Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 972/2001

7.3.2001

Hönnun leikbúninga

7. mars 2001
G-Ákv. 01-972

Ríkisskattstjóri hefur móttekið bréf yðar, dags. 8. ágúst 2000, þar sem þér sækið um undanþágu frá innheimtu og greiðslu virðisaukaskatts þegar þér, sem hönnuður leikbúninga, vinnið fyrir aðila sem sjálfir eru undanþegnir greiðslu virðisaukaskatts.

Til svars við erindi yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. lagagreinarinnar. Í 12. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 segir að starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi sé undanþegin virðisaukaskatti.

Ákvæði 12. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 hefur að geyma undanþágu frá meginreglunni um virðisaukaskattsskyldu og því ber skv. almennum lögskýringarsjónarmiðum að skýra ákvæðið þröngt. Ríkisskattstjóri hefur talið að undanþáguákvæðið taki ekki til sjálfstætt starfandi hönnuða búninga. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 647/1995 segir hins vegar, að ekki verði séð að ástæða sé til mismunandi skattalegrar meðferðar eftir því hvort um er að ræða höfund leikmyndar eða höfund leikbúninga til notkunar á sviði eða við kvikmyndagerð og telur nefndin að þessi störf geti fléttast saman í ýmsum tilvikum. Vísar nefndin til þess að í skattframkvæmd hefur verið miðað við að starfsemi höfunda leikmynda njóti undanþágu frá virðisaukaskatti vegna ákvæða 12. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Það er álit ríkisskattstjóra að með hliðsjón af þessum úrskurði yfirskattanefndar verði að telja hönnuð leikbúninga, til notkunar á sviði eða við kvikmyndagerð, undanþegin virðisaukaskattsskyldu. Ríkisskattstjóri leggur þó áherslu á að undanþágan tekur einungis til þess aðila sem telst hönnuður eða höfundur leikbúninga en ekki til þeirra sem starfa við að búa til búninga eftir hugmyndum annarra s.s. starfsmanna á saumastofu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum