Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 1003/2002

21.1.2002

Virðisaukaskattur - heilbrigðisþjónusta - osteopathic medicine

21. janúar 2002
G-Ákv. 02-1003

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 25. október 2001, þar sem óskað virðist eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort þjónusta þeirra sem lokið hafa Osteopathic medicine-námi, sé undanþegin virðisaukaskatti.

Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skv. 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, undanþegin virðisaukaskatti. Við afmörkun á hugtakinu "önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta" í framangreindum skilningi er í skattframkvæmd miðað við að starfsemi þurfi að uppfylla tvö skilyrði;  1) að um sé að ræða þjónustu sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál og 2) að þjónustan felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar. Jafnframt hefur í skattframkvæmd verið litið svo á að starfsemi sálfræðinga sem hafa leyfi til að kalla sig sérfræðinga skv. reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga, og starfa á heilbrigðissviði sé undanþegin skv. umræddum 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. (sbr. og 2. tölul. sömu málsgreinar starfi þeir á sviði félagslegrar þjónustu). Í vafatilvikum hefur ríkisskattstjóri leitað álits heilbrigðisyfirvalda á því hvort viðkomandi starfsemi falli undir viðurkennda heilbrigðisþjónustu að mati heilbrigðisyfirvalda.

Með bréfi dags. 1. febrúar 2002 var leitað eftir áliti landlæknis á því hvort þeir sem lokið hafa Osteopathic medicine-námi teljist falla undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál. Í bréfi landlæknis, sem barst ríkisskattstjóra 14. febrúar 2002, segir m.a. að "Osteopathic medicine" sé ekki viðurkennd heilbrigðisstétt á Íslandi en stéttin sé hins vegar áberandi í löndum beggja vegna Atlantshafsins og í sumum ríkjum Bandaríkjanna eigi osteopatar (doctors of osteopathy) sér ekki ósvipaða stöðu og læknar. Hnykkjarar séu hins vegar viðurkennd heilbrigðisstétt en viðkomandi hafi ekki, svo vitað sé, sótt um viðurkenningu sem slíkur. Loks segir í bréfi landlæknis "Miðað við þetta er því ekki hægt að fallast á að þeir sem lokið hafa námi í "osteopathic medicine" falli undir lög um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál, að óbreyttu"

Undanþágur 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt ber samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum að túlka þröngt. Með vísan til umsagnar landlæknis er að svo stöddu ekki unnt að líta svo á að þjónusta yðar falli undir undanþágu 1. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt Starfsemin er því virðisaukaskattsskyld samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. sömu laga.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum