Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 976/2001

15.6.2001

Endurgreiðsla virðisaukaskatts - íbúðarhúsnæði - sumarhús/orlofshús

15. júní 2001
G-Ákv. 01-976

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dagsett 4. apríl 2000, þar sem þér óskið eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvernig afgreiða skuli beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhalds á íbúðarhúsnæði þegar um er að ræða húsnæði sem alltaf hefur verið skráð íbúðarhúsnæði en eigandi þess er ekki með skráð lögheimili sitt þar. Umrætt hús er staðsett í þorpi úti á landi en enginn er skráður með lögheimili í húsinu. Eigandi hússins notar það einungis til íbúðar nokkrar vikur á ári en að öðru leyti stendur það autt.

Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, skal endurgreiða 60% virðisaukaskatts sem annars vegar byggjendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt vegna vinnu á byggingarstað og hins vegar sem eigendur íbúðarhúsnæðis hafa greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis.

Skilgreiningu á hugtakinu íbúðarhúsnæði er hvorki að finna í lögum nr. 50/1988 né reglugerð nr. 449/1990. Í skattframkvæmd hefur hér verið miðað við að til íbúðarhúsnæðis teljist heilsársíbúð í eftirgreindum skilningi: Húsnæðið sé byggt samkvæmt skipulagi sem íbúðarhúsnæði, þ.e. við byggingu ætlað til samfelldrar notkunar á öllum tímum árs (sjá bréf ríkisskattstjóra ákv. 242/1991, 262/1991, 287/1991 og 386/1992). Að auki þarf húsnæðið að vera skráð sem íbúðarhúsnæði í skrám Fasteignamats ríkisins (sjá bréf ríkisskattstjóra ákv. 858/1998 og alm. 16/1998).

Í 2. gr. reglugerðar nr. 449/1990 kemur fram að endurgreiðslan tekur m.a. hvorki til orlofshúsa né sumarbústaða. Þannig er ekki endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu við hefðbundna sumarbústaði í dreifbýli (bústaði sem skipulagðir eru og byggðir í því skyni að dveljast þar hluta úr ári) eða orlofsbyggðir félagasamtaka í dreifbýli. Ákvæði 2. gr. kemur þó ekki í veg fyrir að menn fái endurgreiðslu vegna heilsársíbúða, sbr. skilgreininguna að ofan, sem þeir kunna að eiga umfram það húsnæði þar sem þeir eiga lögheimili sitt. Þá geta t.a.m. félagasamtök fengið endurgreiðslu vegna heilsársíbúða í þeirra eigu. Endurgreiðsla tekur þó aldrei til húsnæðis fyrir starfsemi sem fellur undir 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Sjá t.d. bréf nr. 242/1991.

Með vísan til framanritaðs virðist það húsnæði sem þér spyrjið um teljast til íbúðarhúsnæðis í skilningi 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og reglugerðar nr. 449/1990.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara bréfi yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum