Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 992/2001

5.12.2001

Vsk - frjáls skráning vegna leigu á fasteign – tryggingarfé

5. desember 2001
G-Ákv. 01-992

Vísað er til bréfs yðar, dags. 13. júní 2000, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvenær skuli standa skil á útskatti af tryggingarfé skv. 6. gr. reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.

Til svars við fyrirspurninni sendist yður bréf ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2001, (tilv. G-ákv 989/01) þar sem fjallað er um frjálsa skráningu vegna leigu á fasteign og ýmis álitamál henni tengd þ.á.m. tryggingarfé.

Til viðbótar skal eftirfarandi tekið fram: 

Það er meginregla samkvæmt lögum  nr. 50/1988, um virðisaukaskatt að engu breytir um skattskyldu í hverju greitt er, þ.e. reiðufé eða öðru, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Það er einnig meginregla virðisaukaskattslaga að tímamark skattskyldu er tengt afhendingu vöru eða skattskyldrar þjónustu, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt afhendingarreglunni ber að gefa út sölureikning við sérhverja afhendingu, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Það er því afhending hins selda sem ræður því til hvaða uppgjörstímabils skattskyld velta telst og það breytir engu um tímamark skattskila þótt greiðsla fari fram eftir afhendingu. Í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur fram sú skýringarregla að ef reikningur vegna afhendingar er gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu þá telst afhending hafa farið fram á útgáfudegi reiknings.

Frá afhendingarreglunni eru m.a. eftirfarandi undantekningar: 1) Þjónustusölum, öðrum en þeim sem skrá sölu sína í sjóðvél, er heimilt að gefa út sölureikning síðasta dag hvers mánaðar vegna þeirrar þjónustu sem innt var af hendi frá upphafi til loka þess mánaðar, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993. 2) Innborgun, þ.e. greiðsla sem fram fer fyrir afhendingu, telst til skattskyldrar veltu þess tímabils sem greiðslan fer fram á, sbr. 3. mgr. 13 gr. laganna. Með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 11. gr. laganna og orðalagi 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 577/1989, verður að telja að setning tryggingar fyrir vangoldinni leigu teljist til innborgunar í skilningi laganna.

Í samræmi við framangreint ber almennt að standa skil á útskatti af umræddu tryggingarfé við upphaf leigutíma þ.e. þegar tryggingin er sett. Sé ekki gengið að tryggingu ber í lok leigutíma, er trygging fellur úr gildi eða er endurgreidd, að gefa út kreditreikning, sbr. 3. mgr. 20 gr. laganna.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum