Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 979/2001

29.6.2001

Virðisaukaskattur af veglyklum í H

29. júní 2001
G-Ákv. 01-979

Vísað er til bréfs yðar, dags. 13. október 2000, þar sem spurt er hvort afhending veglykla í H falli undir virðisaukaskattsskylda veltu. Í bréfinu kemur fram að A ehf. selur aðgang að H og afhendir veglykla til þeirra sem gera áskriftarsamning um aðgang að göngunum. Veglykilinn þjónar eingöngu þeim tilgangi að gera áskriftarsamning mögulegan en hann sendir boð til teljara í göngunum í hvert sinn sem þjónustukaupi fer um göngin. Þegar greitt er fyrir áskriftarsamninginn eru greiddar kr. 2000 sérstaklega fyrir lykilinn og fæst sú upphæð endurgreidd ef lyklinum er skilað.

Til svars við fyrirspurninni skal tekið fram að skattskyldusvið laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt er mjög víðtækt, sbr. 2. gr. Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er í lögunum sérstaklega undanþegin. Undanþágur frá virðisaukaskatti eru tæmandi taldar í lögum nr. 50/1988 og ljóst er að þær ber að túlka þröngt. Samkvæmt 11. gr. sömu laga telst sérhver afhending vöru og skattskyldrar þjónustu gegn greiðslu til skattskyldrar veltu nema undanþága verði á byggð á einhverju ákvæða 12. gr. sömu laga. Ekki verður séð að neitt undanþáguákvæði laganna geti átt við um afhendingu A ehf. á veglyklum gegn gjaldi.

Sala á aðgangi að H er virðisaukaskattsskyld og ber 14% virðisaukaskatt sbr. 9. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988. Sala á veglyklum til þeirra sem gera áskriftarsamning um aðgang að H telst vera slíkur þáttur í sölu á að aðgangi að göngunum að hún verður felld undir sama ákvæði.

Sala á veglyklum er því virðisaukaskattsskyld og ber 14% virðisaukaskatt skv. 9. tölul. 2. mgr.14. gr. laga nr. 50/1988. Ef veglykli er skilað og leigufjárhæð endurgreidd ber A ehf. að gefa út kreditreikning til handhafa veglykils skv. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum