Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 984/2001

18.10.2001

Opinber þjónustufyrirtæki - virðisaukaskattur - hlutfallslegur innskattsfrádráttur.

18. október 2001
G-Ákv. 01-984

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. maí 2001, þar sem þér óskið eftir því að A fái að nýta heimild 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, um hlutfallslegan innskattsfrádrátt. Meðfylgjandi bréfinu var yfirlit tekna A vegna rekstrarársins 2000.

Með 3. gr. reglugerðar nr. 18/2001 var framangreindu ákvæði 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993 breytt. Í 2. mgr. 10. gr. er nú kveðið á um heimild til handa opinberum þjónustufyrirtækjum til hlutfallslegs innskattsfrádráttar í nánar tilteknum tilvikum. Framangreint heimildarákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 18/2001 öðlaðist gildi 19. janúar sl. og getur því ekki verið grundvöllur innskattsfrádráttar fyrir rekstrarárið 2000.

Varðandi þau skilyrði sem liggja til grundvallar heimild núgildandi 2. mgr. 10. gr reglugerðar nr. 192/1993 skal þess getið að fyrirtæki þarf að vera opinbert þjónustufyrirtæki sem selur vörur eða skattskylda þjónustu til annarra og vera skattskylt samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Einnig er það gert að skilyrði að hinn virðisaukaskattsskyldi þáttur í starfsemi fyrirtækisins sé fjárhagslega og bókhaldslega skýrt aðgreindur frá öðrum þáttum í starfsemi þess. Við þessar aðstæður hefur frá og með 2001 verið leyfður hlutfallslegur innskattur af sameiginlegum kostnaðarliðum skattskyldra og óskattskyldra þátta eftir matsreglu 6. gr. reglugerðar nr. 192/1993, en ekki eftir veltuhlutfalli skv. 5. gr. reglugerðarinnar eins og fyrirspyrjandi gerir ráð fyrir. Heimildin til færslu hlutfallslegs innskatts tekur ekki til virðisaukaskatts vegna fasteigna.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum