirra sem kaupa notaðar bifreiðir til endursölu í atvinnuskyni gagnvart viðskiptum af sama toga milli einkaaðila. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 40/1995 segir að

"Þar sem tilgangur með starfsemi tryggingarfélaga, líkt og bílaleiga, er annar en að kaupa notuð vélknúin ökutæki til endursölu í atvinnuskyni er mælt með því að starfsemi þeirra verði talin upp í 2. mgr. 10. gr."

Í greinargerðinni segir ennfremur að frádráttarheimildinni sé ekki ætlað að ná til bílaleiga og tryggingafélaga. Með hliðsjón af þessum ummælum í greinargerð er það álit ríkisskattstjóra að það sama gildi um fjármögnunarfyrirtæki og þeim sé því ekki heimilt að nýta sér frádráttarreglu 8. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. 

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum